Hayward Nishioka 9. dan sem er mjög virtur judomaður frá Los Angeles kom í óvænta heimókn í JR í gær. Hayward sem er fyrrum heimsklassa keppandi, var tvisvar sinnum í fimmta sæti á heimsmeistaramóti, gullverðlaunahafi á Pan-Ameríkuleikum og margfaldur Bandarískur meistari. Hann var einnig alþjóðlegur dómari og dæmdi ekki bara í Ameríku heldur einnig í Asíu og Evrópu og hann hefur verið aðalþjálfari Bandaríkjana á nokkrum viðburðum. Hayward er einnig með svart belti Karate og Kendo. Hayward sem er áttræður hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur kennt judo yfir 40 ár, skrifað fjölda bóka um judo, æft með þeim bestu á sínum tíma eins og Ólympíumeistaranum Anton Geesink, leikið í hasarmyndum þar sem judo/karate kom við sögu og var persónulegur vinur Bruce Lee og æfði oft með honum og hefur verið tekinn inn í US Judo Hall of Fame. Það var ákaflega ánægjulegt að hitta Hayward og fá tækifæri á því að spjalla við hann um liðna tíð. Takk fyrir komuna Hayward.




