Reykjavíkurmeistaramótið 2023 verður í umsjón JR og haldið laugardaginn 11. nóvember. Vigtun á keppnisdegi frá kl. 11:30 til 12:00 og mótið hefst svo kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er mánudagurinn 6. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Nánari upplýsingar og tímasetning hér á síðunni að lokinni skráningu.
Abu Dhabi Grand Slam
Þeir Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara taka nú þátt í Grand Slam og Grand Prix mótaröðinni til þess að reyna að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Grand Slam Abu Dhabi hófst í dag og lýkur 26. okt. og eru keppendur 450 frá sjötíu og sjö þjóðum og eru okkar menn á meðal þátttakenda. Á morgun keppa þeir Kjartan og Hrafn og Karl keppir svo á fimmtudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 6 á okkar tíma en þá er klukkan 10 í Abu Dhabi. Hrafn sem keppir í -81 kg flokki á fyrstu viðureign á velli 3. og mætir þar Abdelrahman Mohamed frá Egyptalandi (EGY) en hann er í 75. sæti heimslistans. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki á sjöttu viðureign á velli eitt sem gæti verið um kl. 6:25 og mætir hann þá Adil Osmanov frá Moldovíu (MDA) sem situr í 36. sæti heimslistans. Karl sem keppir í +100 kg flokki á sextándu viðureign á velli 3. sem gæti verið um kl. 7 og mætir hann heimamanninum Magomedomar Magomedomarov frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (UAE) og situr hann í 17 . sæti heimslistans. Það er nokkuð ljóst að þetta verður erfiður róður fyrir okkar menn en ekkert er útilokað og allt getur gerst. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.
Afmælismót JR 2023 – yngri flokkar – Úrslit
Afmælismót JR í yngri aldursflokkum var haldið í gær laugardaginn 21. október í æfingasal félagsin. Keppendur voru frá eftirfarandi fimm judoklúbbum, Judodeild Grindavíkur, Judofélagi Reykjanesbæjar (JRB) Judodeild Selfoss, Judodeild Tindastóls og JR og voru þeir fimmtíu og fjórir og hefur fjölgað nokkuð frá því í fyrra. Keppt var í aldursflokkum frá 7 ára aldri og til og með 14 ára og hófst keppnin kl. 13:00 og lauk kl. 15:30. Keppnin var skemmtileg með fullt af flottum viðureignum og gaman að horfa á þessa einbeittu ungu keppendur sem margir hverjir sýndu góð tilþrif. Starfsmenn mótsins voru þeir Ari Sigfússon og Jóhann Másson sem sáu vigtun og mótsstjórn og dómarar voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í JR í dag en það voru þau Weronika Komendera, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Mikael Ísaksson og Jónas Guðmundsson sem sáu um dómgæsluna og leystu þau það verkefni vel af hendi. Á morgun æfingu barna 5-6 ára hjá JR sama dag var haldið lítið æfingamót og glímdu öll börnin tvær gólfglímu viðureignir og fengu öll sín gullverðlaun að lokinni æfingu. Hér eru myndir frá mótinu og verðlaunahöfum og hér eru svo úrslitin og video klippa frá keppninni.
Æfingahelgi á Eyrabakka 27-28 okt
Judofélag Suðurlands mun verða með æfingabúðir 27. – 28. október í íþróttahúsinu á Eyrarbakka, Búðarstíg 7 sjá www.jsjudo.is/eyrarbakki-stokkseyri/. Æfingarnar verða á föstudeginum kl. 18:00 og á laugardeginum kl. 14:00. Fimm erlendi gestir frá Bretlandi munu taka þátt í æfingunum en það eru þau, Martin Rance 5. Dan þjálfari, Jodie Caller 3. Dan þjálfari og keppnismaður, Mariia Gaidamachenko 1. Dan 19 ára -57kg, Marc-Anthony Hunt 1. Dan 17 ára -81kg, Marc-Anthony Hunt 1. Dan 17 ára -81kg og Charles Harris 1. Dan 17 ára -90kg. Þjálfarar verða þau George Bontakis 6. Dan og Eirini Fytrjou 1. Dan. Æfingarnar eru öllum opnar og er þátttökugjaldið kr. 5.000,- fyrir báða dagana. Vinsamlegast staðfestið þáttöku með greiðslu inn á reikning Judofélags Suðurlands – Landsbankinn 0133 26 009646 kt.520623-1240. JR hvetur alla iðkendur sína 15 ára og eldri til þess að taka þátt í þessum viðburði.
Haustmót JSÍ 2023 – Úrslit
Haustmót JSÍ í öllum aldursflokkum var haldið í Grindavík laugardaginn 14. október og var það í umsjón Judodeildar UMFG sem stóð vel að framkvæmdinni eins og venjulega. Keppendur voru sextíu og fimm frá tíu klúbbum og er það töluverð fjölgun frá því í fyrra sem lofar góðu fyrir veturinn. Athygli vakti að þátttaka kvenna er að aukast en þær voru um 25% allra þátttakenda á mótinu og flestar eða fimm talsins frá yngsta judoklúbbnum, Judofélagi Suðurlands (JS). Mótið fór vel fram, dómgæsla og mótsstjórn hin besta og fullt af spennandi og skemmtilegum viðureignum sem margar hverjar kláruðust ekki fyrr en í gullskori þar sem keppendur voru það jafnir. Judofélag Reykjavíkur var með tuttugu og sex keppendur sem stóðu sig býsna vel en þeir unnu samtals til fimmtán gullverðlauna, sex silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna. Aðrir klúbbar sem unnu til gullverðlauna voru JS með þrenn gullverðlaun og Ármann, JG og Tindastóll með eitt hvort. Óskum við öllum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.
