Þeir Viktor Kristmundsson og Aðalsteinn Björnsson unnu til verðlauna á alþjóðlegu móti í Danmörku, Matsumae Cup sem haldið var dagana 15. og 16. febrúar. Mótið vel sótt en rúmlega 600 keppendur frá tæplega 20 þjóðum sóttu mótið. Viktor vann silfur í U18 aldursflokki +90 kg og Aðalsteinn brons í U21 árs aldursflokki -90 kg og voru það einu verðlaun Íslendinga að þessu sinni. Það voru nítján þátttakendur frá Íslandi frá fjórum klúbbum en auk keppenda frá JR voru keppendur frá Ármanni, JS og UMFS. Keppendur okkar stóðu sig býsna vel og unnu allir viðureignir og sumir fleiri en eina og fleiri en tvær. Auk Aðalsteins kepptu um bronsverðlaun þau Helena Bjarnadóttir í U18-63 og Jónas Guðmundsson U18 -73 en töpuðu sinni viðureign og enduðu því í fimmta sæti. Arnar Arnarson (JS) U21-100 kg var hársbreidd frá bronsverðlaunum en hann var með jafnmarga vinninga og jafn mörg tæknistig og sá sem hreppti bronsið en það var innbyrðisviðureign þeirra sem réði úrslitum og endaði Arnar því í fjórða sæti. Elías Funi Þormóðsson og Gunnar Ingi Tryggvason urðu í sjöunda sæti í U18 -73 kg sem og þær Eyja Viborg (Ármanni) U18 -57, Weronika Komendera U18 -63 og Helena Bjarnadóttir U21 -63 kg. Ísland tók þátt í liðakeppninni sem haldin var seinni keppnisdaginn og voru sex manns í hverju liði, þrjár konur og þrír karlar og var lið Íslands skipað keppendum úr öllum fjórum klúbbunum. Ísland var í riðli með Danmörku og Japan og í hinum riðlinum var lið Póllands, Hollands og Írlands. Lið Japans sigraði að lokum, Danmörk varð í öðru sæti og Holland í því þriðja. Að loknu móti tóku við tveggja daga æfingabúðir í Vejle ásamt flestum keppendum mótsins. Æft var í tvo tíma tvisvar á dag og voru þessar æfingabúðir virkilega góðar. Hér eru úrslitin og hér er streymi frá útsendingunni báða dagana og hér má finna streymi frá eldri mótum og að lokum stutt videoklippa frá keppninni og æfingabúðunum.

















































































