Sveinbjörn Iura hefur lokið keppni á heimsmeistaramótinu sem haldið er í Búdapest þessa dagana en það hófst 6. júní og lýkur 13. júní. Sveinbjörn keppti í gær í 81 kg flokknum og mætti þar Lee Sungho frá Kóreu. Eins og venjulega þá er þetta barátta um tökin en sá sem er sterkari þar stjórnar glímunni og var Lee þar öllu sterkari. Eftir umþað bil eina mínútu fær Sveinbjörn á sig refsistig fyrir aðgerðarleysi og skömmu síðar skorar Lee ippon þegar hann komst inn í seionage kast og þar með var keppninni lokið hjá Sveinbirni og hjá Íslandi því hann var eini keppandinnn okkar á HM að þessu sinni. Heimsmeistaramótið var síðasta úrtökumótið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2021 og var þetta því síðasti möguleiki fyrir Sveinbjörn til að vinna sig inn á þá en því miður gekk það ekki eftir og verður hann því ekki þar á meðal keppenda. Hér má sjá viðureign þeirra Sveinbjörns og Lee og úrslitin í öllum flokkum.