Kyu gráðupróf

Nú nýverið var kyu gráðupróf í JR og tóku gult belti (5. kyu) í aldursflokki 15 ára og eldri þeir Ísak Guðmundsson og Oliver Brynjarsson og appelsínu gult belti (4. kyu) tók Eldur Hagberg. Í aldursflokknum 11-14 ára tók Úlfur Ragnarsson gult belti. Til hamingju með áfangann.

F.v. Úlfur, Oliver, Ísak og Eldur

Æfingahelgi JSÍ

Dagana 5-7 maí voru æfingabúðir á vegum JSÍ ætlaðar iðkendum í aldursflokkum U18, U21 og seniora flokkum haldnar í æfingasal Judofélags Reykjavíkur. Fyrsta æfingin var föstudadskvöldið 5. maí og var met mætingin en um fimmtíu þátttakendur mættu frá eftirfarandi klúbbum, Ármanni, ÍR, JG, JR, JS, KA og UMFS. Æfingarnar á laugardaginn og sunnudaginn voru einnig vel sóttar en þá mættu frá 30-45 manns og voru tvær æfingar hvorn daginn, morgunæfing og síðdegisæfing. Landsliðsþjálfarinn Zaza Simonishvili sá um æfingarnar sem voru fyrst og fremst randori, bæði standandi og gólfglíma og Zaza til aðstoðar voru þjálfarar klúbbanna. Hér er stutt videoklippa og myndir frá æfingunni.

JR með 14 gull á ÍM yngri 2023

Íslandsmeistaramótið í yngri aldursflokkum fór fram Laugardaginn 29. apríl en þá er keppt í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs. Keppendur voru tæplega sextíu frá eftirfarandi sjö klúbbum, Ármanni, ÍR, JG, JR, KA, UMFS og Tindastól. Þetta var velheppnað mót með fullt af flottum glímum sem langflestar enduðu með fullnaðarsigri, þ.e. með Ippon kasti eða með fastataki eða uppgjöf í gólfglímu. Þátttakendur frá JR voru tuttugu og sjö og unnu þeir alls fjórtán gullverðlaun, átta silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun. Til hamingju með frábæran árangur. Keppt var á tveimur völlum og streymdi JSÍ frá mótinu. Hér má sjá glímurnar á velli 1. og velli 2. (slóð óvirk) og hér er stutt videoklippa frá keppninni, úrslitin og hér neðar myndir frá mótinu.

Íslandsmeistaramót yngri 2023

Íslandsmót í yngri aldursflokkum (U13 , U15, U18 og U21) verður haldið hjá Judodeild Ármanns í Laugardal, laugardaginn 29. apríl og hefst kl. 12:00 og áætluð mótslok verða um kl. 15:00.

Keppni U13, U15 og U18 hefst kl. 12 og ætti að ljúka um kl. 13. Keppni í aldursflokki U21 hefst svo hefst svo um kl. 13:15.

Vigtun fyrir alla aldursflokka er hjá JR föstudaginn 28. apríl frá kl. 17-18:00 og einnig á keppnistað á keppnisdegi fyrir þá sem það vilja frekar frá kl. 11:00 – 11:30 og er það einnnig fyrir alla aldursflokka.

Sex gull á Íslandsmeistaramótinu 2023

Íslandsmót karla og kvenna 2023 var haldið laugardaginn 22. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur komu frá fimm klúbbum og voru alls fjörtíu og fimm að meðtöldum opnum flokkum karla og kvenna. Keppt var í sjö þyngdarflokkum karla og einum þyngdarflokk kvenna og auk þess var keppt í opnum flokkum. Þetta var hörkumót og margar jafnar og spennandi viðureignir. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði félaga sinn Romans Psenicnijs í úrslitum í -66 kg flokki og var það jafnframt þriðja árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari í þeim flokki og vann hann því bikarinn til eignar. Í -73 kg flokki mættust þeir Kjartan Hreiðarsson og æfingafélagi hans Aðalsteinn Björnsson og var það feykilega jöfn og spennandi viðureign sem að Aðalsteinn sigraði að lokum í gullskori eftir um sjö mínútna viðureign og var það jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í seniora flokki. Árni Lund vann tvöfalt en hann sigraði örugglega bæði -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Þetta var hans sjötti Íslandsmeistartitill en hann hefur þrisvar sinnum áður sigrað í -81 kg flokki og núna í annað sinn opinn flokk karla. Helena Bjarnadóttir vann einnig tvöfalt er hún sigraði bæði -70 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki en hún er aðeins 15 ára og var að keppa í fyrsta skipti í þeim aldursflokki á Íslandsmeistaramóti. Þetta var góður dagur hjá JR, sex gullverðlaun, sjö silfur og fimm bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar voru, Alexander Eiríksson (JG) í -60 kg flokki og jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í senioraflokki, Breki Bernhardsson (UMFS) -81 kg, Egill Blöndal (UMFS) -100 kg og Karl Stefánsson (Ármanni) +100 kg. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn.

