Íslandsmót karla og kvenna 2024 var haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur voru þrjátíu og níu frá fimm klúbbum og keppt var í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna og auk þess í opnum flokkum. Þetta var hörkumót, margar jafnar og spennandi viðureignir og kanski óvænt úrslit líka. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði örugglega -66 kg flokkinn og var það jafnframt fjórða árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari. Romans Psenicnijs sem keppti til úrslita við Ingólf í fyrra í -66 kg flokki keppti núna í -73 kg flokki og mætti þar félaga sínum Daron Hancock í keppni um gullverðlaunin en þeir hafa alloft mæst áður í úrslitum. Þetta var hörkuviðureign og jöfn eins og venjulega sem endaði að lokum með sigri Romans en hann vann á wazaari. Aðalsteinn Björnsson varð Íslandsmeistari í annað sinn er hann sigraði félaga sinn Mikael Ísaksson í úrslitum í -81 kg flokki en í fyrra sigraði hann -73 kg flokkinn. Í opnum flokki átti Aðalsteinn alveg frábæra viðureign gegn Agli Blöndal en frekar var búist við að Egill sem er áttfaldur Íslandsmeistari og afar reyndur keppandi og þyngri myndi sigra flokkinn en Aðalsteinn var á öðru máli. Eftir fullan glímutíma þar sem báðir aðilar höfðu sótt stíft og verið ógnandi hafði hvorugur náð að skora og fór glíman því í gullskor. Egill er líkamlega sterkari en Aðalsteinn sem var hinsvegar hreyfanlegri og sneggri og nýtti sér það vel því á áttundu mínútu í gullskori í einni sókn Aðalsteins reynir Egill mótbragð sem misheppnaðist en Aðalsteinn var snöggur til og komst í armlás og Egill varð að gefast upp og þar með var möguleiki hans á gullverðlaunum búinn. Skarphéðinn Hjaltason sigraði bæði -90 kg flokkinn og opinn flokk en þar mætti hann Aðalsteini í úrslitum og vann hann með glæsilegu kasti. Til gamans má geta þess að Skarphéðinn sem er tvítugur er næst yngstur til að vinna opinn flokk karla en Viðar Guðjohnsen var 19 ára þegar hann vann þann flokk árið 1977. Skarphéðinn sem er kominn í hörku keppnisform vann allar sínar viðureignir á fullnaðarsigri. Þetta voru fyrstu Íslandmeistaratitlar Skarphéðins en hann keppti til úrslita í fyrra og varð þá að lúta í lægra haldi gegn Árna Lund í opna flokknum. Árni Lund keppti í -100 kg flokki og vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil er hann sigraði Egil Blöndal í keppninni um gullið en Árni vann tvöfalt í fyrra, þá -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Weronika Komendera vann einnig tvöfalt eins og Skarphéðinn er hún sigraði bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki. Þetta var frábær dagur hjá JR, átta gullverðlaun, fjögur silfur og sex bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar og einnig í fyrsta skipti voru þau, Sigurður Hjaltason (UMFS) í +100 kg flokki og Íris Ragnarsdóttir (JS) í +78 kg flokki og var hún jafnframt með silfur í opnum flokki og fyrsti Íslandsmeistari Judofélags Suðurlands. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn. Streymt var frá mótinu og hér er stutt videoklippa og úrslitin.
Móti lokð og þá hefst frágangurinn