Árni Lund og Ingunn Rut judomenn ársins

Á uppskeruhátíð Judosambands Íslands sem haldin var í dag 18. desember var tilkynnt að Árni Pétur Lund og Ingunn Rut Sigurðardóttir bæði úr JR hafi verið valin judomenn ársins 2021 og Matthías Stefánsson úr ÍR var valinn sá efnilegasti í U21 árs aldursflokki.

Árni Pétur Lund úr Judofélagi Reykjvíkur sem keppir jafnan í -81 kg flokki var valin judomaður ársins 2021 og er það í fyrsta skiptið sem hann hlýtur þann heiður. Árni vann öll þau mót sem hann tók þátt í hér á landi en helsti árangur hans á árinu er þriðja sæti á Opna Finnska meistaramótinu, gullverðlaun á RIG, Íslandsmeistari bæði í -81 kg flokki og Opnum flokki, gull á Reykjavíkurmeistaramótinu og Íslandsmeistari með liði sínu JR í sveitakeppni JSÍ.

Ingunn Rut Sigurðardóttir úr Judofélagi Reykjavíkur sem keppti ýmist í -63 kg eða -70 kg flokki var valin judokona ársins 2021 og hlýtur hún nú þann heiður í þriðja skiptið. Ingunn var stigahæst allra kvenna á árinu og sigraði í þremur mótum af fjórum í mótröð JSÍ. Helsti árangur Ingunnar er þriðja sætið á Opna Finnska meistaramótinu, gullverðlaun á RIG, Íslandsmeistari bæði í -70 kg flokki og Opnum flokki og gull á Reykjavíkurmeistaramótinu.

Matthías Stefánsson úr Judodeild ÍR var valinn efnilegasti judomaður ársins 2021 í U21 árs. Helsti árangur Matthíasar sem keppti ýmist í -90 kg eða -100 kg þyngdarflokki var þriðja sætið á Opna Finnska meistaramótinu í -90 kg karla og þriðja sæti í -90 kg U21 árs. Hann varð í öðru sæti á Baltic Sea Championships í -90 kg U21 árs, Íslandsmeistari í -100 kg flokki karla og Íslandsmeistari -100 kg í U21 árs aldursflokki.

Fleiri viðurkenningar voru veittar í dag og fékk Þorgrímur Hallsteinsson silfurmerki JSÍ fyrir margra ára sjálfboðaliða störf fyrir JSÍ en hann hefur sinnt ýmsum störfum á nánast öllum mótum JSÍ undanfarin ár en oftast sem mótsstjóri. Judofélag Reykjanesbæjar sem stofnað var á árinu fékk hvatningarverðlaun en JRB átti fulltrúa á flestum mótum innanlands og er ört vaxandi í barna og unglingastarfi. Daníel Árnason öflugasti keppandi JRB veitti verðlaununum móttöku. Dómari ársins var valin Marija Dragic Skúlason. Sérstaka viðurkenningu fékk Sveinbjörn Jun Iura fyrir þrautseigju og keppniselju en hann hafði sett stefnuna á Ólympíuleikana í Tokyo og hafði lagt mikið á sig til að ná lágmörkunum með þátttöku í úrtökumótum um allan heim frá 2018-2021 en því miður gekk það ekki eftir og var hann í 65. sæti heimslistans þegar úrtökutímabilinu lauk.

Heiðursgráðanir á árinu hlutu þeir Kári Jakobsson og Runólfur Gunnlaugsson en þeir voru gráðaðir í 3. dan og fengu diploma því til staðfestingar á Íslandsmótinu 2021.

Diploma fyrir dangráðanir 2019-2021 fengu eftirtaldir.
1. dan.
Arnar Freyr Ólafsson, Craig Douglas Clapcott, Kjartan Logi Hreiðarsson, Kristján Daðason
2. dan
Vilhelm Halldór Svansson
3. dan
Bergur Pálsson, Egill Blöndal, Gísli Fannar Egilson, Jóhann Másson
4.dan
Garðar Hrafn Skaftason