Egill og Sveinbjörn keppa í Marrakech

Marrakech Grand Prix hófst í dag og stendur í þrjá daga. Á morgun, laugardaginn 9. mars mun Sveinbjörn Jun Iura keppa í 81 kg flokknum og á sunnudaginn keppir Egill Blöndal í -90 kg flokknum. Með þeim í för er Yoshihiko Iura. Keppendur eru frá 67 þjóðum, 259 karlar og 184 konur eða alls 443 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn gríða sterkum keppanda frá Tyrklandi, Vedat Albayrak en Egill situr hjá og mætir svo annaðhvort keppanda frá Kyrgyzstan eða Ghana. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.

Góumót JR – úrslit

Góumót JR var haldið um helgina og var það næst fjölmennasta Góumótið sem haldið hefur verið síðan 2013. Keppendur núna voru skráðir rúmlega sjötíu en eins og vanalega verða alltaf einhver forföll og urðu keppendur því sextíu og einn en flestir voru þeir 2013 eða sextíu og sex. Það er mjög mikil gróska í barna og unglingastarfi flestra klúbba eins og þessi þátttaka staðfestir en hér má sjá yfirlit yfir þátttökuna frá 2012. Selfyssingar voru fjölmennastir með 24 keppendur og hafði Einar Otto í nógu að snúast við það að sinna sínum þátttakendum og gerði það vel. Það sama má segja um aðra þjálfara en þeir stóðu sig allir frábærlega við það undirbúa sína keppendur og hafa tilbúna fyrir keppni. Ekki má gleyma dómurunum en ungir og óreyndir dómarar þeir Andri Ævarsson, Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson ásamt Ástu Lovísu Arnórsdóttur sem er ekki alveg óvön dæmdu allt mótið og gerðu það mjög vel en þau nutu leiðbeiningar frá reyndum dómurum þeim Birni Sigurðarsyni og Mariju Skulason sem heldu utan um dómgæsluna og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir það sem og Ara Sigfússyni fyrir góða og örugga mótsstjórn. Eins og áður sagði voru keppendur sextíu og einn og komu frá eftirfarandi judoklúbbum, Ármann, Grindavík, ÍR, JR, Selfossi og Þrótti. Góumótið er keppni yngstu iðkendanna (8-10 ára) en í ár var einnig keppt í U13 og U15 og allir keppendur fá verðlaun fyrir þátttökuna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum. Mótið í dag var frábær skemmtun og börnin sýndu ótrúlega flott judo miðað við unga aldur. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Sveinbjörn komst ekki áfram í Dusseldorf

Sveinbjörn Iura komst því miður ekki áfram á Dusseldorf Grand Slam um helgina en hann tapaði viðureign sinni gegn Adrian Gandia frá Puerto Rico. Eins og áður kom fram þá hafa þeir æft saman og þekkja til hvors annars og sýndi það sig í glímunni en hvorugur náði að skora en Adrian var virkari og Sveinbjörn tapar á refsistigum og þar með úr leik. Hér má sjá viðureign þeirra. Sveinbjörn verður áfram í Þýskalandi út vikuna og tekur þar þátt í alþjóðlegum æfingabúðum.

Sveinbjörn á Dusseldorf Grand Slam 2019

Dusseldorf Grand Slam hefst á morgun og stendur í þrjá daga. Næsta laugardag þ.e. 23. febrúar mun Sveinbjörn Jun Iura  sem er í Þýskalandi ásamt föður sínum Yoshihiko Iura, keppa í -81 kg flokknum. Keppendur eru frá 93 þjóðum, 362 karlar og 244 konur eða alls 606 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn keppanda frá Puerto Rico, Adrian Gandia. Þeir þekkja til hvor annars þar sem þeir hafa verið í sömu æfingabúðum og glímt þar. Þetta er þó þokkalegur dráttur fyrir Sveinbjörn og á hann ágætis möguleika á að komast áfram þó svo að að ekkert sé öruggt í þeim efnum. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.

Góumót JR 2019

Góumót JR verður haldið laugardaginn 23. febrúar 2019.
Keppt er í aldursflokkar U9, U10 og U11 (8,9 og 10 ára og núna einnig U13 og U15 og engin lágmarksgráða. Skráning til miðnættis 21. febrúar í skráningarkerfi JSÍ. Húsið opnar kl. 09:00 á laugardaginn og verða krakkarnir þá vigtaðir á milli kl. 09:00 til 09:30. Muna að mæta tímanlega í vigtunina.

