Íslandsmeistaramótið var haldið í gær sunnudaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur voru fjörtíu og þrír frá sex judofélögum. Keppt var í sjö flokkum karla og fjórum flokkum kvenna og unnu JR-ingar til sjö gullverðlauna, sjö silfur og fimm bronsverðlauna. Af ellefu íslandsmeisturum voru fimm þeirra að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í seniora flokki en aðrir sinn annan, þriðja og fjórða titil og Egill Blöndal sinn níunda en núna í fyrsta sinn í +100 kg flokki eftir hörku viðureign gegn Kjartani Hreiðarssyni og hörkutólið Janusz Kommendera sigraði -66 kg flokkinn í fjórða sinn eftir harða baráttu gegn unglingnum Orra Helgasyni. Eyja Viborg (-57), Heiðrún Pálsdóttir (+78), Damian Troianschi (-90), Gylfi Edduson (-73) og Mikael Ísaksson (-81) urðu Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í seniora flokki og óskum við þeim til hamingju með þann áfanga. Weronioka Kommendera varði titlana frá því 2024 en hún vann bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn núna eins og í fyrra. Aðalsteinn Björnsson sem keppti til úrslita í fyrra í Opnum flokki en varð að játa sig sigraðan þá gegn félaga sínum Skarphéðni Hjaltasyni sem varð Íslandsmeistari núna í -100 kg flokki, sigraði núna Opna flokkinn eftir æsispennandi viðureign gegn Damian Troianschi en hann hafði fyrr um daginn tapað fyrir honum í úrslitum í -90 kg flokki. Viðureignin milli Aðalsteins og Damian sem er topp judomaður frá Portugal (Portgalskur meistari 2023) og búið hefur á Íslandi undanfarin ár var í hæsta gæðfokki og mátti vart á milli sjá hvor myndi standa uppi sem sigurvegari en Aðalsteinn sem er á gríðarlegri siglingu gaf sig hvergi þrátt fyrir að hafa tapað fyrr um daginn gegn honum og náði glæsilegu ippon kasti undir lok glímutímas og sigraði í flokkinn og er sá yngsti (18 ára) sem það hefur gert fram að þessu. Fleiri spennandi, skemmtilegar og jafnar viðureignir litu dagsins ljós og aðrar sem voru stuttar og snarpar sem enduðu á glæsilegum köstum og var mótið heilt yfir hin besta skemmtun og vel framkvæmt og passlega langt en það hófst kl. 10 og lauk um kl. 13. Að lokum þá óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin, stutt videoklippa og streymi frá mótinu völlur 1. og völlur 2.


























































