Helena Bjarnadóttir náði glæsilegum árangri í dag á Open Twents Judo Championship. Hún sigraði í aldursflokknum U12 ára í +48 kg flokknum og fékk því gullverðlaunin. Hún glímdi mjög vel og sigraði örugglega. Matas Naudziunas vann einnig til verðlauna en hann fékk bronsið í sama aldursflokki í +57 kg. Mikael Máni Ísaksson glímdi einnig mjög vel í dag en hann vann nokkra glímur og keppti um bronsverðlaunin í U12 -42 kg flokknum og fór viðureign hans í dómaraúrskurð sem féll honum í óhag og voru þjálfarar okkar afar óhressir með þá niðustöðu en Mikael var mun sterkari aðilinn að þeirra mati og átti bronsið skilið. Emma Tekla og Aðalsteinn Karl unnu fyrstu viðureign en töpuðu næstu tveimur og komust ekki á verðlaunapall. Elías Funi, Jónas Björn og Daron Karl töpuðu sínum viðureignum og það gerði reyndar Skarphéðinn Hjaltason einnig en hann keppti í U15 +66 kg flokknum. Hann fékk tvær glímur og voru andstæðingar hans ekki af verri endanum því þeir urðu í öðru og þriðja sæti í flokknum síðar um daginn svo hann hefði getað verið heppnari með dráttinn. Þjálfarar okkar voru ekkert sérstaklega ánægðir með dómgæsluna í dag því þær sérreglur sem áttu að gilda á mótinu, ákveðnin brögð og aðferðir sem áttu að vera bönnuð í barnaflokkunum, var ekki fylgt eftir en það hafði verið sérstaklega brýnt fyrir okkar krökkum að fara eftir þeim og kom það því niður á þeim. Heilt yfir voru þeir þó ánægðir mótið og frammistöðu krakkana en mótið var gríðasterkt og eitt það sterkasta sem haldið er í þessum aldursflokkum og höfum við því háleitt markmið sem þarf að ná á næstu árum en það eru fleiri JR ingar á verðlaunapall á þessu móti.