Árni Lund með brons á Matsumae Cup

Það gekk ekki nógu vel hjá okkur fyrri dagin á Matsumae Cup en við unnum aðeins fjórar viðureignir af nítján. Í senioraflokki í -60 kg kepptu þeir Alexander Heiðarsson og Dofri Bragason og var keppt í tveimur fjögurra manna riðlum. Hvorugur komst upp úr riðli en Alexander (5-6 sæti) vann eina viðureign á ippon með fallegu uchimata kasti og hafði ekki verið langt frá því að sigra fyrstu viðureign sem hann hafði leitt megnið af glímutímanum þegar hann tapaði. Breki Bernhardsson -73 kg byrjaði vel og sigraði á ippon fyrstu viðureign með glæsilegu sópi. Hann tapar næstu en fær uppreisn og tapar henni líka og er þar með úr leik. Árni Lund og Hrafn Arnarsson kepptu í -81 kg flokki seniora. Árni tapaði fyrstu en fékk uppreisn og tapaði henni líka og þar með fallin úr keppni. Hrafn (13-16 sæti) tapaði einnig fyrstu viðureign en í uppreisnarglímu vinnur hann öflugan Svía á á ippon með sínu sterkasta bragði kouchi gari en því miður tapar hann næstu og féll einnig úr keppni. Það var svipað hjá þeim Kjartani Hreiðarsyni og Hákoni Garðarssyni sem kepptu í U18 -73 kg. Kjartan tapaði fyrstu og síðan uppreisnarglímunni og féll úr keppni en Hákon (9-12 sæti) tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglímu með shimewaza og tapar þeirri þriðju og féll þá einnig fallin úr keppni. Það gekk mun betur seinni daginn þegar keppt var í U21 árs aldursflokki en þá urðu viðureignirnar átján og sigrar og töp 50/50. Alexander Heiðarsson -60 kg tapar fyrstu, vinnur næstu og tapar þeirri þriðju. Það hefur örugglega haft áhrif á Alexander (9-16 sæti) að hann var ekki alveg heill heisu því hann var með hita. Hákon Garðarsson -73 kg tapaði báðum sínum viðureignum og dagurinn hjá Hrafni Arnarssyni (17-24 sæti) var eins og fyrri dagurinn en hann tapar fyrstu, vinnur uppreisnarglimu og tapar þeirri þriðju. Kjartan Hreiðarsson -73 kg vinnur tvær og tapar tveimur. Var það vel gert hjá Kjartani (17-24 sæti) sem glímdi þarna mjög vel en bæði hann og Hákon eru aðeins fimmtán ára gamlir og voru því á yngsta ári í aldursflokknum U21 árs. Árni Lund -81 kg vinnur sex viðureignir af sjö. Hann vinnur fyrstu, tapar næstu en vinnur svo síðan næstu fimm viðureignir nokkuð örugglega sem voru allar með stuttu millibili og tók bronsverðlaunin. Þetta er skrýtið kerfi þetta Danska keppniskerfi. Það fá allir minnst tvær glímur sem er fínt en stundum þurfa menn að glíma aftur við sama andstæðing sem er ekki fínt. Einnig þarf að vinna fleiri viðureignir til að vinna til bronsverðlauna heldur en til gullverðlauna eins og t.d. í -81 kg flokknum en þar þurfti 5 glímur í gull en 7 í brons. En hvað um það þetta var glæsilegur árangur hjá Árna og vel gert hjá honum að sigra í sex viðureignum af sjö á þessu móti sem er alltaf að verða sterkara en til samanburðar voru 587 keppendur núna frá 17 þjóðum á móti 311 keppendum frá 11 þjóðum á síðasta Matsumae Cup. Hér eru úrslitin og hér er hægt að skoða flestar viðureignirnar.

Matsumae Cup 2019

Um helgina verða sjö Íslenskir þátttakendur á meðal keppenda á Matsumae Cup í Vejle í Danmörku. Það eru þeir Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson sem keppa bæði í U18 og U21 í -73 kg. Árni Lund og Hrafn Arnarsson sem keppa báðir í U21 og senioraflokki í -81 kg. Alexander Heiðarsson sem keppir í U21 og senioraflokki í -60 kg og þeir Breki Bernhardsson -73 kg og Dofri Bragason -60 kg sem keppa í senioraflokki. Með þeim í för er Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari og Hreiðra Oddsson faðir Kjartans sem verður þeim til aðstoðar. Það eru alls um 600 keppendur frá átján þjóðum sem koma víða að og er stór hópur að venju frá Japan. Hér er drátturinn en mótið verður í beinni útsendingu og hefst kl. 8 að Íslenskum tíma og verður keppt á fjórum völlum. Á morgun verður keppt í U18 og senioraflokkum og á sunnudaginn í U21 árs aldursflokki. Meðfylgjandi er mynd af köppunum sem var tekin í dag að lokinni vigtun.

