Helgina 26-27 Október hélt Guðmundur B. Jónasson ásamt yngri hópnum hjá JR til Grindavíkur ásamt fylgdarliði fjórða árið í röð. Þessi hefð hefur reynst vel til að þróa góð tengsl á milli iðkanda ásamt því að bæta kunnáttu iðkenda á greininni. Guðmundur ásamt Arnari sem þjálfar judódeildina hjá Grindavík og Þrótt í Vogunum komu þessu á fyrir þremur árum síðan og hafa iðkendur ávallt haft gaman af. Þrátt fyrir þá tilviljun að það virðist alltaf þessa helgi þegar mótið er haldið vera kalt og eða vindasamt þá hefur Guðmundur ávalt fylgt því eftir að fara í þessa ferð og á hann hrós skilið fyrir það. Keppendur frá JR voru að þessu sinni 8 talsins en einhverjir forfölluðust. Gaman er að segja frá því að okkar yngsti iðkandi hann Fannar Þormóðsson var einn þeirra og var að keppa á sínu fyrsta móti. Þetta er sennilega í fyrsta sinn sem hann fær að glíma við einhvern í sinni stærð enda alltaf lang yngstur á æfingum. Það fór honum bara vel að bregðast við þegar “hajime” hljómaði fyrst þann daginn enda átti hann fyrstu glímu dagsins. Bróðir hans og faðir eru miklir júdómenn eins og flestum er kunnugt svo hann hefur ekki langt að sækja hæfileikana. Allir glímdu vel og var augljóst að eftir að haustak var bannað hjá yngri keppendum þá sér maður mun flottari tækni og ALLS EKKERT færri köst. Reyndar var þetta bara æfingamót svo ekki var raðað í sæti og einstaka úrslit úr glímum því kanski auka atriði. Allir fengu gullpening, meira að segja Guðmundur þjálfari og Maja sem kom og dæmdi upp á 10. Svo var farið í sund, étnar pönnukökur í boði UMFG og komið sér fyrir í gistiaðstöðunni en þar gistu einnig iðkendur úr Þrótti. Um kvöldið var svo boðið upp á flatbökur og popp sem var maulað á yfir mynd sem sýnd var. Að því loknu var haldið niður í gistiaðstöðu og farið að sofa. Eða öllu heldur farið að sofa eftir að Guðmundur hafði staðið í stappi við iðkendur í dálítinn tíma. Krakkarnir vöknuðu svo fyrir allar aldir við lítinn fögnuð Arnars þjálfara en þeim tókst að vekja hann og viljum við JR-ingar biðjast velvirðingar á því. Þormóður Árni Jónsson mætti svo og stjórnaði æfingu að morgunmati (sem boðið var upp á) loknum klukkan 10, eftir það var haldið heim. Það er frábært að sjá hversu vel þessi hópur er samrýndur og foreldrar tilbúnir að leggjast á eitt til að krakkarnir fái sem mesta skemmtun og ánægju út úr þessu. Sem dæmi má nefna að Þormóður og Maja eru foreldrar iðkenda hjá okkur og svöruðu kallinu vel þegar óskað var eftir kröftum þeirra. Þessir krakkar hafa æft lengi saman, Jónas og Elías hafa t.d æft frá því að þeir voru á leikskólaaldri og virðast altaf meðvitaðir um að þegar einhver nýr kemur á æfingu þá þarf að passa upp á hann/hana og taka vel á móti viðkomandi. Eins þá fara þau í barna afmæli, heimsóknir, gistingar hvert hjá öðru og hafa farið í margar æfinga/keppnisferðir saman. Þetta gæti ekki gengið nema með aðstoð margra handa. Ég ætla að fullyrða að á bakvið þennan hóp er besti foreldrahópur sem um getur. Ef þessu starfi verður haldið áfram þá verða þar magnaðir judókeppendur á ferðinni í framtíðinni. Það er frábært hversu vel samstarfið hefur tekist við þessa klúbba Grindavík og Voga. Að geta nánast gengið að því vísu árlega að borga lítinn pening fyrir allt sem áður var upp talið er frábært og viljum við koma þakklætiskveðju til þeirra sem að því stóðu, sérstaklega Arnari Má þjálfara UMFG og UMFÞ.