Það var aldeilis frábær árangur sem strákarnir okkar náðu í morgun á Södra Open 2017. Emilíen og Hákon sigruðu í sínum flokkum og Kjartan og Skarphéðinn unnu til silfurverðlauna. Því miður gekk ekki eins vel hjá Kára en hann varð í sjöunda sæti sem er flott hjá honum en í -55 kg flokknum sem var fjölmennastur voru 12 keppendur og tapaði hann fyrstu viðureign, vann næsu en tapaði svo þeirri þriðju og varð sjöundi eins og áður sagði. Hákon vann -60 kg flokkinn örugglega og sigraði alla á ippon og það sama gerði Emilíen í -73kg flokknum. Skarphéðinn tapaði einni viðureign í -73kg flokknum og var það gegn Emilíen. Í -66kg flokknum hjá Kjartani voru níu keppendur og komst hann örugglega í úrslitin eftir þrjár umferðir en þar varð hann að játa sig sigraðan. Þetta var frábær árangur hjá strákunum og eiga þeir allir hrós skilið fyrir frammistöðuna sem og þjálfarar þeirra Heimir og Garðar sem fylgdu þeim á mótið og höfðu í nógu að snúast þar sem keppt var á sex völlum og allir á svipuðum tíma.