Beltapróf hjá 5-6 ára á haustönn

Í dag tóku fjórtán börn í aldursflokknum 5-6 ára beltapróf í JR og stóðu þau sig öll alveg frábærlega og fengu fjólubláa strípu í beltið sitt en liturinn fer eftir aldri barns og er hann fjólublár hjá börnum 6 ára og yngri. Þau börn sem byrjuð í haust voru að fá sína fyrstu strípu en þau sem hafa verið lengur fengu sína aðra og þriðju strípu og ein stúlkan hún Ea Kjærnested fékk sína sjöttu strípu sem þýðir að hún hefur æft judo í þrjú ár en það er gefin ein strípa á önn eða tvær á ári. Verkefni barnanna er aðallega að sýna hvernig á að detta, bæði afturá bak og fram fyrir sig og passa höfuðið, fara í kollhnís og sýna eitt kastbragð. Ekki voru allir iðkendur í þessum aldursflokki mættir í dag svo að þau sem ekki komust, taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta svo það mun enginn að missa af því. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og hér fyrir 11 ára og eldri

Beltapróf hjá 7-10 ára – strípur í beltin

Í gær tóku nítján börn í aldursflokknum 7-10 ára beltapróf í JR og stóðs þessi frábæri hópur prófið með glæsibrag og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Mörg barnanna voru að fá sína fyrstu eða aðra strípu og nokkur önnur sína sjöundu sem þýðir að viðkomandi er búinn að æfa í þrjú ár og hálf ár sem þýðir hjá sumum hálfa æfina 🙂 en það eru gefnar tvær strípur á ári. Verkefni þeirra í beltaprófinu var að að sýna fjögur kastbrögð og tvö fastatök og hvernig á að losna úr því. Auk þess var farið yfir merki dómara, grunn judo reglur og hneigingar rifjaðar upp. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og hér fyrir 11 ára og eldri. Ekki voru allir iðkendur í þessum aldursflokki mættir svo að þau sem ekki komust taka sitt beltapróf þegar þau mæta næst en passað verður uppá það að enginn missi af því. Á morgun er síðan beltapróf hjá aldursflokki 5-6 ára.

Alli leit við á æfingu 11-14 ára

Aðalsteinn Björnsson sem vann til bronsverðlauna (aðeins 17 ára gamall) í -81 kg. flokki karla á Baltic Sea Championships í Finnlandi síðastliðna helgi leit við á æfingu mánudagin 4. des. hjá börnum og unglingum 11-14 ára sem þóttu gaman að fá að handleika og skoða verðlaunapeninginn. Aðalsteinn eða Alli eins og hann er gjarna kallaður er glæsileg fyrirmynd þessara ungu iðkenda og hvatning til þeirra að æfa vel því með ástundun og einbeittni eins og Alli hefur sýnt er hægt að ná langt.

Brons á Baltic Sea Championship

Baltic Sea Championships fór fram dagana 2-3 desember en það var haldið í Orimatilla í Finnlandi. Mótið er eitt af þeim sterkari sem er haldin á Norðurlöndunum og voru keppendur rúmlega fimm hundruð frá tólf þjóðum. Frá Íslandi voru þátttakendur sex og kepptu þeir í U15, U17, U20 og senioraflokkum. Aðalsteinn Björnsson komst lengst okkar keppenda en hann vann til bronsverðlauna í M-81 kg. flokki karla sem er vel af sér vikið aðeins 17 ára gamall. Hann var ekki langt frá því að keppa til úrslita í flokknum en hann var yfir með wazaari í undanúrslitum og var virkari í glímunni en í einni sókn sinni lendir hann á bakinu og andstæðingi hans tókst að komast í fastatak og vinnur glímuna en Aðalsteinn keppti um bronsverðlaunin og tók þau. Aðalsteinn keppti líka um bronsverðlaun í U20 ára daginn áður en laut þar í lægra haldi gegn Andreas Prangli frá Eistlandi. Þeir Skarphéðinn Hjaltason í M-90 kg flokki karla og Fannar Júlíusson í U17-73 kg kepptu einnig um bronsverðlaun en urðu að játa sig sigraða og enduðu því í 5. sæti. Þrátt fyrir að hinir íslensku keppendurnir hafi ekki komist eins langt og ofangreindir þá stóðu þeir sig vel og áttu ágætis glímur sem sumar unnust en aðrar ekki og stundum mátti litlu muna hvoru megin sigurinn lenti. Hér eru linkar á YouTube video frá mótinu og pdf úrslit og glímurnar hans Alla í -81 kg flokki karla.

Tokyo Grand Slam 2023

Tokyo Grand Slam 2023 fer fram dagana 2-3 desember og verða þeir Karl Stefánsson og Gísli Egilson á meðal þátttakenda. Búið er að draga í alla flokka og eru skráðir þátttakendur 534 frá 88 þjóðum 318 karlar og 216 konur. Gísli keppir í -81 kg flokki laugardaginn 2. des. og á hann 3. glímu á velli tvö og mætir Medickson Del Orbe (DOM) sem er í 23. sæti heimslistans. Karl keppir á sunnudaginn og á hann 25. glímu á velli eitt í +100 kg flokki. Hann situr hjá í fyrstu umferð og mætir svo Tamerlan Bashaev (AIN) sem er í 16. sæti heimslistans. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv sem hefst kl. 12 að miðnætti á okkar tíma á föstudagskvöldið.

Baltic Sea Championship 2023

Um helgina 2-3 desember verður Baltic Sea Championships haldið í Orimattilla í Finnlandi og þar verða sex íslenskir keppendur verða á meðal þátttakenda. Það eru þau Aðalsteinn Karl Björnsson, Emma Tekla Thueringer, Fannar Þór Júlíusson, Jónas Björn Guðmundsson, Mikael Máni Ísaksson og Skarphéðinn Hjaltason og þjálfari og fararstjóri er Zaza Simonishvili. Hér eru nánari upplýsingar um mótið.

