Gull, silfur og brons á NM 2025

Það bættust við góðmálmar á NM í dag þegar Arnar Arnarsson og Zaza Simonishvili luku keppni en Arnar varð annar í -100 kg flokki í U21 og Zaza sigraði alla sína fimm andstæðinga á ippon í veterans flokki -73 kg. Einnig stóð til að Þormóður Jónsson myndi keppa í veterans flokki +100 kg en þar vantaði mótherja svo ekkert varð af því. Auk fyrgreindra kepptu einnig í dag þeir Jónas Guðmundsson -73 kg og Gunnar Tryggvason og Mikael Ísaksson í -81 kg flokki og komst Mikael lengst þeirra en hann endaði í 7. sæti. Einnig stóð til að þau Viktor Kristmundsson, Eyja Viborg, Helena Bjarnadóttir og Weronika Komendera myndu keppa en vegna lítilsháttar meiðsla og að stutt er í Smáþjóðaleikana þar sem stúlkurnar verða á meðal þátttakenda var ákveðið að láta keppnina í gær duga hjá þeim en Viktor keppti ekki vegna meiðsla í öxl frá því gær. Það voru formenn judosambanda Norðurlanda sem veittu verðlaunin og var Gísli Egilson formaður JSÍ einn þeirra eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það er óhætt að segja að árangur okkar á Norðurlandameistaramótinu hafi verið góður, þrjú gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Til hamingju með árangurinn. Hér má finna úrslit mótsins.

Gull og brons á NM í dag

Í dag hófst Norðurandamótið 2025 með keppni í U18 og senioraflokkum og komu fern verðlaun í hús hjá okkur, tvö gull og tvö brons. Eyja Viborg reið á vaðið og sigraði -52 kg flokkinn í U18 og vann þar alla sína andstæðinga örugglega. Ekki löngu seinna lék Viktor Kristmundsson sama leikinn og sigraði einnig örugglega í +90 kg flokki í U18. Helena Bjarnadóttir sem keppti í -70 kg í U18 glímdi líklegast lengst allra en ein viðureignin sem venjulega er 4 mínútur fór í gullskor og stóð samtals í 21 mínútu. Maður þarf að vera í toppformi til að standast það álag sem og Helena gerði. Hún komst í undanúrslit en tapaði þar en bronsverðlaunin voru hennar. Kjartan Hreiðarsson keppti síðastur okkar manna í dag en hann keppti í +100 kg flokki karla. Þar sigraði hann þrjá andstæðinga sína örugglega en tapaði tveimur viðureignum en það var gegn sigurvegaranum og silfurverðlaunahafanum svo Kjartan stóð uppi með bronsverðlaunin eins og Helena. Fleiri kepptu í dag en stóðu sig auðvitað misvel og komust nokkrir í 6-9 sæti. Þetta er ungt lið meðalaldurinn um 17 ár sá yngsti 15 ára og sá elsti 22 ára og fer þessi þátttaka öll í reynslubankann þeirra sem á eftir að nýtast þeim seinna meir. Á morgun verður keppt í U21 árs aldursflokki og veterans og erum við með fjölda þátttakenda þar. Við óskum Íslenska liðinu til hamingju með árangurinn í dag sem var frábær.

Norðurlandameistaramótið 2025

Norðurlandameistaramótið 2025 verður haldið í Kaupmannahöfn dagana 10-11 maí og eru skráðir keppendur tæplega sexhundruð frá öllum Norðurlöndunum auk keppenda frá Álandseyjum og Eistlandi. Á laugardaginn verður keppt í senioraflokki og aldursflokki U18 og á sunnudaginn í U21 árs og veterans sem eru keppendur 30 ára og eldri. Báða dagana hefst keppnin á okkar tíma kl. 7:30 (U18 og U21) og seniorar og veterans kl. 11:30. Það eru þrettán keppendur frá Íslandi og með þeim fara Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari og Þormóður Jónsson þjálfari og fararstjóri og Bjarni Skúlason og Marija Dragic Skúlason munu bætast í hópinn í Kaupmannahöfn. Auk þeirra verða dómararnir Björn Sigurðarson og Gunnar Jóhannesson með í för og Gísli Egilson formaður JSÍ sem sækir fund judosambanda Norðurlanda. Flestir keppendurnir okkar munu keppa í tveimur aldursflokkum þannig að keppendur í U18 keppa líka í U21 og keppendur í U21 keppa líka í senioraflokkum. Keppni í aldursflokki 30 ára og eldri (Veterans) er síðast á dagskrá og ætla þeir Þormóður og Zaza að taka þátt í þeirrri keppni ef einhverjir mótherjar verða þar í þeirrra aldurs og þyngdarflokki og verður ekki síður skemmtilegt að fylgjast með þeim.

