Góumót JR var haldið sl. laugardag (27. feb.) og voru keppendur fjörtíu og þrír frá eftirfarandi fimm klúbbum, JR, Selfossi, Grindavík, ÍR og Tindastól. Mótið átti að hefjast kl. 13 en því miður varð umþað bil hálftíma töf á því að það hæfist en það var vegna bilunnar í tölvubúnaði en þegar það loks hófst þá gekk það snuðrulaust fyrir sig. Góumótið var fyrst haldið 2009 og var nú haldið í tólfta skiptið en það féll niður á síðasta ári. Skráðir keppendur voru sextíu og átta frá ofangreindum klúbbum en eins og búist er við þá verða alltaf einhver forföll en þau voru óvenju mikil að þessu sinni. Það er töluverð gróska í barna og unglingastarfi flestra klúbba í dag og hefur þátttaka á Góumótinu í gegnum tíðina ávalt verið góð en hér er hægt að sjá þátttöku frá 2012 til dagsins í dag.
Á síðasta Góumóti (2019) voru Selfyssingar fjölmennastir en nú hafði JR vinninginn með nítján keppendur, þá kom Selfoss með ellefu, Grindavík með níu, ÍR með þrjá og einn keppandi kom alla leið Sauðárkróki úr Judodeild Tindastóls. Margir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu sig mjög vel. Þjálfarar höfðu í nógu að snúast við að undirbúa sína keppendur og hafa þá tilbúna þegar þeir voru kallaðir upp. Dómararnir sem eru ungir og óreyndir sem dómarar en eru hinsvegar á meðal bestu judomanna landsins í dag stóðu sig alveg frábærlega en það voru þeir Aðalsteinn Björnsson sem aðeins er 15 ára, Andri Ævarsson, Daníel Árnason, Ingólfur Rögnvaldsson og Kjartan Hreiðarsson sem dæmdu allt mótið en þeir nutu leiðbeiningar frá reyndum dómara Mariju Skulason en hún hélt utan um dómgæsluna og Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sáu um góða og örugga mótsstjórn.
Góumótið er keppni fyrir yngstu iðkendanna (8-10 ára) þar sem allir keppendur fá verðlaun fyrir þátttökuna en í ár eins og 2019 þá var einnig keppt í aldursflokkum U13 og U15. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á. Mótið var frábær skemmtun og börnin sýndu ótrúlega flott judo. Hér eru úrslitin og hér neðar nokkrar myndir frá mótinu og á næstunni mun verða birt myndbandsklippa frá því á JR facebook.