Í dag hófst Norðurandamótið 2025 með keppni í U18 og senioraflokkum og komu fern verðlaun í hús hjá okkur, tvö gull og tvö brons. Eyja Viborg reið á vaðið og sigraði -52 kg flokkinn í U18 og vann þar alla sína andstæðinga örugglega. Ekki löngu seinna lék Viktor Kristmundsson sama leikinn og sigraði einnig örugglega í +90 kg flokki í U18. Helena Bjarnadóttir sem keppti í -70 kg í U18 glímdi líklegast lengst allra en ein viðureignin sem venjulega er 4 mínútur fór í gullskor og stóð samtals í 21 mínútu. Maður þarf að vera í toppformi til að standast það álag sem og Helena gerði. Hún komst í undanúrslit en tapaði þar en bronsverðlaunin voru hennar. Kjartan Hreiðarsson keppti síðastur okkar manna í dag en hann keppti í +100 kg flokki karla. Þar sigraði hann þrjá andstæðinga sína örugglega en tapaði tveimur viðureignum en það var gegn sigurvegaranum og silfurverðlaunahafanum svo Kjartan stóð uppi með bronsverðlaunin eins og Helena. Fleiri kepptu í dag en stóðu sig auðvitað misvel og komust nokkrir í 6-9 sæti. Þetta er ungt lið meðalaldurinn um 17 ár sá yngsti 15 ára og sá elsti 22 ára og fer þessi þátttaka öll í reynslubankann þeirra sem á eftir að nýtast þeim seinna meir. Á morgun verður keppt í U21 árs aldursflokki og veterans og erum við með fjölda þátttakenda þar. Við óskum Íslenska liðinu til hamingju með árangurinn í dag sem var frábær.
