Helena keppir á Györ Cadet European Cup

Í gær hófst keppni á Györ Cadet European Cup 2023 í Unngverjalandi og eigum við þar einn fulltrúa en Helena Bjarnadóttir sem fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Serbíu í haust tekur þátt í mótinu og er móðir hennar Marija Dragic Skúlason henni til aðstoðar. Keppendur eru 512 frá 28 þjóðum, 349 drengir og 163 stúlkur. Helena keppir í dag og mætir hún Noeli Knafelc (SLO) í -70 kg flokki og er það tuttugustu og önnur glíma á velli 4. Dregið var í alla flokka í fyrradag og má sjá þá hér og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Evrópumeistaramótið 2023

Í gær lögðu af stað til Frakklands þeir Kjartan HreiðarssonHrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara en þeir munu taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst í dag í Montpellier og stendur yfir í þrjá daga. Evrópumeistaramótið er eitt allra sterkasta mótið sem haldið er í heiminum ár hvert því judohefðin er mikil í Evrópu og nánast hver einasti keppandi er öflugur judomaður og því fáir veikir hlekkir. Þátttakendur að þessu sinni eru frá 46 þjóðum 217 karlar og 169 konur alls 386 keppendur.

Á morgun laugardaginn 4. nóv. keppa þeir Kjartan og Hrafn en Karl keppir svo á sunnudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 9 á okkar tíma. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki á aðra viðureign á velli þrjú og mætir hann Daniel Szegedi (HUN) sem situr í 72. sæti heimslistans. Hrafn keppir í -81 kg flokki situr hjá í fyrstu umferð en mætir svo annað hvort Lachlan Moorhead (GBR) sem er í 25. sæti heimslistans eða Theodoros Demourtsidus (GRE) sem er í 68. sæti heimslistans í tólftu viðureign á velli tvö sem gæti verið um kl. 9:45. Karl sem keppir í +100 kg flokki á fimmtu viðureign á velli 3. sem gæti verið um kl. 9:20 og mætir hann Balyevskyy Yevheniy (UKR) sem er í 34 . sæti heimslistans. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Reykjavíkurmeistaramótið 2023

Reykjavíkurmeistaramótið 2023 verður í umsjón JR og haldið laugardaginn 11. nóvember. Vigtun á keppnisdegi frá kl. 11:30 til 12:00 og mótið hefst svo kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er mánudagurinn 6. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Nánari upplýsingar og tímasetning hér á síðunni að lokinni skráningu.

Abu Dhabi Grand Slam

Þeir Kjartan HreiðarssonHrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara taka nú þátt í Grand Slam og Grand Prix mótaröðinni til þess að reyna að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Grand Slam Abu Dhabi hófst í dag og lýkur 26. okt. og eru keppendur 450 frá sjötíu og sjö þjóðum og eru okkar menn á meðal þátttakenda. Á morgun keppa þeir Kjartan og Hrafn og Karl keppir svo á fimmtudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 6 á okkar tíma en þá er klukkan 10 í Abu Dhabi. Hrafn sem keppir í -81 kg flokki á fyrstu viðureign á velli 3. og mætir þar Abdelrahman Mohamed frá Egyptalandi (EGY) en hann er í 75. sæti heimslistans. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki á sjöttu viðureign á velli eitt sem gæti verið um kl. 6:25 og mætir hann þá Adil Osmanov frá Moldovíu (MDA) sem situr í 36. sæti heimslistans. Karl sem keppir í +100 kg flokki á sextándu viðureign á velli 3. sem gæti verið um kl. 7 og mætir hann heimamanninum Magomedomar Magomedomarov frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (UAE) og situr hann í 17 . sæti heimslistans. Það er nokkuð ljóst að þetta verður erfiður róður fyrir okkar menn en ekkert er útilokað og allt getur gerst. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Afmælismót JR 2023 – yngri flokkar – Úrslit

