Vormót JSÍ – U21 árs og Seniorar frestað

Vegna mikillar þátttöku verður ekki hægt að halda mótið á þeim tíma sem gert var ráð fyrir og hefur JSÍ ákveðið að skipta mótinu upp þannig að keppt verður í U13, U15 og U18 á laugardaginn í KA heimilinu á Akureyri en keppni í U21 og senioraflokkum hefur verið frestað og nýr dagur fyrir það ákveðin síðar.

Vormót JSÍ á Akureyri

Vormót JSÍ 2025 í öllum aldursflokkum, U13/U15/U18/U21 og flokki seniora, verður haldið á Akureyri 22. mars í KA heimilinu. Mótið hefst kl. 10 og lýkur væntanlega um kl. 16. Vigtun verður í KA heimilinu föstudagskvöldið 21. mars frá kl. 19-21:00 og einnig að morgni mótsdags frá 9-9:30. Farið verður með rútu frá JR föstudaginn 21. mars um kl. 14 og komið til baka daginn eftir um kl. 21. Kostnaður, rúta og gisting (hótel/uppábúin rúm með morgunmat) um 15.000 kr. sem JR leggur út fyrir og rukkar svo þátttakendur að loknu móti en þátttakendur þurfa þó að hafa með sér pening fyrir mat og drykkjum sem hver og einn ákveður sjálfur. Með hópnum fara þrír þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er frá mótinu 2024.

Taka þátt í OTC æfingabúðunum í Nymburk

Þeir Aðalsteinn Björnsson og Skarphéðinn Hjaltason héldu til Tékklands í gær ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og munu þar taka þátt í Nymburk OTC æfingabúðunum sem haldnar er þar og standa yfir frá 10. til 17 mars. Æfingabúðir þessar eru haldnar árlega og eru liður í röð æfingabúða í Evrópu sem nefnast Olympic Training Centre (OTC) og eru haldnar af Evrópska Judosambandinu (EJU) í samvinnu viðkomandi landssamband. Þátttakendur koma allsstaðar að úr heiminum og skipta hundruðum. Okkar menn verða í fimm daga og eru væntanlegir aftur heim 14. mars.

Afmælismót JSÍ 2025 – U18/U21 – Úrslit

Afmælismót JSÍ 2025 í aldursflokkum U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 1. mars. Mótið átti upphaflega að haldast 1. febrúar og þá einnig ásamt keppni í U13 og U15 en var frestað vegna veðurs. Keppni U13/U15 fór fram 8. febrúar en U18/21 var hinsvegar frestað lengur vegna Matsumae Cup en fjölmennur hópur frá Íslandi var á leið þangað. Það voru um fjörtíu keppendur skráðir til leiks en vegna veikinda og meiðsla var töluvert um afskráningar og urðu keppendur að lokum tuttugu og átta frá sex klúbbum. Samanlagður keppendafjöldi U13/15 og U18/21 í ár er sjötíu en voru fimmtíu og tveir 2024 sem er mjög jákvæð þróun. Mótið gekk vel fyrir sig að mestu, fullt af flottum viðureignum sem enduðu oft á glæsilegum ippon köstum sem sjá má í meðfylgjandi videoklippu. Mótsstjórn og tímavarsla var í höndum Jóhanns Mássonar, Ara Sigfússonar og Kjartans Magnússonar og um dómgæslu sáu þeir Sævar Sigursteinsson, Logi Haraldsson og Ármann Sveinsson. Hér eru úrslitin  myndir frá mótinu og verðlaunahöfum og videoklippa.

Afmælismót JSÍ 2025 – U18 og U21

Afmælismót JSÍ 2025 í aldursflokkum U18 (15-17 ára) og U21 (15-20 ára) verður haldið laugardaginn 1. mars hjá Judofélagi Reykjavíkur og hefst það kl 13:00. Vigtun fer fram í JR föstudaginn 28. feb. frá 18-19 en einnig er hægt að mæta í vigtun á keppnisdegi frá kl. 11:30 – 12:00. Nánari upplýsingar hér.

Úrslit 16. Góumóts JR 2025

Góumót JR 2025 sem er opið öllum klúbbum var haldið laugardaginn 22. febrúar sl. Mótið var fyrst haldið árið 2009 svo þetta var það sextánda en það féll niður 2019 vegna covid. Góumótið er æfingamót þar sem allir þátttakendur fá verðlaun en það er ætlað yngstu iðkendunum frá 5 ára aldri til 10 ára sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni.  Zaza, Guðmundur Björn og Gunnar Tryggvason heldu utan um JR keppendurna og fengum nokkra reynda keppendur úr aldurshópi 11-14 ára sér til aðstoðar og stóðu þessir aðstoðarþjálfarar, þau Freyja, Gústav, María, Snjólaug og Styrmir, sig alveg frábærlega. Um dómgæsluna sáu nokkrir af okkar bestu keppendum JR og leystu þau verkið vel af hendi en það voru þau Weronika Komendera, Kolmar Jónsson, Mikael Ísaksson og Viktor Kristmundsson og mótsstjórn var á höndum Ara Sigfússonar og Þorgríms Hallsteinssonar. Mótið var frábær skemmtun og börnin sýndu oft á tíðum ótrúlega flott judo og glæsileg köst. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum og frá keppninni, stutt videoklippa og úrslitin.

 “Keppni” barna 5-6 ára er innanfélagskeppni og var haldin á æfingatíma þeirra um morguninn. 

Keppni barna 7-10 ára var frá kl. 14-16 og voru þátttakendur 43 frá þremur klúbbum að þessu sinni, Judodeild UMFS, Judodeild Suðurnesja og Judofélagi Reykjavíkur. Flestir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þeir sig mjög vel sem og aðrir keppendur og höfðu þjálfarar þeirra í nógu að snúast við að undirbúa þá og hafa tilbúna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á og einnig þarf stundum að færa keppendur á milli aldursflokka til að þyngd keppenda sé sem jöfnust.

