Stutt myndband frá heimsókn Naoki Murata til Íslands í júní 2018.
Stutt myndband frá heimsókn Naoki Murata til Íslands í júní 2018.
Í dag fóru þeir Alexander Heiðarsson, Egill Blöndal, Logi Haraldsson, Sveinbjörn Iura ásamt landsliðsþjálfara Jóni Þór Þórarinssyni til Spánar þar sem þeir munu taka þátt í EJU árlegum æfingabúðum í Castelldefels. Þær hefjast 2. júlí og standa til 6. júlí. Þetta er liður í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í Baku í september og þátttöku í Grand Prix og EJU mótum í júlí og ágúst.
Í hófi sem haldið var í kvöld var Naoki Murata veitt gullmerki JSÍ. Naoki var landsliðsþjálfari Íslendinga á árunum 1976-1977 og fór meðal annars með landslið okkar á Ólympíuleikana í Montreal 1976 en það var í fyrsta skipti sem að Íslenskir judomenn tóku þátt í þeim. Í keppnis og æfingaferðum landsliðsmanna okkar í gegnum tíðina til Japans höfum við átt þar hauk í horni því Naoki hefur ávalt verið þeim innan handar og afar hjálplegur.
Vinur okkar Naoki Murata er væntanlegur til landsins á morgun. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann þjálfari Judodeildar Ármanns frá 1975-1977 og landsliðsþjálfari okkar Íslendinga 1976-1977 og fór meðal annars með Gísla Þorsteinssyni og Viðari Guðjohnsen á Ólympíuleikana 1976 en það var í fyrsta skipti sem Íslenskir judomenn tóku þátt í þeim. Naoki Murata sem er 8. Dan er forstöðumaður Kodokan Judo safnsins í Tokyo og einnig er hann varaforseti Japanese Academy of Budo og er mjög virtur í judo fræðum í heiminum. Á Judo Festival í Porc í vikunni var hann með stórt hlutverk og sá meðal annars um Kodokan Kata Seminar ásamt Mikihiro Mukai og MONDO þar sem hann svaraði allskonar spurningum áhugasamra um judo. Naoki Murata verður hér í boði Judodeildar Selfoss og mun hitta helstu forsvarsmenn íþróttamála þar og skoða íþróttamannvirki þeirra og vera viðstaddur æfingu hjá judodeildinni annað kvöld og að lokum verður haldin veisla honum til heiðurs. Þetta var vel til fundið hjá Selfyssingum og þakkar vert.
Sveinbjörn Iura og Ægir Valsson fóru til Króatíu á sunnudaginn var og tóku þar þátt í OTC í Porec dagana 11-14 júní og með þeim í för var Yoshihiko Iura til halds og trausts. Þessar æfingabúðir sem eru vel sóttar af mörgum af sterkustu judomönnum og konum heimsins eru hluti af stórum viðburði sem heitir Judo Festival Porec og er nú haldinn í fimmta skiptið og stendur yfir frá 9-17 júní. Fyrir utan OTC æfingabúðirnar eru einnig æfingabúðir fyrir U13 og U15 og Cadetta U18 sem og barna fjölskyldu æfingabúðir, þarna er þjálfararáðstefna, kata kennsla og fleira og fleira og held ég að þetta sé eitthvað sem við ættum að huga betur að í framtíðinni.
Það var glæsileg uppskera hjá krökkunum okkar í Luxemborg í morgun en þar kepptu þau á alþjóðlegu móti sem heitir Challenge de la Ville de Differdange 2018 og unnu þau til fimm gullverðlauna í aldursflokknum U11 en það voru þau Emma Thueringer, Helena Bjarnadóttir, Weronika Komendera, Elías Þormóðsson og Jónas Guðmundsson sem það gerðu en því miður náði Mikael Ísaksson sem keppti í U13 og er á yngra árinu ekki í verðlaun að þessu sinni en hann er einn okkar besti keppandi í þessum aldursflokki og á örugglega eftir að landa nokkrum gullum erlendis í framtíðinni. Þetta var í fjórða sinn sem þetta mót var haldið og hefur keppendum og þátttökuþjóðum fjölgað verulega frá því að það var fyrst haldið árið 2015 en þá voru keppendur 107 frá þremur þjóðum (LUX, FRA, GER) og keppt á tveimur völlum, í fyrra voru keppendur 292 frá sex þjóðum en í ár var keppt á fjórum völlum og þjóðirnar orðnar sjö( LUX, SCO, GER, BEL, NED, FRA, ISL) . Því miður eru ekki komnar upplýsingar um keppendafjölda en búast má við því að enn hafi fjölgað svo þetta var einkar glæsilegur árangur og greinilegt að Guðmundur og aðrir þjálfarar okkar eru að gera rétta hluti. Til hamingju með frábæran árangur.
Fjölmennt lið úr JR lagði af stað í morgun til Luxembourg. Þar munu þau keppa á alþjóðlegu móti sem haldið verður á morgun í Differdange og taka síðan þátt í æfingabúðum daginn eftir. Mótið heitir Challenge International de la Villa Differdange og er fyrir bæði kynin í aldursflokkum U9 – U11 – U13 – U15 og U18. Við keppum þar í aldursflokkum U11 og U13 og erum við með sex keppendur og þeim fylgja þjálfarar og foreldrar. Keppendur okkar í U11 eru Emma Thueringer, Helena Bjarnadóttir, Weronika Komendera, Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson og Mikael Ísaksson sem keppir í U13.
Logi Haraldsson tók þátt í Europen Judo Open í Madrid sem haldið var um 1-3. júní sl. Í -81 kg flokknum hjá Loga voru 38 keppendur og mætti hann Manuel Rodrigues (POR). Logi byrjaði illa og fékk shido eftir aðeins þrjátíu sekúndur og Manuel skoraði síðan Wazaari tíu sekúndum síðar. Þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af viðureigninni fékk Logi annað shido og staðan var orðin verulega slæm en þá tók hann loksins við sér og átti glímuna sem eftir var og Manuel alveg búinn á því. Logi átti ágætis vinnslu í gólfinu þar sem hann reyndi að komast í lúmska hengingu og tvær Uchimata sóknir og vantaði aðeins örlítið uppá í seinna skiptið að hann næði að skora en því miður tókst það ekki og hann féll úr keppni en hörkuglíma hjá Loga og hefði hann eflaust unnið viðureignina ef hann hefði haft svona þrjátíu sekúndur í viðbót en hann fór bara of seint í gang. Hér er glíman hans og Manuels.
Egill Blöndal keppti á Southern Area Senior Open laugardaginn 2. júní sl. Í flokknum hans -90 kg voru fimm keppendur og keppti hann því við fjóra andstæðinga sem hann vann örugglega en allar viðureignirnar vann hann á ippon og gullið var hans. Hér má sjá -90kg flokkinn. Vel gert Egill.
Egill Blöndal og Logi Haraldsson munu báðir keppa erlendis um helgina.
Egill keppir í Bretlandi á Southern Area Senior Open laugardaginn 2. júní og Logi 3. júní á Spáni á Europen Judo Open í Madrid