Keppa á Norðurlandamótinu um helgina

Dagana 25-26 maí verður Norðurlandameistaramótið haldið í Sundsvall í Svíþjóð og verða tólf keppendur frá Íslandi þar á meðal. Upphaflega voru þeir fjórtán en tveir forfölluðust á síðustu stundu. Þeir sem það geta munu keppa í tveimur aldursflokkum þ.e. í seniora flokki og í annað hvort U21 eða U18 og einn mun keppa í veterans flokki. Þeir sem fara eru, Aðalsteinn Björnsson, Skarphéðinn Hjaltason, Romans Psenicnijs, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson, Weronika Komendera, Ingólfur Rögnvaldsson, Daron Hancock, Helena Bjarnadóttir, Ari Sigfússon, Karl Stefánsson og Eyja Viborg. Þjálfari er Zaza Simonishvili og fararstjóri er Ari Sigfússon. Bjarni Skúlason og Marija Dragic Skúlason munu einnig koma til Svíþjóðar og vera liðinu innan handar. Myndin hér neðar er af hluta hópsins sem keppir um helgina og var tekin á æfingu í gær.

Vorönn lokið hjá yngri aldursflokkum

Síðasta æfing yngri aldursflokka á vorönninni lauk í dag með sameiginlegri æfingu barna 5-6 ára, 7-10 ára og 11-14 ára . Á þeirri æfingu var farið í leiki síðan voru börnunum afhent viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna á vorönninni og að lokum var sest í setustofuna þar sem boðið var uppá veitingar. Því miður þá vantaði allmarga iðkendur á æfinguna og því komust ekki öll viðurkenningarskjölin til skila en það er hægt að nálgast þau í JR eftir helgi. Þökkum foreldrum og eða aðstandendum fyrir samveruna í vetur og aðstoðina í dag og iðkendum öllum fyrir fyrir þátttökuna og vonumst til þess að sjá ykkur aftur sem flest á haustönninni sem hefst líkast til um miðjan ágúst en það verður auglýst hér þegar þar að kemur. Hér eru nokkrar myndir frá deginum.

Gísli Egilson kominn með 4. dan

Gísli Egilson úr Judofélagi Garðabæjar tók gráðuna 4. dan í gær og uke hjá honum var Kjartan Magnússon úr Judodeild ÍR og var frammistaða þeirra einstaklega góð. Björn Halldórsson sem er hér neðar með þeim á mynd er þeirra lærifaðir en þeir Gisli og Kjartan hófu báðir að æfa judo hjá honum fyrir margt löngu. Til hamingju með áfangann.

Síðustu æfingar á vorönn 2024

Nú fer að líða að síðustu æfingum á vorönninni. Í dag er næstsíðasta æfing hjá 7-10 ára og á morgun er síðasta æfing hjá 11-14 ára og verður sú æfing sameiginleg með aldursflokkum 7-10 ára og 5-6 ára og er það þá síðasta æfing þeirra allra á þessari önn. Á þeirri æfingu sem verður aðallega í formi leikja verða afhent viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna í vetur, myndataka af hópnum og að lokum verður boðið uppá í pizzu og drykki.

Síðasta æfing hjá framhaldi 15 ára og eldri verður föstudagurinn 24. maí en meistaraflokkur æfir hinsvegar í sumar, líkast til fram í miðjan júlí (nánar tímasett síðar) og er öllum úr framhaldi 15 ára eldri og iðkendum sem eru 13 og 14 ára úr 11- 14 ára aldursflokki velkomið að mæta á þær æfingar en þær verða á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 18:00-19:30. Síðasta æfing á vorönn 2024 hjá Kvenntími 15 + verður 29. maí og Gólfglíma 30+ fimmtudaginn 30. maí en þær æfinga verða samt áfram í sumar en nánar um það síðar.