Afmælismót JR í yngri aldursflokkum var haldið í gær laugardaginn 21. október í æfingasal félagsin. Keppendur voru frá eftirfarandi fimm judoklúbbum, Judodeild Grindavíkur, Judofélagi Reykjanesbæjar (JRB) Judodeild Selfoss, Judodeild Tindastóls og JR og voru þeir fimmtíu og fjórir og hefur fjölgað nokkuð frá því í fyrra. Keppt var í aldursflokkum frá 7 ára aldri og til og með 14 ára og hófst keppnin kl. 13:00 og lauk kl. 15:30. Keppnin var skemmtileg með fullt af flottum viðureignum og gaman að horfa á þessa einbeittu ungu keppendur sem margir hverjir sýndu góð tilþrif. Starfsmenn mótsins voru þeir Ari Sigfússon og Jóhann Másson sem sáu vigtun og mótsstjórn og dómarar voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í JR í dag en það voru þau Weronika Komendera, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Mikael Ísaksson og Jónas Guðmundsson sem sáu um dómgæsluna og leystu þau það verkefni vel af hendi. Á morgun æfingu barna 5-6 ára hjá JR sama dag var haldið lítið æfingamót og glímdu öll börnin tvær gólfglímu viðureignir og fengu öll sín gullverðlaun að lokinni æfingu. Hér eru myndir frá mótinu og verðlaunahöfum og hér eru svo úrslitin og video klippa frá keppninni.

Æfingahelgi á Eyrabakka 27-28 okt

Judofélag Suðurlands mun verða með æfingabúðir 27. – 28. október í íþróttahúsinu á Eyrarbakka, Búðarstíg 7 sjá www.jsjudo.is/eyrarbakki-stokkseyri/. Æfingarnar verða á föstudeginum kl. 18:00 og á laugardeginum kl. 14:00. Fimm erlendi gestir frá Bretlandi munu taka þátt í æfingunum en það eru þau, Martin Rance 5. Dan þjálfari, Jodie Caller 3. Dan þjálfari og keppnismaður, Mariia Gaidamachenko 1. Dan 19 ára -57kg, Marc-Anthony Hunt 1. Dan 17 ára -81kg, Marc-Anthony Hunt 1. Dan 17 ára -81kg og Charles Harris 1. Dan 17 ára -90kg. Þjálfarar verða þau George Bontakis 6. Dan og Eirini Fytrjou 1. Dan. Æfingarnar eru öllum opnar og er þátttökugjaldið kr. 5.000,- fyrir báða dagana. Vinsamlegast staðfestið þáttöku með greiðslu inn á reikning Judofélags Suðurlands – Landsbankinn 0133 26 009646 kt.520623-1240. JR hvetur alla iðkendur sína 15 ára og eldri til þess að taka þátt í þessum viðburði.

Haustmót JSÍ 2023 – Úrslit

Haustmót JSÍ í öllum aldursflokkum var haldið í Grindavík laugardaginn 14. október og var það í umsjón Judodeildar UMFG sem stóð vel að framkvæmdinni eins og venjulega. Keppendur voru sextíu og fimm frá tíu klúbbum og er það töluverð fjölgun frá því í fyrra sem lofar góðu fyrir veturinn. Athygli vakti að þátttaka kvenna er að aukast en þær voru um 25% allra þátttakenda á mótinu og flestar eða fimm talsins frá yngsta judoklúbbnum, Judofélagi Suðurlands (JS). Mótið fór vel fram, dómgæsla og mótsstjórn hin besta og fullt af spennandi og skemmtilegum viðureignum sem margar hverjar kláruðust ekki fyrr en í gullskori þar sem keppendur voru það jafnir. Judofélag Reykjavíkur var með tuttugu og sex keppendur sem stóðu sig býsna vel en þeir unnu samtals til fimmtán gullverðlauna, sex silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna. Aðrir klúbbar sem unnu til gullverðlauna voru JS með þrenn gullverðlaun og Ármann, JG og Tindastóll með eitt hvort. Óskum við öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.

Hér eru úrslitinvideo klippa og myndir frá mótinu.

MALAGA SENIOR EUROPEAN CUP 2023

Þeir Kjartan HreiðarssonHrafn Arnarsson keppa á Malaga Senior European Cup um helgina og með þeir er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Kjartan keppir á morgun laugardag og Hrafn keppir á sunnudaginn. Keppendur eru þrjúhundruð fimmtíu og fimm frá þrjátíu og fimm þjóðum. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki mætir Andis Dolgilevics (LAT) og Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Thien Oulevey (SUI). Keppnin hefst báða dagana kl. 7:00 á okkar tíma og á Kjartan á 4. glímu á velli tvö sem gæti þá verið um kl. 7:15 og Hrafn á 9. glímu á velli þrjú sem gæti þá verið um kl. 7:40. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv. Að loknu móti taka við æfingabúðir hjá þeim félögum í Malaga út næstu viku. Myndin hér neðar er tekin af þeim í OTC æfingabúðunum í Slóvakíu í byrjun október.