Sveinbjörn komst í 32 manna úrslit í París

Sveinbjörn Iura keppti í dag á Paris Grand Slam í -81 kg flokki. Hans fyrsta viðureign var gegn Royal Rakotoarivonyfrá Madagascar og sigraði hann örugglega. Royal fékk shido eftir um það bil þrjátíu sekúndur fyrir varnartilburði og mínútu síðar skoraði Sveinbjörn wazaari á hann. Þegar viðureignin var hálfnuð fékk Royal sitt annað shido og nú fyrir sóknarleysi og mínútu síðar sitt þriðja shido og einnig fyrir sóknarleysi og var þar með búinn að tapa. Nú var Sveinbjörn kominn í 32 manna útslátt og hans næsta viðureign var gegn Ítalanum Antonio Esposito sem er í 20 sæti heimslistans. Það var hörð barátta hjá þeim um tökin og átti hvorugur þeirra hættulega sókn fyrstu eina og hálfu mínútuna en einhverra hluta vegna var bara dæmt shido á Sveinbjörn fyrir sóknarleysi. Sveinbjörn hleypti krafti í sóknina og reyndi að sækja og ógna þó svo hann hefði ekki fullkomin tök og skyndilega stoppar dómarinn og dæmir á hann shido fyrir false-attack. Alveg furðulegur dómur, Sveinbjörn var ekki að reyna að bjarga sér úr slæmri stöðu eða neitt þvílíkt var bara að reyna að ná andstæðingnum úr jafnvægi og reyndi seionage sem hann fann að gekk ekki og stóð strax upp en fær á sig shido fyrir þessa tilraun. Ekki sanngjarnt að mínu mati. Viðureignin hélt áfram og baráttan um tökin hélt áfram. Báðir reyndu að sækja úr litlum sem engum tökum án árangurs og viðureignin var í járnum. Þegar rúm mínúta var eftir fékk Sveinbjörn sitt þriðja shido og aftur fyrir false -attack sem að ég get ekki verið ósammála og þar með var hann búinn að tapa viðureigninni. Árangur Sveinbjörns í dag þ.e. að komast í 32 manna úrslit gefur honum 120 punkta til viðbótar á heimslistann sem ætti að fleyta honum nær takmarkinu að komast á Ólympíuleikana. Auðvita þarf að skoða líka hvernig öðrum gekk og hvernig menn raðast upp þegar búið er að uppfæra heimslistanum en Sveinbjörn var í dag í 86. sæti og verður spennandi að sjá hvernig staðan verður á morgun þegar listinn hefur verið uppfærður.