Jólamót JR/Afmælismót í senioraflokkum var haldið föstudaginn 13. desember. Keppt var í tveimur flokkum karla og tveimur kvenna. Þetta mót var fyrst haldið 2006 og er þetta þá það fjórtánda. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem sumir hverjir eru hættir keppni og voru okkar bestu júdomenn þess tíma. Það hefur verið frekar létt yfir þessu móti og enginn að kippa sér upp við það þó að áhorfendur eða jafnvel dómarinn “rétti sínum manni hjálparhönd” í miðri viðureign en alltaf fer þó réttur sigurvegari af velli. Ásta Lovísa Arnórsdóttir sigraði í -57 kg, Ingunn Rut Sigurðardóttir sigraði í +57 kg. Þyngdarflokkar karla -73 og -81 kg voru sameinaðir og sigraði Zaza Simonishvili þann flokk og Jón Þór Þórarinsson sigraði sameiginlegan flokk -90 /+90 kg og að lokum þá sigraði gamla kempan Halldór Guðbjörnsson sinn flokk örugglega þar sem að mótherjar hans þeir Bjarni Skúlason og Karel Halldórsson voru hvergi sjáanlegir og mættu ekki til leiks. Dómarar voru þeir Eiríkur Kristinsson og Andres Palma og þökkum við þeim kærlega fyrir hjálpina. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.