Sveitakeppni JSÍ 2025 – úrslit

Sveitakeppni JSÍ 2025, Íslandsmeistaramót í liðakeppni klúbba sem átti að fara fram 15. nóvember var færð til þriðjudagsins 18. nóv. og var keppnin haldin hjá Judofélagi Reykjavíkur.

JR sendi tíu sveitir til leiks, eina kvennasveit og þrjár karlasveitir í senioraflokki, tvær karlasveitir í U21 árs flokki og tvær drengjasveitir og tvær stúlknasveitir í U15 ára aldursflokki. Því miður var engin þátttaka frá öðrum klúbbum í þessari sögulegu keppni sem spannar yfir fimmtíu ár og er það í fjórða skiptið sem það gerist (2021, 2022, 2024, 2025).

Sveitakeppni karla var fyrst haldin 1974 og var þetta í 49 skipti sem keppnin fór fram en mótið féll niður 1993, 2002 og 2020. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa sigrað í þessari keppni.

Þar sem önnur judofélög voru ekki með keppendur þá kepptu sveitir JR innbyrðis nema kvennasveitin en þar var JR bara með eina sveit svo þar var engin keppni. Til að gera keppnina sem skemmtilegasta og kanski mest spennandi og jafna þá var ekki raðað eftir styrkleika keppenda í A og B sveitir heldur var dregið um það í hvaða sveitir keppendur röðuðust.

Keppnin var stórskemmtileg og viðureignir margar hverjar jafnar og spennandi og engin leið að átta sig á því fyrirfram hvaða sveit myndi bera sigur úr býtum. Dómarar voru þeir Gísli Egilson og Ægir Valsson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon, Jóhann Másson og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi sem og þjálfarar og aðstoðarmenn þeirra og þökkum við fyrir þeirra framlag.

Þetta var í tuttugusta og fjórða skipti sem JR sigrar í sveitakeppni karla og tólfta árið í röð. Hér eru úrslitin, U15 stúlkur, U15 drengirU21 karlar og senioraflokkur karla. Hér neðar eru myndir frá mótinu og hér er stutt videoklippa.