Góumót JR var haldið um helgina og var það næst fjölmennasta Góumótið sem haldið hefur verið síðan 2013. Keppendur núna voru skráðir rúmlega sjötíu en eins og vanalega verða alltaf einhver forföll og urðu keppendur því sextíu og einn en flestir voru þeir 2013 eða sextíu og sex. Það er mjög mikil gróska í barna og unglingastarfi flestra klúbba eins og þessi þátttaka staðfestir en hér má sjá yfirlit yfir þátttökuna frá 2012. Selfyssingar voru fjölmennastir með 24 keppendur og hafði Einar Otto í nógu að snúast við það að sinna sínum þátttakendum og gerði það vel. Það sama má segja um aðra þjálfara en þeir stóðu sig allir frábærlega við það undirbúa sína keppendur og hafa tilbúna fyrir keppni. Ekki má gleyma dómurunum en ungir og óreyndir dómarar þeir Andri Ævarsson, Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson ásamt Ástu Lovísu Arnórsdóttur sem er ekki alveg óvön dæmdu allt mótið og gerðu það mjög vel en þau nutu leiðbeiningar frá reyndum dómurum þeim Birni Sigurðarsyni og Mariju Skulason sem heldu utan um dómgæsluna og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir það sem og Ara Sigfússyni fyrir góða og örugga mótsstjórn. Eins og áður sagði voru keppendur sextíu og einn og komu frá eftirfarandi judoklúbbum, Ármann, Grindavík, ÍR, JR, Selfossi og Þrótti. Góumótið er keppni yngstu iðkendanna (8-10 ára) en í ár var einnig keppt í U13 og U15 og allir keppendur fá verðlaun fyrir þátttökuna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum. Mótið í dag var frábær skemmtun og börnin sýndu ótrúlega flott judo miðað við unga aldur. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.