Vel heppnað Sumarmót JR

Í gær hélt JR í fyrsta skipti mót, kallað Sumarmót JR og er hugsað sem æfingamót fyrir yngstu aldurshópana þ.e. frá 7-11 ára, fædd 2013-2017. Keppt var með öðru sniði en venjulega, keppnistíminn styttri, keppt á tveimur völlum og einn mótsstjóri/tíma og stigavörður á hvorum velli og einn dómari en það voru þeir Jóhann Másson og Jón H. Hallsson sem sáu um mótsstjórn og Guðmundur B. Jónasson og Kjartan Hreiðarsson um dómgæslu og Daniele Kucyte og Daníel Hákonarson sáu um að börnin væru tilbúin til keppni og komin með rautt belti. Keppendur voru 30 frá tveimur klúbbum, JR og UMFS og var þeim fyrst raðað saman eftir aldri og síðan þyngd þannig að 7 og 8 ára voru saman, 9 og 10 ára og svo 11 ára og ef einhver passaði ekki inn í þyngdarflokk í sínum aldursflokki var hann færður annan aldursflokk en í svipaða þyngd. Ætlunin var að hafa þetta stutt mót, kanski í um 30 mín. og síðan sameiginlega æfingu og leiki á eftir í umþað bil 30 mín. en þar sem undirbúningur gagna að lokinni vigtun tók lengri tíma en reiknað var með fór sú áætlun úr skorðum og aðeins var tími fyrir leiki að lokinni keppni sem var reyndar bara vel tekið af börnunum. Mótið var stutt og laggott og tókst bara nokkuð vel og fengu allir þátttökuverðlaun að loknu móti og líka þeir sem voru ekki með í keppninni en ætluðu að taka þátt í æfingunni svo allir fóru glaðir heim. Mótið verður örugglega haldið aftur að ári með sama sniði en þá þarf að muna að gefa sér aðeins meiri tíma fyrir undirbúning gagna. Við viljum þakka UMFS fyrir þátttökuna en Einar Ottó þjálfari þeirra hefur verið afar duglegur að koma með sína iðkendur á mótin undanfarin ár og mikinn fjölda og er greinilegt að hann er að gera góða hluti í judo á Selfossi. Hér er stutt video klippa frá mótinu og úrslitin.

Sumarmót JR 2024 á morgun

Á morgun 10. maí munu 10-15 iðkendur frá Selfossi á aldrinum 7-11 ára mæta á æfingu hjá 11-14 ára aldurshópi JR kl. 17 og er ætlunin að hafa smá vinaklúbba keppni fyrir þá sem vilja taka þátt og fá allir þátttökuverðlaun. Að lokinni keppni verður sameiginleg æfing í stutta stund og eða leikir fer eftir því hve hratt mótið gengur fyrir sig. Svo þau ykkar úr 7-10 ára aldurshópi JR sem vilja vera með á æfinguni eða keppninni (ekki skylda að keppa) eruð velkomin á morgun kl. 17. Viljum biðja alla sem ætla að taka þátt að vera mætt tímanlega og helst ekki seinna en kl. 16:45.

Tilkynning frá Judofélagi Reykjanesbæjar

Masterclass með Gary Edwards

Kæru judomenn/konur 

Judofélag Reykjanesbæjar (JRB) býður þér og þínu félagi/klúbbi að taka þátt í frábærri helgi með okkur dagana 18-19 maí. Gary Edwards kemur í heimsókn til okkar. Einnig ætlum við að halda tæknimót.
Hlökkum til að sjá ykkur.
JRB

Nánari upplýsingar hér og hér og nálgast má video hjá JRB sem sýnir það sem keppendur þurfa að sýna.
 
Þeir JR ingar sem vilja taka þátt í þessum viðburði þurfa að láta þjálfara JR vita af því  í síðasta lagi mánudaginn 13. maí en þá þarf að senda skráningu og greiða þátttökugjaldið. 

Beltapróf 5-6 ára og 7-10 ára

Í síðustu viku tóku tuttugu og sex börn í aldursflokkunum 5- 6 ára og 7-10 ára beltapróf í JR og stóðst þessi frábæri hópur prófið með glæsibrag og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Nokkur barnanna voru að fá sína fyrstu strípu en önnur sína aðra eða þriðju og tvö þeirra sína tíundu strípu sem þýðir að viðkomandi er búinn að æfa judo í fimm ár en það eru gefnar tvær strípur á ári eða ein á önn. Verkefni þeirra í beltaprófinu var að að sýna kastbrögð og fastatök og hvernig á að losna úr þeim og auk þess var farið yfir merki dómara, grunn judo reglur og hneigingar rifjaðar upp. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Ekki gátu allir iðkendur mætt í beltaprófið í vikunni svo að þau sem ekki voru mætt taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta og passað verður uppá það að enginn missi af því.

