Baltic Sea Championship 2025 fór fram dagana 6-7 desember í Orimatilla í Finnlandi. Mótið er eitt af þeim sterkari sem haldið er á Norðurlöndunum og voru keppendur tæplega sjöhundruð frá ellefu þjóðum. Frá Íslandi voru þátttakendur þrír og kepptu í U20 og senioraflokkum. Mikael Ísaksson komst lengst okkar keppenda að þessu sinni en hann keppti til úrslita í U20 í -90 kg flokki eftir að hafa lagt þrjá andstæðinga af velli. Fyrst mætti hann G. Karaklidis frá Grikklandi/SWE og skoraði yuko eftir umþað bil tvær mínútur og fylgdi vel eftir og náði honum í fastatak og vann á ippon. Næst mætti hann M. Polishchuk, keppanda frá Finnlandi sem hann sigraði á yuko eftir fullan glímutíma og í þriðju umferð mætti hann T. D´Hooge frá Svíþjóð og var það hörku viðureign sem fór í gullskor að loknum venjulegum glímutíma sem er fjórar mínútur og sigraði Mikael hann á yuko eftir eina og hálfa mínútu. Hér var hann kominn í úrslit og mætti öðrum svía Viktor Baathe en varð þar því miður að lúta í lægra en Viktor sótti eldsnöggt í Kata Guruma og skoraði yuko og náði að fylgja vel eftir og komst í fastatak sem Mikael náði ekki að losa sig úr en silfrið var Mikaels og er hann vel að því kominn. Því miður meiddi hann sig lítillega og stífnaði upp í herðum og háls og ákvað að sleppa keppni daginn eftir í senioraflokki. Þeir Elías Þormóðsson (U20 og senioraflokkur -73 kg) og Vasileios Tsagkatakis (senioraflokkur -81 kg) áttu ekki eins góðan dag og Mikael en þeir töpuðu báðir sínum viðureignum í fyrstu umferð og féllu úr keppni. Hér eru linkar á YouTube video frá mótinu, öll úrslit og pdf úrslit okkar keppenda og að lokum stutt video af glímunum hans Mikaels í U20 -90 kg flokki.



