Þá er fimmta Challenge International de la Ville de Differdange mótinu lokið í Luxembourg. Keppendur, þjálfarar og foreldrar alls tuttugu og tveir aðilar flugu til Brussel og keyrðu þaðan í bílaleigubílum til Luxemborgar og eru væntanleg aftur heim á morgun. JR- ingar voru með tíu keppendur og unnu þeir til fimm verðlauna, fjögur gull og eitt brons og urðu einnig í fjórða til fimmta sæti í nokkrum flokkum. Glæsileg frammistaða það. Emma Thueringer og Orri Helgason unnu gullverðlaun í U11, Helena Bjarnadóttir og Matas Naudziunas unnu gullverðlaun í U13 og Daniele Kucyte vann bronsverðlaunin í U15 ára. Þau Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson, Romans Psenicnijs, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson stóðu sig einnig mjög vel og unnu nokkrar viðureignir en það dugði þeim þó ekki til verðlauna. Marija Dragic Skúlason dæmdi á mótinu og stóð sig vel og fékk þar dýrmæta reynslu sem mun nýtast henni í dómgæslu hér heima. Þjálfarar JR þeir Guðmundur B. Jónasson, Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason eiga hrós skilið fyrir frammistöðu barnanna en þeir hafa sinnt þjálfun þeirra af ótrúlega mikilli elju og áhuga. Foreldrum barnanna skal einnig hrósað en þeir hafa verið mjög virkir og tekið þátt í starfinu hér heima með ýmsum hætti og einnig þegar þeir hafa haft tök á fylgt keppendum á erlend mót og aðstoðað þjálfarana við að halda utan um hópinn og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Til hamingju með árangurinn.