Hér eru úrslitin, video klippa og myndir frá mótinu.
(Vantar Daron á myndina)
MALAGA SENIOR EUROPEAN CUP 2023
Þeir Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson keppa á Malaga Senior European Cup um helgina og með þeir er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Kjartan keppir á morgun laugardag og Hrafn keppir á sunnudaginn. Keppendur eru þrjúhundruð fimmtíu og fimm frá þrjátíu og fimm þjóðum. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki mætir Andis Dolgilevics (LAT) og Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Thien Oulevey (SUI). Keppnin hefst báða dagana kl. 7:00 á okkar tíma og á Kjartan á 4. glímu á velli tvö sem gæti þá verið um kl. 7:15 og Hrafn á 9. glímu á velli þrjú sem gæti þá verið um kl. 7:40. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv. Að loknu móti taka við æfingabúðir hjá þeim félögum í Malaga út næstu viku. Myndin hér neðar er tekin af þeim í OTC æfingabúðunum í Slóvakíu í byrjun október.
Afmælismót JR 2023 í yngri flokkum
Afmælismót JR 2023 í yngri aldursflokkum verður haldið laugardaginn 21. október og hefst það kl. 13:00.
Mótið er opið öllum klúbbum, engin lágmarksgráða og keppt í eftirfarandi aldursflokkum.
Aldursflokkar: U9, U10 og U11 (8, 9 og 10 ára) fæðingarár, 2015, 2014, 2013.
Aldursflokkar: U13 (11-12 ára) og U15 (13-14 ára) fæðingarár, 2012, 2011 og 2010 og 2009.
Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða krakkarnir þá vigtaðir frá kl. 12:00 til 12:30.
Mæta tímanlega í vigtun því eftir að henni lýkur kl. 12:30 eru þeir afskráðir sem mættu ekki.
Keppnin hefst svo kl. 13:00 og ætti að ljúka um kl. 15:30.
Börn 8-10 ára frá 13:00-14:00 og börn 11-14 ára frá 14:00-15:30
Tímasetningar gætu breytst svo nánari tímasetning verður tilkynnt að lokinni skráningu.
Skráning til miðnættis 16. október í skráningarkerfi JSÍ.
Keppnisgjald 1.000 kr greiðist af félagi viðkomandi keppanda.
Athugið að það eru klúbbarnir sem sjá um skráningu keppenda, ekki foreldrar.
Baku Grand Slam 2023
Í vikunni lögðu af stað til Baku í Aserbaijan þeir Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og munu þeir keppa á laugardag og sunnudag en keppnin hófst í dag og stendur til 24. september. Keppendur eru 446 frá sextíu og einni þjóð og á meðal þeirra eru flestir stigahæstu menn og konur heims í dag. Á morgun keppa þeir Kjartan og Hrafn og Karl keppir svo á sunnudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 5:30 á okkar tíma en þá er klukkan í Baku 9:30. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki situr hjá í fyrstu umferð en mætir svo í annari umferð annaðhvort Begench Soltanov frá Turkmenistan (TKM) eða Kyprianos Andreu frá Kýpur (CYP). Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Esposito Antonio frá Ítalíu (ITA). Kjartan á 19. glímu á velli eitt sem gæti verið um kl. 7 og Hrafn á 5. glímu á velli þrjú. Karl keppir í +100 kg flokki og mætir hann Cesarino Joao frá Brasilíu (BRA) og er það 8. glíma á velli þrjú. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.
Evrópumeistaramót juniora 2023
Evrópumeistaramót juniora 2023 hófst í dag en það fer fram 7-9 sept. í Haag í Hollandi. Þangað lögðu af stað í gær ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara þrír keppendur sem hann valdi til þátttöku en það eru þeir Kjartan Hreiðarsson -73 kg og Böðar Arnarsson -81 kg sem keppa á morgun föstudaginn 8. sept. og Skarphéðinn Hjaltason -90 kg sem keppir á laugardaginn. Keppendur eru 366 frá 43 þjóðum 209 karlar og 157 konur. Það er óhætt að segja að þeir hefðu getað verið heppnari með mótherja en Kjartan drógst á móti Fabrizio frá Ítalíu sem er í 14. sæti heimslistans og eiga þeir níundu glímu á velli eitt. Böðvar mætir Maddaloni á velli tvö í tólftu glímu en hann varð í öðru sæti á EM 2022 og Skarphéðinn mætir Evrópumeistaranum frá 2022 Talibov frá Azerbaijan á velli tvö í áttundu glímu. Keppnin hefst kl. 8:30 á okkar tíma og fylgjast má með henni í beinni útsendingu á JudoTV.
JSÍ með æfingabúðir í JR um helgina
Um helgina verða æfingabúðir hjá Judofélagi Reykjavíkur og er öllum klúbbum velkomið að mæta. Æfingarnar: Föstudaginn 1. september kl 18:00 Laugardaginn 2. september kl 11:00 Laugardaginn 2. september kl 17:00 Æfingarnar verða um tveggja tíma langar. Fréttin er af heimasíðu JSÍ.