Lokahóf JSÍ 2024

Á lokahófi Judosambands Íslands í gær var tilkynnt um val á judomönnum ársins, hver voru þau efnilegustu og veittar viðurkenningar sem Gísli Egilson nýkjörinn formaður afhenti. Judomenn ársins 2024 voru kjörin þau Helena Bjarnadóttir og Skarphéðinn Hjaltason bæði úr JR og er það í annað skiptið sem Helena hlýtur þessa nafnbót en hún var einnig kjörin 2023. Einnig var tilkynnt um val á efnilegastu judomönnum ársins og voru hlutskörpust þau Eyja Viborg (Ármanni) og Orri Snær Helgason (JR). Þá voru afhentar viðurkenningar fyrir dan gráðanir á árinu sem voru allnokkrar en það voru sjö sem gráðuðust í 1. dan, tveir í 4. dan, einn í 5. dan, tveir í 6. dan og einn í 7. dan. Þeir sem gráðuðust í 1. dan voru, Eyjólfur Orri Sverrisson, Garðar Hallur Sigurðsson, Magnús Jóhannsson, Mikael Ísaksson og Raul Vlad Matei Matei allir úr JR, Jakob H. P. Burgel Ingvarsson úr UMFS og Piotr Slawomir Latkowski úr UMFG. Gísli Egilson (JG) og Jóhann Másson (JR) fóru í 4. dan, Garðar Skaptason (JS) í 5. dan, Björn Halldórsson (JG) og Höskuldur Einarsson (JR) í 6. dan og í byrjun árs veitti forseti EJU Dr. László Tóth, Halldóri Guðbjörnssyni (JR) gráðuna 7. dan. Dómari ársins var kjörinn Sævar Sigursteinsson úr Ármanni. Gísla Inga Þorsteinssyni var veitt gullmerki JSÍ fyrir hans framlag til íþróttarinnar en hann var fyrsti Norðurlandameistari okkar í judo árið 1976. Hann keppti á einnig á Ólympíuleikunum í Montreal 1976 en það var í fyrsta skipti sem Íslenskir judomenn voru á meðal þátttakenda og á Ólympíuleikunum í Los Angeles fyrir 40 árum var hann þjálfari Íslensku keppendanna .