Í aldursflokki U18 keppa þau Eyja Viborg -52, Weronika Komendera -57, Helena Bjarnadóttir -63, Orri Helgason -66, Jónas Guðmundsson -73, Dagur Ingibergsson og Gunnar Tryggvason -81 og Viktor Kristmundsson í +90 kg.

Í aldursflokki U21 árs keppa allir ofangreindir auk Mikaels Ísakssonar -81 og Arnars Arnarssonar -100 kg.

Í senioraflokki keppa þeir Böðvar Arnarsson og Mikael Ísaksson -81, Skarphéðinn Hjaltason -90, Arnar Arnarsson -100 og Kjartan Hreiðarsson +100 kg.

Í veterans flokki keppa Zaza Simonishvili -73 (M1+2) og Þormóður Jónsson +100 (M3+4)

Hér er hægt er að sjá úrslitin og fylgjast með gangi mótsins og hér er streymi frá mótinu.

Vel heppnuð JSÍ æfingahelgi

Æfingabúðir JSÍ voru haldnar dagana 2-4 maí og voru vel sóttar en þátttakendur voru rúmlega þrjátíu úr sjö klúbbum. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari stjórnaði æfingunum sem voru blanda af randori og tækniæfingum. Æfingabúðirnar voru þáttur í lokaundirbúningi keppenda fyrir Norðurlandameistaramótið sem haldið verður næstu helgi í Danmörku og Smáþjóðaleikana í Andorra síðustu vikuna í maí.

Æfingabúðir JSÍ 2-4 maí

Það verður einungis æfing hjá 11-14 ára í JR á morgun föstudag en æfing hjá meistaraflokki fellur niður þar sem æfingahelgi JSÍ hefst á sama tíma og JR ingar munu taka þátt í henni.

Dagana 2-4 maí fara fram æfingabúðir JSÍ. Æfingabúðirnar munu saman standa af randori og tækniæfingum þar sem  undirbúningur fyrir NM og Smáþjóðaleika verður hafður að leiðarljósi. Æfingabúðirnar eru ætlaðar fyrir iðkendur í U18 U21 og seniora flokkum. Eldri judomenn eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir.

Æfingabúðirnar fara fram í: Íþróttamiðstöð ÍR, Skógarseli 12a 109 Reykjavík

Sjö gullverðlaun á Íslandsmóti seniora 2025

Íslandsmeistaramótið var haldið í gær sunnudaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur voru fjörtíu og þrír frá sex  judofélögum. Keppt var í sjö flokkum karla og fjórum flokkum kvenna og unnu JR-ingar til sjö gullverðlauna, sjö silfur og fimm bronsverðlauna. Af ellefu íslandsmeisturum voru fimm þeirra að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í seniora flokki en aðrir sinn annan, þriðja og fjórða titil og Egill Blöndal sinn níunda en núna í fyrsta sinn í +100 kg flokki eftir hörku viðureign gegn Kjartani Hreiðarssyni og hörkutólið Janusz Kommendera sigraði -66 kg flokkinn í fjórða sinn eftir harða baráttu gegn unglingnum Orra Helgasyni. Eyja Viborg (-57), Heiðrún Pálsdóttir (+78), Damian Troianschi (-90), Gylfi Edduson (-73) og Mikael Ísaksson (-81) urðu Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í seniora flokki og óskum við þeim til hamingju með þann áfanga. Weronioka Kommendera varði titlana frá því 2024 en hún vann bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn núna eins og í fyrra. Aðalsteinn Björnsson sem keppti til úrslita í fyrra í Opnum flokki en varð að játa sig sigraðan þá gegn félaga sínum Skarphéðni Hjaltasyni sem varð Íslandsmeistari núna í -100 kg flokki, sigraði núna Opna flokkinn eftir æsispennandi viðureign gegn Damian Troianschi en hann hafði fyrr um daginn tapað fyrir honum í úrslitum í -90 kg flokki. Viðureignin milli Aðalsteins og Damian sem er topp judomaður frá Portugal (Portgalskur meistari 2023) og búið hefur á Íslandi undanfarin ár var í hæsta gæðfokki og mátti vart á milli sjá hvor myndi standa uppi sem sigurvegari en Aðalsteinn sem er á gríðarlegri siglingu gaf sig hvergi þrátt fyrir að hafa tapað fyrr um daginn gegn honum og náði glæsilegu ippon kasti undir lok glímutímas og sigraði í flokkinn og er sá yngsti (18 ára) sem það hefur gert fram að þessu. Fleiri spennandi, skemmtilegar og jafnar viðureignir litu dagsins ljós og aðrar sem voru stuttar og snarpar sem enduðu á glæsilegum köstum og var mótið heilt yfir hin besta skemmtun og vel framkvæmt og passlega langt en það hófst kl. 10 og lauk um kl. 13. Að lokum þá óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin, stutt videoklippa og streymi frá mótinu völlur 1. og völlur 2.

