Þeir félagar Ævar Smári Jóhannsson og Eyjólfur Orri Sverrisson voru báðir gráðaðir í gær af Guðmundi Birni Jónassyni og stóðu þeir sig með sóma. Ævar hóf að stunda judo um áramótin en hann fékk áhugann og vildi prófa þegar hann fylgdist með syni sínum Andra og dóttur sinni Soffíu Huld sem hann keyrði reglulega á æfingar í JR og nú fimm mánuðum síðar tók hann sína fyrstu gráðu 5. kyu. Þess má geta að faðir hanns Jóhann æfði einnig judo á sínum yngri árum svo judoið er vel kynnt innan fjölskyldunnar. Eyjólfur Orri æfði judo fyrir rúmum tveimur áratugum en tók sér svo langt frí og byrjaði aftur á síðasta ári en var þá búinn að taka einhverjar gráður. Judoið blundaði alltaf í honum og ákvað hann að endurnýja kynnin af því en vildi byrja uppá nýtt þar sem svo langt var um liðið og tók því gula og appelsínu gula beltið aftur. Á myndinni sem fylgir með eru tveir af bestu keppendum JR í dag í unglingaflokki þeir Andri Fannar sonur Ævars og Kjartan Logi Hreiðarsson langa afabarn Svavars Carlsen fyrsta Íslandsmeistarans í judo en það var árið 1970 svo íþróttin gengur víða í ættir.