JR með átta gull á Íslandsmóti seniora 2024

Íslandsmót karla og kvenna 2024 var haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur voru þrjátíu og níu frá fimm klúbbum og keppt var í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna og auk þess í opnum flokkum. Þetta var hörkumót, margar jafnar og spennandi viðureignir og kanski óvænt úrslit líka. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði örugglega -66 kg flokkinn og var það jafnframt fjórða árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari. Romans Psenicnijs sem keppti til úrslita við Ingólf í fyrra í -66 kg flokki keppti núna í -73 kg flokki og mætti þar félaga sínum Daron Hancock í keppni um gullverðlaunin en þeir hafa alloft mæst áður í úrslitum. Þetta var hörkuviðureign og jöfn eins og venjulega sem endaði að lokum með sigri Romans en hann vann á wazaari. Aðalsteinn Björnsson varð Íslandsmeistari í annað sinn er hann sigraði félaga sinn Mikael Ísaksson í úrslitum í -81 kg flokki en í fyrra sigraði hann -73 kg flokkinn. Í opnum flokki átti Aðalsteinn alveg frábæra viðureign gegn Agli Blöndal en frekar var búist við að Egill sem er áttfaldur Íslandsmeistari og afar reyndur keppandi og þyngri myndi sigra flokkinn en Aðalsteinn var á öðru máli. Eftir fullan glímutíma þar sem báðir aðilar höfðu sótt stíft og verið ógnandi hafði hvorugur náð að skora og fór glíman því í gullskor. Egill er líkamlega sterkari en Aðalsteinn sem var hinsvegar hreyfanlegri og sneggri og nýtti sér það vel því á áttundu mínútu í gullskori í einni sókn Aðalsteins reynir Egill mótbragð sem misheppnaðist en Aðalsteinn var snöggur til og komst í armlás og Egill varð að gefast upp og þar með var möguleiki hans á gullverðlaunum búinn. Skarphéðinn Hjaltason sigraði bæði -90 kg flokkinn og opinn flokk en þar mætti hann Aðalsteini í úrslitum og vann hann með glæsilegu kasti. Til gamans má geta þess að Skarphéðinn sem er tvítugur er næst yngstur til að vinna opinn flokk karla en Viðar Guðjohnsen var 19 ára þegar hann vann þann flokk árið 1977. Skarphéðinn sem er kominn í hörku keppnisform vann allar sínar viðureignir á fullnaðarsigri. Þetta voru fyrstu Íslandmeistaratitlar Skarphéðins en hann keppti til úrslita í fyrra og varð þá að lúta í lægra haldi gegn Árna Lund í opna flokknum. Árni Lund keppti í -100 kg flokki og vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil er hann sigraði Egil Blöndal í keppninni um gullið en Árni vann tvöfalt í fyrra, þá -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Weronika Komendera vann einnig tvöfalt eins og Skarphéðinn er hún sigraði bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki. Þetta var frábær dagur hjá JR, átta gullverðlaun, fjögur silfur og sex bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar og einnig í fyrsta skipti voru þau, Sigurður Hjaltason (UMFS) í +100 kg flokki og Íris Ragnarsdóttir (JS) í +78 kg flokki og var hún jafnframt með silfur í opnum flokki og fyrsti Íslandsmeistari Judofélags Suðurlands. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn. Streymt var frá mótinu og hér er stutt videoklippa og úrslitin.

Móti lokð og þá hefst frágangurinn

Evrópumeistaramótið 2024

Karl Stefánsson úrJudodeild Ármanns keppti í gær á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Zagreb í Króatíu dagana 25-27 apríl og er það eitt allra sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert og er hver einasti keppandi öflugur judomaður og fáir veikir hlekkir. Þátttakendur voru frá 47 þjóðum, 240 karlar og 187 konur eða alls 427 keppendur. Karl sem keppti í +100 kg flokki þar sem voru 27 keppendur mætti Khamzat Saparbaev (FRA) sem er í 113 . sæti heimslistans. Því miður þá tapaði Karl fyrir honum og var þar með dottin úr keppninni því það er engin uppreisn nema hjá þeim sem komast í átta manna úrslit og tapa þar. Hér er drátturinn og á JudoTv er hægt að sjá flestar glímur mótsins.

EJU Kids Camp var haldið samhliða Evrópumeistaramótinu og voru nokkrir íslenskir þátttakendur þar á meðal. Sjá hér á heimasíðu JSÍ.