Kynning á dómarareglunum

Að lokinni sameiginlegri æfingu í JR næsta miðvikudag (24. jan) kl. 20:30 til 21:30 munu þeir Birki Hrafn Jóakimsson og Björn Sigurðarson kynna helstu breytingar á dómarareglum IJF og svara spurningum sem fram kunna að koma. Hér eru reglurnar kynnið ykkur þær vel  fyrir fundinn.

Reykjavík Judo Open að bresta á

Judosamband Íslands heldur nú í sjötta sinn Reykjavík Judo Open í samvinnu við RIG (WOW Reykjavik International Games) og er þetta opið alþjóðlegt mót fyrir karla og konur sem verður haldið í Laugardalshöllinni laugardaginn 27. janúar og hefst með forkeppni frá 10:00 til 13:00 og brons og úrslitaglímur verða svo frá  14:30 til 16:00.

Á mótið í gegnum tíðina hafa komið afar sterkir þátttakendur frá fjölmörgum löndum og í ár koma keppendur frá Tékklandi, Frakklandi, Bretlandi, Póllandi,  og auðvitað frá Norðurlöndunum. Margir heimsklassa júdómenn hafa verið á meðal þátttakenda frá upphafi, bæði heims og Ólympíumeistarar og í fyrra var fyrrum Evrópumeistari, Marcus Nyman  á meðal þátttakenda. Í ár hafa erlendir keppendur aldrei verið fleiri og jafnari og að sjálfsögðu verða allir  okkar bestu judo menn og konur á meðal þátttakenda. Daginn eftir mót verður haldin sameiginleg æfing með öllum keppendum sem Petr Lacina landsliðsþjálfari Tékka mun stjórna en hann er þjálfari eins þekktasta judo manns heims Lukas Krpalek,  Evrópu, heims og Ólympíumeistara. Ásamt Petr hafa umsjón með æfingunni landsliðsþjálfarar Íslands (u18, u21 og seniora) þau Anna Soffía Víkingsdóttir, Hermann Ragnar Unnarsson og Jón Þór Þórarinsson. Æfingin verður frá 10-12 og haldin hjá Judodeild Ármanns.

Hér má sjá þátttakendur og úrslit fyrri móta:
2013
2014201520162017, 2018?

Vigtun keppenda hjá JR að Ármúla 17 föstudaginn 26. jan. frá kl. 18-19.

Yfirlýsing ÍSÍ

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur gefið út yfirlýsingu vegna frásagna kvenna í íþróttahreyfingunni um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir innan hreyfingarinnar. Judofélag Reykjavíkur tekur heilshugar undir þessa yfirlýsingu frá ÍSÍ og leggur áherslu á að ofbeldi verður aldrei liðið innan okkar íþróttar.
Hér er yfirlýsing ÍSÍ í heild sinni og hér eru svo upplýsingar um forvarnir og fræðslu.

Kvennaæfingarnar 15 ára + byrja í kvöld

Hugo Lorain og Adam Tumowski eigast við

Kvennaæfingarnar fyrir 15 ára og eldri byrja í kvöld. Æfingar verða á þriðjudögum og fimmtudögum kl 20-21. Þjálfari er Hugo Lorain frá Frakklandi. Iðkendur úr öðrum klúbbum eru velkomnir.

Dómararáðstefna EJU í Mittersill

JSÍ dómararnir þeir Birki Jóakimsson og Björn Sigurðarson taka nú þátt í IJF dómara og þjálfararáðstefnu sem haldin er í Mittersill samhliða OTC æfingabúðunum þar. Þar er farið yfir allar helstu áherslur í dómgæslu og breytingar á dómarareglunum sem nú taka gildi og munu þeir félagar síðan koma þeim upplýsingum áfram á dómara og þjálfaranámskeiði JSÍ. Á myndinni sem hér til hliðar má greina þá félaga en hér eru fleiri myndir frá ráðstefnunni

Árni og Logi á OTC æfingabúðir

Þeir Árni Lund og Logi Haraldsson fóru í morgun til Austurríkis þar sem þeir munu taka þátt í viku OTC æfingabúðum í Mittersill en þær eru með þeim sterkustu sem haldnar eru ár hvert og að venju allir bestu judomenn og konur heims á meðal þátttakenda. Þessar æfingabúðir hjá þeim ættu að koma sér vel í undirbúningi þeirra fyrir Reykjavík Judo Open sem haldið verður í Laugardalshöllinni 27. janúar.

Íþróttamaður ársins 2017

Þormóður Árni Jónsson, judomaður ársins 2017

Í hófi sem Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands héldu í Hörpu 28. desember þar sem kylfingurinn Ólafía Þór­unn Krist­ins­dótt­ir úr Golfklúbbi Reykjavíkur var kjörinn íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna veitti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands einnig viðurkenningar til íþróttakvenna og íþróttamanna ársins 2017 í sérgreinum íþrótta. Þar fengu judomaður og judokona ársins þau Þormóður Árni Jónsson, JR og Anna Soffía Víkingsdóttir, KA sínar viðurkenningar afhentar. Þar sem að Anna Soffía komst ekki til að taka við sinni viðurkenningu tók Jóhann Másson formaður JSÍ við henni fyrir hennar hönd. Óskum við þeim til hamingju með þessar viðurkenningar og sérstakar hamingjuóskir sendum við til Ólafíu með titilinn íþróttamaður ársins 2017, hún er vel að því komin.