Silfur og brons á Matsumae Cup 2025

Þeir Viktor Kristmundsson og Aðalsteinn Björnsson unnu til verðlauna á alþjóðlegu móti í Danmörku, Matsumae Cup sem haldið var dagana 15. og 16. febrúar. Mótið vel sótt en rúmlega 600 keppendur frá tæplega 20 þjóðum sóttu mótið. Viktor vann silfur í U18 aldursflokki +90 kg og Aðalsteinn brons í U21 árs aldursflokki -90 kg og voru það einu verðlaun Íslendinga að þessu sinni. Það voru nítján þátttakendur frá Íslandi frá fjórum klúbbum en auk keppenda frá JR voru keppendur frá Ármanni, JS og UMFS. Keppendur okkar stóðu sig býsna vel og unnu allir viðureignir og sumir fleiri en eina og fleiri en tvær. Auk Aðalsteins kepptu um bronsverðlaun þau Helena Bjarnadóttir í U18-63 og Jónas Guðmundsson U18 -73 en töpuðu sinni viðureign og enduðu því í fimmta sæti. Arnar Arnarson (JS) U21-100 kg var hársbreidd frá bronsverðlaunum en hann var með jafnmarga vinninga og jafn mörg tæknistig og sá sem hreppti bronsið en það var innbyrðisviðureign þeirra sem réði úrslitum og endaði Arnar því í fjórða sæti. Elías Funi Þormóðsson og Gunnar Ingi Tryggvason urðu í sjöunda sæti í U18 -73 kg sem og þær Eyja Viborg (Ármanni) U18 -57, Weronika Komendera U18 -63 og Helena Bjarnadóttir U21 -63 kg. Ísland tók þátt í liðakeppninni sem haldin var seinni keppnisdaginn og voru sex manns í hverju liði, þrjár konur og þrír karlar og var lið Íslands skipað keppendum úr öllum fjórum klúbbunum. Ísland var í riðli með Danmörku og Japan og í hinum riðlinum var lið Póllands, Hollands og Írlands. Lið Japans sigraði að lokum, Danmörk varð í öðru sæti og Holland í því þriðja. Að loknu móti tóku við tveggja daga æfingabúðir í Vejle ásamt flestum keppendum mótsins. Æft var í tvo tíma tvisvar á dag og voru þessar æfingabúðir virkilega góðar. Hér eru úrslitin og hér er streymi frá útsendingunni báða dagana og hér má finna streymi frá eldri mótum og að lokum stutt videoklippa frá keppninni og æfingabúðunum.

Matsumae Cup 2025

Keppa á Matsumae Cup um helgina. Matsumae Cup er haldið í Vejle í Danmörku 15. og 16 feb. og eru 19 keppendur frá Íslandi á meðal þátttakenda. Hér eru keppendurnir ásamt þjálfurum og aðstoðarmönnum nýlentir á Kastrup flugvelli. Á myndina hér ofar vantar fjóra sem bættust við hópinn síðar.

Hér er hægt að fylgjast með keppninni og sjá úrslitin

Hér er hægt að horfa á beina útsendingu.

Myndir og frekari upplýsingar um mótið koma seinna.

Góumót JR 2025

Góumót JR 2025 sem er opið öllum klúbbum verður haldið laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Mótið sem fyrst var haldið 2009 hefur jafnan verið fjölmennt en það er hugsað sem æfingamót fyrir aldursflokka U8, U9, U10 og U11 (7, 8,9 og 10 ára) og fá allir þátttakendur verðlaun. Skráning er til miðnættis 17. febrúar í skráningarkerfi JSÍ og sjá forsvarsmenn klúbba um allar skráningar og greiðslu þátttökugjalda. Vigtun verður frá kl. 12:30 til 13:00 og keppnin hefst svo eins fljótt og hægt er að lokinni vigtun og ekki seinna en kl. 14:00 og ætti að ljúka um kl. 16:00. Nánari tímasetning að lokinni skráningu. Muna að mæta með börnin á tilgreindum tíma í vigtunina svo enginn missi af þátttöku og mótið geti hafist samkvæmt áætlun. Hér er umfjöllun og myndir frá Góumótinu 2024.

Afmælismót JSÍ 2025 – U13/U15 – Úrslit

Afmælismót JSÍ 2025 í aldursflokkum U13 og U15 var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 8. febrúar. Upphaflega átti að keppa 1. febrúar og þá einnig í U18 og U21 árs aldursflokkum en keppni var frestað vegna veðurs og keppni í U18 og U21 var frestað lengur þar sem of stutt er í Matsumae Cup og fjölmargir frá Íslandi verða þar á meðal þátttakenda. Keppendur í U13/U15 voru fjörtíu og tveir frá átta klúbbum. JR var með tíu keppendur og unnu þeir níu gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Mótið var skemmtilegt og passlega langt en það hófst kl. 13 og lauk kl 15. Fullt var af flottum viðureignum sem enduðu margar hverjar á glæsilegum ippon köstum. Gaman var að sjá hve margir nýjir keppendur voru á meðal þátttakenda og hve vel þeir stóðu sig. Mótsstjórn og tímavarsla var í höndum Ara Sigfússonar og Jóhanns Mássonar og um dómgæslu sáu þeir Björn Sigurðarson, Gunnar Jóhannesson, Breki Bernharðsson, Ármann Þór Sveinsson, Kolmar Jónsson og Jónas Björn Guðmundsson. Hér eru úrslitin, myndir frá mótinu og verðlaunahöfum hér neðar og videoklippa.