Sveinbjörn Iura keppti í dag á Paris Grand Slam 2020 og mætti þar Michael Aristos frá Kýpur. Þetta var jöfn viðureign en Sveinbjörn þó öllu sterkari. Þegar venjulegum glímutíma var lokið hafði hvorugur skorað en Michael var kominn með eitt refsistig. Eftir umþaðbil eina mínútu í gullskorsviðureigninni fékk hann sitt annað refsistig og það stefndi í sigur fyrir Sveinbjörn en skömmu síðar komst Michael í góða sókn og skoraði ippon með vinstra ouchi gari og þar með var keppni lokið hjá Sveinbirni. Það sem mesta athygli vakti í dag var þegar Teddy Riner tífaldur heimsmeistari og tvöfaldur Ólympíumeistari tapaði en hann hafði verið ósigraður í tíu ár og unnið 154 viðureignir í röð. Hér má sjá öll úrslitin og hér er glíman hans Sveinbjörns. Næsta mót hjá Sveinbirni verður 22. febrúar í Þýskalandi á Dusseldorf Grand Slam.