Gull, silfur og bronsverðlaun á NM2022

Glæsilegu Norðurlandamóti er lokið en það var haldið dagana 23. og 24. apríl og var það fjölmennasta judomót sem haldið hefur verið hér á landi til þessa. Keppt var í senioraflokkum, U21 árs og U18 ára aldursflokkum og auk þess í aldursflokkum 30 ára og eldri og að lokum var keppt í blandaðri liðakeppni þar sem hvert lið er skipað þremur konum og þremur körlum. Íslendingar unnu fimm gullverðlaun, sjö silfur og átta brons í einstaklingskeppninni auk þess sem lið Íslands sigraði í liðakeppninni. Til gullverðlauna í senioraflokkum unnu þeir Zaza Simonishvili (JR) í -73 kg og Karl Stefánsson (JDÁ) í +100 kg flokki. Silfurverðlaun fengu þau Árni Pétur Lund (JR) í -81 kg og Daníela Daníelsdóttir (JR) +78 kg og Breki Bernhardsson (UMFS) og Egill Blöndal (UMFS) tóku bronsverðlaunin í -90 kg flokki. Í aldursflokki U21 árs unnust engin gullverðlaun en Matthías Stefánsson (ÍR) fékk silfur í -100 kg flokki og bronsverðlaunin í -73 kg flokki fengu þeir félagar Kjartan Hreiðarsson (JR) og Aðalsteinn Björnsson (JR) og Skarphéðinn Hjaltason (JR) í -90 kg flokki. Í aldursflokki U18 unnust aðeins ein verðlaun og var það Aðalsteinn Björnsson (JR) sem fékk bronsverðlaun í -73 kg flokki og jafnframt sín önnur verðlaun á mótinu. Í veterans flokkum þ.e. 30 ára og eldri unnust þrenn gullverðlaun. Bjarni Skúlason (JR) sigraði með algjörum yfirburðum M3-100 kg flokkinn, Jón Þór Þórarinsson (JR) sigraði í M1-90 kg flokki og Davið Kratsch (JR) í M1-73 kg flokki. Silfurverðlaun hlutu þau Máni Andersen (JR) M4-90 kg, Janusz Komendera (JR) M3-66 kg, Piotr Latkowski (UMFG) M4-73 kg og Edda Tómasdóttir (KA) F3-78 kg og bronsverðlaun hlutu þeir Ari Sigfússon (JR) M4-90 kg og Garðar Sigurðsson (JR) í M6-81 kg flokki. Eins og áður sagði þá sigraði Ísland liðakeppnina og var það sjötta gullið sem vannst. Liðið var skipað eftirfarandi mönnum sem skiptust á að keppa. Weronika Komendera -57 kg, Kjartan Hreiðarsson og Zaza Simonishvili -73 kg, Helena Bjarnadóttir -70 kg, Brerki Bernhardsson og Egill Blöndal -90 kg, Daníela Daníelsdóttir og Edda Tómasdóttir +70 kg og Bjarni Skúlason og Karl Stefánsson +90 kg. Fyrir utan ofangreinda voru allmargir okkar manna í 4-7 sæti og því ekki langt frá verðlaunum. Til hamingju öll með frábæran árangur.

Þrátt fyrir þennan stórviðburð í judo hér á landi þá fór því miður lítið fyrir íþróttafréttamönnum á mótinu og var eftir því tekið af áhorfendum sem spurðu margir hvernig á því stæði. En þetta var frábær skemmtun og gaman að fylgjast með eldri og reyndari keppnismönnum sem og okkar yngstu keppnismönnum sem margir hverjir voru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti. Framkvæmd mótsins var stórgóð og Judosambandi Íslands til mikils sóma en framkvæmdastjóri sambandsins, Þormóður Jónsson bar hitann og þungann af undirbúningnum sem er ekki lítill fyrir svona mót og á hann heiður skilið fyrir vel unnið verk sem og aðrir sem að undirbúningi komu og allir starfsmenn mótsins sem að lögðu á sig mikla vinnu til þess að sem best mætti til takast.

Nordic Judo Championships 2022 live streaming
23rd of April  mat 1  mat 2  mat 3
24th of April  mat 1  mat 2  mat 3

Hér eru úrslitin í einstaklingskeppninni og hér í liðakeppninni og stutt videoklippa frá keppninni. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, frá mótinu og frá uppsetningu þess.