Úrslit páskamóts JR 2025

Tuttugusta páskamót JR og Góu fór fram laugardaginn 26. apríl en að venju er það haldið fyrstu helgina eftir páska. Mótið er vinsælasta og fjölmennasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og er opið öllum klúbbum. Flestir þessara ungu iðkenda eru að stíga sín fyrstu skref í keppni og fá allir þátttakendur verðlaun að móti loknu. Aldursflokknum 7-10 ára var tvískipt og kepptu 7-8 ára börn frá 12-13:30 og 9-10 ára börn frá 13:30-15 en þá hófst keppni í aldursflokkum 11-14 ára sem lauk um kl. 16:15. Eins og undanfarin ár þá var fyrr um morguninn á æfingu 5-6 ára barna hjá JR haldið lítið páskamót fyrir þau og þeim kennt hvernig á að bera sig að í keppni, skilja dómarann og fleira og stóðu þau sig mjög vel.

Þátttakendur á mótinu í ár voru níutíu og fjórir frá eftirfarandi klúbbum, Ármanni, Selfoss, JDS, KA, ÍR og Judofélagi Reykjavíkur. Með keppendunum komu þjálfarar og auk þeirra fjöldinn allur af foreldrum og eða aðstandendum. Keppnin mjög skemmtileg, fullt af flottum viðureignum og glæsilegum köstum.

Dómarar mótsins og aðstoðarmenn þjálfara voru eins og undanfarin ár nokkrir af okkar bestu judomönnum sem stóðu sig frábærlega að venju en það voru þau Daníel Hákonarson, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson og Weronika Komendera sem dæmdu og Guðmundur Jónasson þjálfari og Gunnar Ingi Tryggvason héldu utan JR keppendur og mótsstjórn var á höndum þeirra Jóhanns Mássonar og Bjarna Friðrikssonar. Hér eru úrslitin, myndir af þátttakendum og frá mótinu og stutt video klippa.

Evrópumeistaramótið 2025

Í vikunni fóru þeir Skarphéðinn Hjaltason og Zaza Simonishvili til Podgorica í Montenegro en Skarphéðinn mun keppa þar á Evrópumeistaramótinu sem hófst 23. apríl og lýkur með liðakeppni 27. apríl. Evrópumeistaramótið er líkast til sterkasta mótið sem haldið er í heiminum ár hvert því judohefðin er mikil í Evrópu og fáir veikir hlekkir. Þátttakendur eru 414 frá 47 þjóðum, 229 karlar og 185 konur. Á morgun föstudaginn 25. apríl keppir Skarphéðinn en hann keppir í -90 kg flokki og mætir þar þrátíu og eins árs gömlum Tékka, David Klammert sem er í 29. sæti heimslistans. Klammert er okkur Íslendingum vel kunnugur en hann vann gullverðlaunin í -90 kg flokki á RIG árið 2015. Keppnin hefst kl. 8:30 á íslenskum tíma og á Skarphéðinn 20 viðureign á velli 2. sem gæti verið um kl. 9:45. Skarphéðinn er væntanlegur aftur heim á laugardaginn og mun taka þátt í Íslandsmeistaramótinu á sunnudaginn. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Gleðilegt sumar

Á morgun sumardaginn fyrsta falla allar æfingar niður nema hjá Gólfglímu 30+ og meistaraflokki vegna undirbúnings þeirra fyrir Íslandsmeistaramót karla og kvenna sem haldið verður næsta sunnudag í Laugardalshöllinni og hefst kl. 10. Æfingar á föstudaginn og laugardaginn verða samkvæmt stundaskrá. Gleðilegt sumar.