Úrslit Afmælismóts JSÍ 2019

Afmælismót JSÍ í yngri flokkum, U13, U15, U18 og U21 var haldið laugardaginn 9. febrúar í JR. Keppendur voru um áttatíu frá öllum klúbbum landsins og stóð mótið frá kl. 10 til 15. Þarna sáust margar spennandi og skemmtilegar viðureignir, glæsileg köst og flott gólfglíma. Við JR- ingar vorum með 20 keppendur og gekk okkar bara nokkuð vel en við unnum til átta gullverðlauna, fimm silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Hér eru myndir af verðlaunahöfum og aðrar myndir frá mótinu og úrslitin.

Sveinbjörn komst í 32 manna úrslit í París

Sveinbjörn Iura keppti í dag á Paris Grand Slam í -81 kg flokki. Hans fyrsta viðureign var gegn Royal Rakotoarivonyfrá Madagascar og sigraði hann örugglega. Royal fékk shido eftir um það bil þrjátíu sekúndur fyrir varnartilburði og mínútu síðar skoraði Sveinbjörn wazaari á hann. Þegar viðureignin var hálfnuð fékk Royal sitt annað shido og nú fyrir sóknarleysi og mínútu síðar sitt þriðja shido og einnig fyrir sóknarleysi og var þar með búinn að tapa. Nú var Sveinbjörn kominn í 32 manna útslátt og hans næsta viðureign var gegn Ítalanum Antonio Esposito sem er í 20 sæti heimslistans. Það var hörð barátta hjá þeim um tökin og átti hvorugur þeirra hættulega sókn fyrstu eina og hálfu mínútuna en einhverra hluta vegna var bara dæmt shido á Sveinbjörn fyrir sóknarleysi. Sveinbjörn hleypti krafti í sóknina og reyndi að sækja og ógna þó svo hann hefði ekki fullkomin tök og skyndilega stoppar dómarinn og dæmir á hann shido fyrir false-attack. Alveg furðulegur dómur, Sveinbjörn var ekki að reyna að bjarga sér úr slæmri stöðu eða neitt þvílíkt var bara að reyna að ná andstæðingnum úr jafnvægi og reyndi seionage sem hann fann að gekk ekki og stóð strax upp en fær á sig shido fyrir þessa tilraun. Ekki sanngjarnt að mínu mati. Viðureignin hélt áfram og baráttan um tökin hélt áfram. Báðir reyndu að sækja úr litlum sem engum tökum án árangurs og viðureignin var í járnum. Þegar rúm mínúta var eftir fékk Sveinbjörn sitt þriðja shido og aftur fyrir false -attack sem að ég get ekki verið ósammála og þar með var hann búinn að tapa viðureigninni. Árangur Sveinbjörns í dag þ.e. að komast í 32 manna úrslit gefur honum 120 punkta til viðbótar á heimslistann sem ætti að fleyta honum nær takmarkinu að komast á Ólympíuleikana. Auðvita þarf að skoða líka hvernig öðrum gekk og hvernig menn raðast upp þegar búið er að uppfæra heimslistanum en Sveinbjörn var í dag í 86. sæti og verður spennandi að sjá hvernig staðan verður á morgun þegar listinn hefur verið uppfærður.

Paris Grand Slam 2019

Paris Grand Slam hefst á morgun og þann 10. feb. þ.e næsta sunnudag mun Sveinbjörn Jun Iura  sem er í París ásamt Jóni Þór Þórainssyni landsliðsþjálfara keppa í -81 kg flokknum. Keppendur eru frá 94 þjóðum, 336 karlar og 237 konur eða alls 573 keppendur. Búið er að draga og mætir Sveinbjörn keppanda frá Madagascar. Þetta er þokkalegur dráttur fyrir Sveinbjörn og á hann ágætis möguleika á að komast í aðra umferð þó svo að að ekkert sé öruggt því allt getur gerst. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 9:00 að morgni að Íslenskum tíma.