Því miður komust okkar menn ekki áfram í dag á European Judo Open í Glasgow. Sveinbjörn mætti Victor Busch frá Svíþjóð og gat sú viðureign farið á báða bóga en þeir hafa lent saman áður og skipst á að vinna. Victor hafði betur núna en viðureign þeirra hafði staðið í þrjár mínútur og hvorgur náð að ógna sem neinu nemur þegar Victor nær að skora Wazaari og aðeins ein mínúta eftir. Sveinbjörn reyndi sem hann gat til að jafna og í einni sókn sinni sem tókst ekki vel og lítið var eftir af glímutímanum lentu þeir í gólfglímu og komst Victor í fastatak og Sveinbjörn varð að játa sig sigraðan. Egill mætti Frakkanum Guillaume Riou og byrjaði vel því hann var kominn yfir eftir aðeins þrjátíu sekúndur er hann skoraði Wazaari með vel útfærðu Kata guruma og ekki langt frá því að klára glímuna í framhaldi af kastinu með armlás. Þetta kom Frakkanum örugglega á óvart og var hann öllu beittari eftir þetta og varð Egill að taka á honum stóra sínum og bjargaði sér oft snilldarlega úr erfiðri stöðu í gólfglímunni. Þegar tæpar tvær mínútur eru eftir jafnar Frakkinn þegar hann skorar Wazaari með Sumi gaeshi og gerði síðan út um glímuna þegar hann skorar annað Wazaari þegar um tuttugu sekúnur eru eftir af viðureigninni. Næstu verkefni hjá Agli og Sveinbirni verða í Asíu því þeir munu halda til Japans innan skamms ásamt þeim Breka Berhardssyni og Ægi Valssyni og verða þar við æfingar í umþað bil tvo mánuði og keppa á Grand Slam í Osaka 23. nóvember og 1. desember á Hong Kong Asian Open.