Keppa á Conegliano European Open

Conegliano European Open verður haldið á Ítalíu helgina 8 til 9 nóvember og verða þeir Aðalsteinn Björnsson og Skarphéðinn Hjaltason á meðal þátttakenda og með þeim í för er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Báðir keppa strákarnir í – 90 kg flokki á sunnudaginnn og hefst keppnin kl. 8 að morgni á okkar tíma. Skarphéðinn á sjöundu glímu á tatami 2 og Alli á fimmtándu á sama velli. Þátttakendur eru 310 frá 37 þjóðum, 205 karlar og 105 konur. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Haustmót JSÍ 2025 shl. -úrslit

Haustmót JSÍ 2025 seinni hluti var haldið laugardaginn 1. nóvember í Íþróttahúsi Akurskóla í Reykjanesbæ og nú var keppt í aldursflokkum U18 og senioraflokkum. Mótið sem hófst kl. 11:00 gekk vel fyrir sig, dómgæsla og mótsstjórn hin besta og lauk því um kl. 15. Keppendur voru fjörtíu og þrír frá fimm klúbbum, Grindavík, JG, JRB, JS og JR. Keppendur JR-inga voru tuttugu og sex og stóðu þeir sig afar vel en þeir unnu öll tólf gullverðlaunin auk fimm silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna. Óskum við keppendum öllum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum.

Haustmót JSÍ 2025 -seinni hluti

Haustmót JSÍ 2025 seinni hluti (fyrri hluti var haldinn 4. okt. á Selfossi) verður haldið laugardaginn 1. nóvember í Íþróttahúsi Akurskóla að Tjarnarbraut 5 í Reykjanesbæ. Keppt verður í aldursflokkum U18 og senioraflokkum. Mótið hefst kl. 11 með keppni í U18 og strax að þeirri keppni lokinni hefst keppni í senioraflokkum og áætlað að mótinu ljúki um kl. 14:00. Vigtun fer fram í Akurskóla föstudaginn 31. okt. frá 18-18:30 og á sama stað fyrir þá sem það vilja á keppnisdegi frá kl. 9:30-10:00.

Keppa í Riga á European Cup

Helgina 18 og 19 okt. hefst í Lettlandi Riga Millennium Team Cadet European Cup og á meðal keppenda eru sex keppendur frá Íslandi ásamt Zaza Simonishvili þjálfara en það eru þau Eyja Viborg -52, Weronika Komendera -57, Helena Bjarnadóttir -70, Orri Helgason -66, Jónas Björnsson -73 og Viktor Kristmundsson +90. Á morgun keppa þau Eyja og Orri og á sunnudaginn keppa hin. Keppnin hefst klukkan 6 að morgni á okkar tíma. Orri á fjórðu glímu á velli 1 og Eyja 23 glímu á velli 3. Þátttakendur eru 419 frá 24 þjóðum, 303 karlar og 116 konur. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Úrslit Afmælismóts JR yngri 2025

Judofélag Reykjavíkur (JR) sem verður 60 ára á árinu en það var stofnað var 16. okt. 1965 hélt sitt árlega Afmælismót 11. okt. síðastliðinn í yngri aldursflokkum. Mótið hófst kl. 13 og áætlað var að því myndi ljúka kl. 16 en vegna aukinnar þátttöku lauk því ekki fyrr en kl. 17. Á þessu móti er keppt í aldursflokkum frá 7 til 14 ára og engin gráðuskilyrði og einnig var “keppt” í aldursflokki 5-6 ára á æfingu barna hjá JR fyrr um morguninn. Eins og áður sagði var þátttaka mikil eða rétt tæplega eitt hundrað þátttakendur með börnunum í 5-6 ára aldursflokki og hafði hún því aukist um 50% frá 2024 en þá voru þeir sextíu og fimm. Keppendur komu frá átta eftirfarandi klúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild Suðurnesjabæjar, Judodeild Tindastóls Judofélagi Garðabæjar, Judofélagi Reykjanesbæjar auk JR en þátttökufjölda má sjá hér. Keppnin var bæði skemmtileg og oft á tíðum spennandi og fullt af flottum viðureignum og gaman að fylgjast með tilþrifum hjá þessum ungu keppendum. Starfsmenn mótsins voru þeir Ari Sigfússon, Jóhann Másson, Daníel Hákonarson og Bjarni Friðriksson sem sáu um vigtun og mótsstjórn, dómarar voru þau Weronika Komendera, Jónas Guðmundsson, Viktor Kristmundsson, Kolmar Jónsson og Björn Sigurðarson IJF dómari sem var þeim til halds og trausts og kunnum við honum okkar bestu þakkir. Þeir Zaza Simonishvili, Guðmundur Jónasson, Höskuldur Einarsson, Daníela Daníelsdóttir og Sólrún Steinarsdóttir héldu utan um keppendur JR-inga. Þar sem við vorum komin í tímaþröng voru verðlaun í aldursflokkum 7-10 ára ekki afhent fyrir hvern þyngdarflokk fyrir sig heldur voru þau afhent til alls keppendahópsin í einu lagi. Hér neðar eru myndir frá mótinu í öllum aldursflokum, hér eru úrslitin og video klippa.

