Þá eru EYOF leikunum 2022 lokið. Judokeppnin hófst 26 júlí og lauk 30 júlí með blandaðri liðakeppni þar sem Azerbaijan fór með sigur af hólmi. Þeir Skarphéðinn Hjaltason, JR og Jakub Tomczyk, UMFS kepptu 28. júlí og drógust báðir á móti mjög sterkum andstæðingum í fyrstu umferð. Jakub mætti Stanislav Korchemliuk frá Úkraníu í -81 kg flokki og tapaði Jakub þeirri viðureign en Stanislav stóð uppi sem sigurvegari í lok dags og það var eins hjá Skarphéðni en hann tapaði gegn Miljan Radulj frá Serbíu í fyrstu umferð og sigraði Miljan -90 kg flokkinn síðar þann dag. Bæði Skarphéðinn og Jakub fengu uppreisnarglímu, Skarphéðinn mætti keppanda frá UKR og Jakub keppanda frá Tyrklandi en því miður töpuðust þær einnig og þar með var þátttöku okkar manna á mótinu lokið. EYOF er gríðasterkt judomót og ekkert sjálfgefið að vinna viðureign á því en það vissu þeir félagar sem lögðu sig alla fram en það dugði ekki að þessu sinni. Eins og áður hefur komið fram þá hafa allmargir fyrrum sigurvegarar á EYOF unnið verðlaun á stórmótum eins og t.d. Ólympíuleikum ekki svo löngu seinna og verður því áhugavert að fylgjast með sigurvegurum frá EYOF 2022 á komandi árum. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari var strákunum okkar til aðstoðar í þessari ferð.