Grindavíkurferðin 2017

Laugardaginn 28. okt. fóru þjálfarar barna 6-10 ára þeir Guðmundur Björn Jónasson og Emil Þór Emilsson í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Þar hittast judo krakkar UMFG og JR og er haldin keppni fyrir þau og mini æfingabúðir að keppni lokinni. Þar koma reyndir keppnismenn og miðla af reynslu sinni til barnanna. Þeir félagar Arnar Már Jónsson þjálfari UMFG og Guðmundur og Emil hafa staðið fyrir þessum viðburði í nokkur ár fyrir þennan aldursflokk. Þetta er frábært framtak þeirra félaga til að byggja upp starfsemi og hlúa að þessum aldursflokki því þau eru framtíðin. Judodeild Tindastóls hefur verið með árlegan viðburð að vori og æskilegt væri ef fleiri klúbbar gerðu slíkt hið sama þannig að meira væri um að vera hjá börnunum og meiri líkur að þau endist lengur í íþróttinni.  Þetta er mjög þarft verk og til fyrirmyndar hvernig staðið er að þessum viðburði og á gestgjafinn UMFG hrós skilið fyrir framkvæmdina.

Hér er pistill Guðmundar Björns Jónassonar þjálfarar barna 6-10 ára hjá JR.
Laugardaginn síðastliðinn (28.10) fóru 9 framtíðar júdógoðsagnir í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Markmið ferðarinar er ávalt fyrst og fremst að hafa gaman, kynnast hvort öðru, iðkendum og aðstandenda annara júdódeilda. Ég og hinn mikli hugsuður Emil sem að þjálfar þessa dáðadrengi og stúlkur trúum á það að ef þú hefur gaman og líður vel hjá okkur þá hefurðu meiri löngun að mæta og taka þátt. Þá gerist það sjálfkrafa að þú bætir þig í júdó og það er einmitt það sem þessir krakkar eru sífellt að gera. Við höfum fengið frábær viðbrögð hjá foreldrum og Bjarna Friðriksyni til að koma alls konar hugmyndum í gegn eins og t.d að bæta við fleiri æfingum og fara að minnsta kosti einu sinni á önn í ferðalög með hópinn. Þessir krakkar sem við erum að þjálfa hafa æft sum þeirra saman í nokkur ár og ávalt komið með í þessi ævintýra ferðalög þó var einn nýr iðkandi með í fyrsta sinn núna og smellpassaði í hópinn. Ekkert þeirra eru saman í skóla og teljum við því að þetta tengi þau betur saman og virki sem gulrót. 

En nóg með mikilvægi þess að fara í ferðalög er sennilega búinn að selja flestum þá hugmynd. Viðtökurnar hjá Arnari þjálfara Grindavíkur og Voga ásamt aðstandendum iðkenda þar á bæ hefði passað hvaða aðalsborna eða hreinlega konungsborna einstakling sem er, það vantaði bara rauðan dregil fyrir utan íþróttahúsið. Mótið hófst klukkan 12.00 og mætti Daníel í jakkafötunum og dæmdi eins og herforingi. Glímurnar voru mun flottari en maður hefur átt að venjast og ég hélt mig betur á mottunni á hliðarlínunni. Krakkarnir héldu hópinn saman í upphituninni og á meðan mótinu stóð og voru lítið að hlaupa til foreldra. Sem er frábært því það er það sem við Emil ætlumst til, hvort þau vinni eða tapi skiptir minna máli sem ég er alltaf að átta mig betur á. Eftir mótið fórum við svo í sund  með hinum liðunum og þar sannaðist sú kenning að júdó sameinar. Þess má geta að upplifun mín sé reyndar sú að þessi hópur hjá JR sé tengdur einstökum böndum og allir virðast vera með hlutverk. T.d þá hafa þeir Jónas og Elías æft saman síðan á leikskóla aldri og eru miklir vinir. Elías tekur það altaf að sér óumbeðinn að passa upp á Jónas, að hann geri hlutina rétt, gangi vel frá eftir sig og svo framvegis og hefur meira lag á því en nokkur annar. Að sundinu loknu voru foreldrar iðkanda frá Grindavík búin að baka serbneskar pönnukökur sem brögðuðust ansi vel og réðust krakkarnir á þær eins og Packman á punktana. Eftir pönnuköku átið var komið sér fyrir upp í skóla þar sem við gistum. Í kvöldmat var pítsuhlaðborð og bíó eftir það. Að lokum eftir smá tuð og þras tókst öllum að sofna.

Næsti dagur var ekki af verra taginu heldur. Hafragrautur og ávextir voru á morgunnverðar matseðlinum og til allra lukku fyrir hinn langþreytta þjálfara JR afa Guðmund rjúkandi kaffi líka sem virkaði eins og lífs elixír á hann. Svo var farið í galla og sameiginleg æfing haldin. Á þeirri æfingu mættu hinir reynslu miklu júdómenn Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason sem gestaþjálfarar og sýndu tækni.  Að fá þessa tvo virkaði vel á stemninguna og var en einn liður í að fá sem flottasta umgjörð. Eftir æfinguna var haldið heim á leið og allir kvöddust með gleði í hjarta. Það fréttist svo að þjálfari JR hafi verið svo þreyttur að hann svaf fram eftir hádegi næsta dag en um leið og hann vaknaði fór hann víst að spá í næstu ferð sem hann gæti skipulagt. 

Það sem stendur upp frá mínum bæjardyrum séð er að við Emil erum með frábæran hóp af iðkendum og foreldrum sem gera svona lagað mögulegt. Við viljum þakka Bjarna sérstaklega fyrir að treysta okkur að fara okkar leiðir en vera ávalt til í að leiðbeina okkur ef þarf (og það þarf). Svo erum við með fleiri ansi góða hauka í horni sem við getum leitað til varðandi þjálfunar ráð Þormóð, Bjarna Skúla, Jón Þór og fleiri. Takk fyrir mig!