Úrslit Haustmóts JSÍ 2025-fyrri hluti

Fyrri hluti Haustmóts JSÍ 2025 var haldið á Selfossi í umsjón Judodeildar UMFS sem fórst verkið vel úr hendi. Mótið sem hófst kl. 13:00 var afar skemmtilegt og gekk vel fyrir sig. Dómgæsla og mótsstjórn var hin besta og fullt af frábærum og skemmtilegum viðureignum og lauk mótinu um kl. 15:30. Keppendur voru fimmtíu og sjö frá tíu klúbbum og var keppt í aldursflokkum U13, U15 og U21 árs. Keppendur JR voru sautján og stóðu þeir sig býsna vel en þeir unnu alls til sautján verðlauna, níu gullverðlaun, sjö silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Óskum við keppendum öllum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin, myndir frá keppninni og verðlaunahöfum og video klippa.

Haustmót JSÍ 4. okt. – Breytt dagskrá

Dagskrá Haustmóts JSí sem haldið verður laugardaginn 4. október í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi hefur verið breytt og hefst mótið kl. 12 og lýkur um kl. 15. Dagskráin er eins og hér segir. U13 og U15 keppni hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13:30 og keppni U21 árs hefst svo kl. 14 og lýkur um kl. 15. Vigtun frá 11 til 11:30 og geta allir aldursflokkar vigtað þá en þeir sem keppa í U21 geta líka vigtað frá kl. 13-13:30.

Afmælismót JR 2025 í yngri flokkum

Afmælismót JR 2025 í yngri aldursflokkum verður haldið laugardaginn 11. október í JR.
Mótið er opið öllum klúbbum, engin lágmarksgráða og keppt í eftirfarandi aldursflokkum.
Aldursflokkar: U8, U9, U10 og U11 (7, 8, 9 og 10 ára) fæðingarár, 2018, 2017, 2016, 2015.
Aldursflokkar: U13 (11-12 ára) f.ár 2014-2013 og U15 (13-14 ára) f.ár 2012-2011.

Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða keppendur vigtaðir frá kl. 12:00 til 12:30.
Mæta tímanlega í vigtun því eftir að henni lýkur kl. 12:30 eru þeir afskráðir sem mættu ekki.

Keppnin hefst svo kl. 13:00 og ætti að ljúka um kl. 16:00.
Börn 7-10 ára frá 13:00-14:30 og börn 11-14 ára frá 14:30-16:00
Tímasetningar gætu breytst svo nánari tímasetning verður tilkynnt að lokinni skráningu.

Skráning til miðnættis 6. október í skráningarkerfi JSÍ.
Keppnisgjald 1.000 kr greiðist af félagi viðkomandi keppanda.

Athugið að það eru klúbbarnir sem sjá um skráningu keppenda, ekki foreldrar.

Haustmót JSÍ 2025 hjá U13, U15 og U21

Haustmót JSÍ 2025 í U13, U15 og U21 verður haldið laugardaginn 4. október í íþróttahúsi Vallaskóla Selfossi. Mótið hefst kl. 10 mótslok áætluð kl. 15. Vigtun á mótsstað föstudaginn 3. okt. frá 18-18:30 eða á keppnisdegi fyrir alla flokka frá 9-9:30. Ef vigtað er á keppnisdegi mega keppendur vera mest 1. kg yfir þyngdarmörkum í öllum aldursflokkum.
Skráningarfrestur hefur verið lengdur til miðnættis þriðjudaginn 30. september. Frétt af heimasíðu JSÍ.

Æfingahelgi JSÍ

Æfingabúðir JSÍ fóru fram dagana 12-14 september og voru haldnar hjá Judodeild Ármanns að þessu sinni. Þetta voru aðrar æfingabúðir JSÍ á árinu en þær fyrri voru haldnar hjá Judodeild ÍR dagana 2-4 maí s.l. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari stjórnaði æfingunum sem voru blanda af randori og tækniæfingum en æfingabúðirnar voru hugsaðar sem undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil og eins og í maí ætlaðar U18/U21 og seniora aldursflokkum. Þátttakendur voru tæplega fjörtíu frá þremur klúbbum Ármanni, JR og JS. Hér er videoklippa frá æfingunni.