Þrátt fyrir að Júdofélag Reykjavíkur sé meira en 50 ára gamalt félag en það var stofnað 1965, þá hefur einhverrahluta vegna ekki verið komið á þeirri hefð að velja júdomann ársins hjá félaginu en nú hefur orðið breyting á því. Ákveðið var að velja ekki einungis júdomann ársins heldur einnig júdomann ársins í U21 árs og þann efnilegasta. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn júdomaður ársins og er það annaðhvort kvenmaður eða karlmaður hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta.
Árni Pétur Lund sem keppir í -81 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019. Hann tók þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á árinu og vann þrettán viðureignir af tuttugu. Hann varð Norðurlandameistari og sigraði þar fjóra andstæðinga með yfirburðum. Varð í þriðja sæti á Smáþjóðaleikunum í Monmtenegro og á Matsumae Cup í U21 árs varð hann þriði eftir að hafa lagt sex andstæðinga af velli. Hann varð í þriðja sæti á Reykjavík Intl. games, Íslandsmeistari í 81 kg flokki karla og í þriðja sæti í Opnum flokki. Íslandsmeistari í -90 kg flokki U21 árs og Íslandsmeistari með félagi sínu JR í liðakeppni karla og U21 árs og auk þess vann hann Haustmót karla -81 kg og Afmælismót JSÍ -90 kg í U21.
Kjartan Hreiðarsson sem er 16 ára og keppir í -73 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019 í U21 árs aldursflokki. Hann vann nánast öll þau mót sem hann tók þátt í á árinu, Íslandsmeistari bæði í U18 og U21 árs og liðakeppni, varð þriðji á Íslandsmeistaramóti karla og silfur á Opna Finnska svo eitthvað sé tiltekið. Kjartan hefur tekið mjög miklum framförum og verður spennandi að fylgjast með honum á júdovellinum á komandi árum.
Skarphéðinn Hjaltason sem er 15 ára og keppir í -81 kg flokki var valinn Efnilegasti Júdomaður JR 2019 í aldursflokki U18/U21 árs. Skarphéðinn hefur tekið miklum framförum á árinu og er öðrum til fyrirmyndar hversu vel hann sækir æfingar og leggur sig fram á þeim. Hann er alveg óhræddur við að glíma við sér eldri og reyndari júdomenn og þyngri ef því er að skipta og eftir því tekið að hann tekur alltaf þátt í stuttri auka æfingu með félögum sínum að lokinni venjulegri æfingu.