Streymt var frá mótinu, hér er stutt videoklippa og hér eru úrslitin.

Íslandsmeistaramót seniora á morgun

Íslandsmót seniora 2023 verður haldið laugardaginn 22. apríl í Laugardalshöllinni. Mótið hefst kl. 10 með forkeppni í öllum þyngdarflokkum sem ætti að ljúka um kl. 13 og úrslitin í þeim flokkum og opni flokkurinn hefst svo kl. 14:00 og mótinu lýkur um kl. 16:00. Hér er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu og hér má svo sjá úrslitin.

Hægt er að fylgjast með mótinu í símanum með appinu Judo Mobile sem er hægt að nálgast á Google Play og kostar ekkert.

Gleðilegt sumar

Á morgun sumardaginn fyrsta falla allar æfingar niður nema hjá Gólfglímu 30+ og meistaraflokki vegna undirbúnings þeirra fyrir Íslandsmeistaramót karla og kvenna sem haldið verður næsta laugardag í Laugardalshöllinni og hefst kl. 10. Æfingar á föstudaginn verða samkvæmt stundaskrá en allar æfingar falla niður laugardaginn 22. apríl (Gólfglíma 30+ og börn 5-6 ára) þar sem kennarar verða uppteknir við störf á Íslandsmeistaramótinu. Gleðilegt sumar.

Úrslit páskamóts JR og Góu 2023

Páskamót JR og Góu 2023 fór fram laugardaginn 15. apríl en það er jafnan haldið fyrstu helgina eftir páska. Páskamótið sem er eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt það fjölmennasta er æfingamót og fá allir þátttakendur verðlaun að því loknu. Mótið hófst kl. 12 hjá börnum 7-10 ára og lauk því um kl. 14 en þá hófst keppni í aldursflokkum 11-14 ára en fyrr um morguninn höfðu börn í aldursflokki 5-6 ára sýnt kunnáttu sína á judo keppnisreglum og hvernig á að bera sig að í keppni. Þátttakendur voru voru rúmlega sjötíu frá eftirfarandi klúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR, Judodeild Tindastóls, Judofélagi Garðabæjar og Judofélagi Reykjavíkur. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og aðstoðarmenn og auk þeirra fjöldinn allur af aðstandendum og var stemmingin góð á staðnum og keppnin skemmtilegt með fullt af flottum viðureignum. Dómarar mótsins voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í U18 og U21 árs og stóðu þau sig frábærlega en það voru þau Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson, Skarphéðinn Hjaltason og Weronika Komendera sem dæmdu.  Streymt var frá mótinu en hér eru úrslitin, myndir frá mótinu og stutt video klippa.

Páskamótið í beinni útsendingu

 Páskamótið verður haldið á morgun laugardaginn 15. aprílog hefst kl. 12 í aldursflokkum 7-10 ára (vigtun frá 11-11:30) og keppni barna 11-14 ára verður frá kl. 14-16 (vigtun frá 13-13:30). Skráðir keppendur eru tæplega eitt hundrað frá sjö judoklúbbum. Streymt verður frá mótinu og úrslitin, myndir og videoklippur verða síðan birt hér á síðunni.

Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2023

Íslandsmót seniora 2023 verður haldið laugardaginn 22. apríl í Laugardalshöllinni. Mótið hefst kl. 10 með forkeppni í öllum þyngdarflokkum sem ætti að ljúka um kl. 12 og úrslitin myndu þá hefjast fljótlega eftir hádegi. Þegar þeirri keppni lýkur hefst keppni í opnum flokkum karla og kvenna en nánari upplýsingar að loknum skráningarfresti sem lýkur mánudaginn 17. apríl. Þeir JR ingar sem ætla að taka þátt í mótinu láti þjálfra vita ekki seinna en föstudaginn 14. apríl.