JR-ingar unnu til sjö verðlauna og urðu í 5. og 7. sæti á sterku alþjóðlegu móti í Danmörku, Copenhagen Open 2025 sem haldið var dagana 18 og 19 apríl þar sem keppendur voru rúmlega 800 frá fimmtán þjóðum.
Í aldursflokkum U10 vann Ea Kjærnested bronsverðlaun í WU10-22 , í aldursflokki U12 vann Röskva Rúnarsdóttir til silfurverðlauna í WU12+44 og bronsverðlaun unnu þau Jonathan Noah í MU12+46 og María Guðmundsdóttir í WU12-44 . Freyja Friðgeirsdóttir keppti um bronsið í WU12-40 en hafnaði í 5. sæti eftir tvo vinninga og tvö töp. Í aldursflokki U15 varð Jóhann Jónsson í öðru sæti í MU15+66 og í aldursflokknum U18 unnu þeir Gunnar Tryggvason MU18-81 og Viktor Kristmundsson MU18+81 til bronsverðlauna og að lokum í aldursflokknum 18+ varð Mikael Ísaksson í 7. sæti í MO18-81 þrátt fyrir að hafa unnið fjórar viðureignir. Því fjölmennari sem flokkurinn er því fleiri glímur þarf að vinna að sjálfsögðu en stundum er leiðin lengri í bronsverðlaunin heldur en gullið eins og í tilfelli Mikaels en hann hefði þurft tvo vinninga til viðbótar en sá sem vann gullið vann fimm glímur í röð. Vegna meiðsla urðu þeir Daníel Hákonarson og Kolmar Jónsson að draga sig úr keppni í 18+.
Hingað til höfum við einungis keppt í U15, U18 og 18+ en nú kepptum við einnig í U10 og U12. Það er óhætt að segja að allir keppendurnir okkar stóðu undir væntingum, glímdu afar vel þó svo að stundum væri það erfitt en í aldursflokknum U15 gat verið allt að tveggja ára aldursmunur sem er mikið fyrir þennan aldur en þar eru keppendur 12, 13 og 14 ára gamlir sem okkur finnst fullmikið aldursbil en svona er þetta í Danmörku. Þátttaka þeirra var lærdómsríkt fyrir þau og þjálfara sem fengu samanburð við aðrar þjóðir.
Óhætt er að segja að árangurinn hafi verið góður á heildina litið, tuttugu og tveir vinningar, tvö silfur, fimm brons og ekki langt frá því að taka tvö brons til viðbótar. JR hefur allnokkrum sinnum tekið þátt í Copenhagen Open sem alltaf er haldið um páskahelgina og er þetta líkast til besti árangur sem félagið hefur náð fram að þessu.
Að loknu móti var að Tívolíð að sjálfsögðu heimsótt þar sem allir skemmtu sér vel fram eftir sunnudeginum áður en flogið var heim um kvöldið. JR vil að lokum þakka þjálfurum, fararstjórum og ekki síst foreldrum sem voru með í þessari ferð fyrir alla hjálpina og samstarfið og óska ykkur og keppendum til hamingju með árangurinn.
Hér er keppendalistinn, úrslitin og video frá öllu mótinu og videoklippa væntanleg













































