Baltic Sea Championship er sterkt mót en skráðir keppendur eru 512 frá tólf þjóðum. Fyrir utan keppendur frá Finnlandi og Íslandi og hinum norðurlöndunum eru keppendur frá, Austurríki, Azerbaijan, Belgíu, Eistlandi, Indlandi, Lettlandi og Þýskalandi. Keppt er í aldursflokkum, U15, U17, U20 og seniora. Á laugardaginn (2.des) er keppt í U15 og U20 ára og á sunnudaginn í U17 og senioraflokkum. Hér er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu.

Sveitakeppni JSÍ 2023 – úrslit

Íslandsmótið 2023 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 18. nóv. Sveitakeppni karla var fyrst haldin árið 1974 og eru því fimmtíu ár frá því hún var fyrst haldin en hún féll niður 1993, 2002 og 2020 og var þetta því 47 keppnin. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa unnið þessa keppni.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi átta sveitir til leiks en það voru tvær karlasveitir í U15, U18, U21 og senioraflokki karla. Einnig var ein kvennasveit seniora tilbúin en vantaði mótherja svo það var engin keppni fyrir hana. Því miður var aðeins eitt félag sem einnig sendi þátttakendur í keppnin en það var Judodeild UMFS sem var með seniora karlasveit.

Á síðasta ársþingi var samþykkt að hvert félag mætti fá lánsmann hvort heldur innlendan eða erlendan til þess að auka líkurnar á því að ná lágmarksfjölda í sveit og gera mótið fjölmennara og sterkara en það dugði ekki til. Í ár voru aðeins tvö félög með keppendur í þessari sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin hefur jafnan verið og var þetta 50 ára afmæli keppninnar. Margir klúbbar eiga langt í land með að ná sama þátttökufjölda og fyrir covid og þurfa verulega að taka sig á en þá voru 16-20 sveitir sem öttu kappi saman frá 5-6 klúbbum, bæði í kvenna og karlasveitum og öllum aldursflokkum og nokkrir klúbbar jafnvel með tvær sveitir í aldursflokki.

Bæði sveit UMFS og JR notuðu tækifærið og voru með lánsmann í karlasveitunum. Sveit UMFS fékk Gísla Egilson úr JG og JR fékk Damian Troianschi frá Portugal sem hefur æft hjá félaginu síðan í haust. Í karlaflokki sigraði sveit JR-A og í öðru sæti var sveit Judodeildar UMFS og bronsverðlaunin fóru til JR-B. Í aldursflokkum U15, U18 og U21 árs voru tvær sveitir í hverjum aldursflokki JR-A og JR-B og sigraði JR-A í öllum flokkum. Dómarar voru þau Yoshihiko Iura, Björn Sigurðarson og Jón Kristinn Sigurðsson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi nú sem endranær.

JR varð Íslandsmeistari karla í tuttugusta og annað skipti og tíunda árið í röð. Hér eru úrslitin 2023, karlar U21 karlar U18 karlar U15 drengir og videoklippa frá mótinu og fleiri myndir væntanlegar.

Brons á YAOUNDE AFRICAN OPEN 2023

Karl Stefánsson úr Judodeild Ármanns keppti í dag á YAOUNDE AFRICAN OPEN í Kamerún og gerði sér lítið fyrir nældi sér í bronsverðlaunin í +100 kg flokki. Hann mætti fyrst Biami Bend Brice Herman (CMR) sem hann sigraði örugglega og var þar með kominn í fjögurra manna úrslit. Næst mætti hann Mbagnick Ndiaye (SEN) sem hann laut í lægra haldi fyrir en Mbagnic er í 28 sæti heimslistans. Þar sem Karl tapar í fjögurra manna úrslitum keppti hann um bronsverðlaunin og mætti hann þar öðrum heimamanni Tontu Velem (CMR) sem hann sigraði og vann þar með til bronsverðlaunanna. Til hamingju Karl.

Karl verður á ferð og flugi næstu vikurnar en hann keppir aftur 26. nóv. og þá á Hong Kong Asian Open 2023 og svo aftur 3. des. á Tokyo Grand Slam 2023 en þar mun Gísli Egilson einnig keppa deginum áður í 81 kg. flokki.

Sveitakeppnin 2023

Íslandsmótið 2023 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið í Laugardalshöllinni laugardaginn 18. nóvember og hefst það kl. 12:30 og mótslok áætluð um kl. 14. Keppt verður í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U18, U21 og senioraflokki karla. JR mun senda karlalið í U15, U18, U21 og senioraflokka en því miður náðum við ekki að manna kvennasveitir að þessu sinni. Hér má sjá úrslitin frá 2022.

Judodeild UMFG er velkomin á æfingar í JR

Bjóðum iðkendum Judodeildar UMFG hjartanlega velkomna á æfingar hjá JR án endurgjalds á þessum erfiðu tímum í Grindavík.

Æfingatafla JR

Börn 5-6 ára fædd 2017-2018 Laugardögum frá kl. 10-11
Börn 7-10 ára fædd 2013-2016 þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 17-18
Aldursflokkur 11-14 ára fædd 2012-2009 mánd. miðvikud. og föstudaga frá kl. 17-18
Aldursflokkur 15 ára og eldri alla daga vikunnar frá kl. 18-19:30
Gólfglíma 30+ þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 17-18 og laugardaga frá kl. 11-12
Kvennatími byrj/framhald 15 ára og eldri mánudaga og miðvikudaga frá 17-18