Gull, silfur og brons á NM 2025

Það bættust við góðmálmar á NM í dag þegar Arnar Arnarsson og Zaza Simonishvili luku keppni en Arnar varð annar í -100 kg flokki í U21 og Zaza sigraði alla sína fimm andstæðinga á ippon í veterans flokki -73 kg. Einnig stóð til að Þormóður Jónsson myndi keppa í veterans flokki +100 kg en þar vantaði mótherja svo ekkert varð af því. Auk fyrgreindra kepptu einnig í dag þeir Jónas Guðmundsson -73 kg og Gunnar Tryggvason og Mikael Ísaksson í -81 kg flokki og komst Mikael lengst þeirra en hann endaði í 7. sæti. Einnig stóð til að þau Viktor Kristmundsson, Eyja Viborg, Helena Bjarnadóttir og Weronika Komendera myndu keppa en vegna lítilsháttar meiðsla og að stutt er í Smáþjóðaleikana þar sem stúlkurnar verða á meðal þátttakenda var ákveðið að láta keppnina í gær duga hjá þeim en Viktor keppti ekki vegna meiðsla í öxl frá því gær. Það voru formenn judosambanda Norðurlanda sem veittu verðlaunin og var Gísli Egilson formaður JSÍ einn þeirra eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það er óhætt að segja að árangur okkar á Norðurlandameistaramótinu hafi verið góður, þrjú gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Til hamingju með árangurinn. Hér má finna úrslit mótsins.