Úrslit Haustmóts JSÍ 2025-fyrri hluti

Fyrri hluti Haustmóts JSÍ 2025 var haldið á Selfossi í umsjón Judodeildar UMFS sem fórst verkið vel úr hendi. Mótið sem hófst kl. 13:00 var afar skemmtilegt og gekk vel fyrir sig. Dómgæsla og mótsstjórn var hin besta og fullt af frábærum og skemmtilegum viðureignum og lauk mótinu um kl. 15:30. Keppendur voru fimmtíu og sjö frá tíu klúbbum og var keppt í aldursflokkum U13, U15 og U21 árs. Keppendur JR voru sautján og stóðu þeir sig býsna vel en þeir unnu alls til sautján verðlauna, níu gullverðlaun, sjö silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Óskum við keppendum öllum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin, myndir frá keppninni og verðlaunahöfum og video klippa.

Haustmót JSÍ 4. okt. – Breytt dagskrá

Dagskrá Haustmóts JSí sem haldið verður laugardaginn 4. október í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi hefur verið breytt og hefst mótið kl. 12 og lýkur um kl. 15. Dagskráin er eins og hér segir. U13 og U15 keppni hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13:30 og keppni U21 árs hefst svo kl. 14 og lýkur um kl. 15. Vigtun frá 11 til 11:30 og geta allir aldursflokkar vigtað þá en þeir sem keppa í U21 geta líka vigtað frá kl. 13-13:30.

Afmælismót JR 2025 í yngri flokkum

Afmælismót JR 2025 í yngri aldursflokkum verður haldið laugardaginn 11. október í JR.
Mótið er opið öllum klúbbum, engin lágmarksgráða og keppt í eftirfarandi aldursflokkum.
Aldursflokkar: U8, U9, U10 og U11 (7, 8, 9 og 10 ára) fæðingarár, 2018, 2017, 2016, 2015.
Aldursflokkar: U13 (11-12 ára) f.ár 2014-2013 og U15 (13-14 ára) f.ár 2012-2011.

Húsið opnar kl. 12:00 á laugardaginn og verða keppendur vigtaðir frá kl. 12:00 til 12:30.
Mæta tímanlega í vigtun því eftir að henni lýkur kl. 12:30 eru þeir afskráðir sem mættu ekki.

Keppnin hefst svo kl. 13:00 og ætti að ljúka um kl. 16:00.
Börn 7-10 ára frá 13:00-14:30 og börn 11-14 ára frá 14:30-16:00
Tímasetningar gætu breytst svo nánari tímasetning verður tilkynnt að lokinni skráningu.

Skráning til miðnættis 6. október í skráningarkerfi JSÍ.
Keppnisgjald 1.000 kr greiðist af félagi viðkomandi keppanda.

Athugið að það eru klúbbarnir sem sjá um skráningu keppenda, ekki foreldrar.

Haustmót JSÍ 2025 hjá U13, U15 og U21

Haustmót JSÍ 2025 í U13, U15 og U21 verður haldið laugardaginn 4. október í íþróttahúsi Vallaskóla Selfossi. Mótið hefst kl. 10 mótslok áætluð kl. 15. Vigtun á mótsstað föstudaginn 3. okt. frá 18-18:30 eða á keppnisdegi fyrir alla flokka frá 9-9:30. Ef vigtað er á keppnisdegi mega keppendur vera mest 1. kg yfir þyngdarmörkum í öllum aldursflokkum.
Skráningarfrestur hefur verið lengdur til miðnættis þriðjudaginn 30. september. Frétt af heimasíðu JSÍ.

Æfingahelgi JSÍ

Æfingabúðir JSÍ fóru fram dagana 12-14 september og voru haldnar hjá Judodeild Ármanns að þessu sinni. Þetta voru aðrar æfingabúðir JSÍ á árinu en þær fyrri voru haldnar hjá Judodeild ÍR dagana 2-4 maí s.l. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari stjórnaði æfingunum sem voru blanda af randori og tækniæfingum en æfingabúðirnar voru hugsaðar sem undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil og eins og í maí ætlaðar U18/U21 og seniora aldursflokkum. Þátttakendur voru tæplega fjörtíu frá þremur klúbbum Ármanni, JR og JS. Hér er videoklippa frá æfingunni.

Alli keppir á EM juniora 2025

Í vikunni fóru þeir Aðalsteinn Björnsson og Zaza Simonishvili til Bratislava í Slóvakíu til að taka þátt í Evrópumeistaramóti juniora en það er eitt sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert í þessum aldursflokki en judohefðin er mikil í Evrópu og fáir veikir hlekkir. Mótið stendur yfir frá 4-7 september og keppir Alli laugardaginn 6.sept. og hefst keppnin klukkan 8 að morgni á okkar tíma. Alli sem keppir í – 90 kg. flokki á níundu viðureign á velli þrjú og ætti hún að hefjast um kl. 8:30. Alli mætir afar sterkum keppanda frá Moldóvíu, Vadim Ghimbovschi en hann er í sjötta sæti heimslistans í þessum flokki. Þátttakendur eru 364 frá 43 þjóðum, 199 karlar og 165 konur. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Ný námskeið- skráning á judo.is

Byrjenda og framhaldsnámskeið 5-6 ára barna á laugardögum kl. 10
Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára barna á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17
Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára barna mánudaga, miðvikudaga, föstudaga kl. 17
Byrjendanámskeið 15 ára og eldri mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20
Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga
Meistaraflokkur og framhald 15 og eldri alla daga vikunnar sjá stundatöflu.
Kvennatími byrjendur og framhald 15 ára og eldri  mánudaga og miðvikudaga kl. 17

————————————————————————————————————————————————————- Byrjendur fá fría prufutíma, komdu og prófaðu í viku, það er frítt. Ekki þarf að skrá sig í prufutíma, bara mæta á staðinn í réttan tíma og láta vita af sér, en það væri samt gott að fá tilkynningu um það á netfangið jr@judo.is. Nóg er að mæta með síðar íþróttabuxur og bol. Judobúningar fást hjá JR. ————————————————————————————————————————————————————-
Ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er hér gengið frá skráningu og námskeiðsgjaldi. Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Jóhann með silfur í Tallinn

Strákarni kepptu í gær á International Children´s games og stóðu sig vel en Jóhann Jónsson keppti til úrslita í  -81 kg flokknum  eftir að hafa lagt að velli tvo á andstæðinga með glæsilegum ippon köstum, þann fyrri á drop seoi-nage og þann seinni á uranage. Hann mætti síðan Rokas Leikus frá Litháen í úrslitum og reyndi aftur uranage sem hafði gengið svo vel gegn síðasta andstæðini en Rokas áttaði sig í tíma og náði mótbragði og sigraði. Bjarnsteinn Hilmarsson sem keppti í -73 kg flokki tapaði í fyrstu umferð en fékk uppreisnarglímu sem hann vann en tapaði svo þeirri þriðju og endaði í sjöunda sæti. Seinni keppnisdaginn var keppt í liðakeppni en lágmarksfjöldi var fimm manns og vorum við því ekki með lið. Það voru sex lið skráð til keppni og gat hvert lið fengið einn lánsmann ef á þurfti að halda og var Bjarnsteinn beðinn um að keppa með einu þeirra sem hann og gerði en liðið náði því miður ekki að komast á verðlaunapall. Þetta var fínn árangur hjá strákunum og óskum við þeim til hamimgju með árangurinn. Því miður voru gæðin í beinu útsendingunni það slæm að ekki var hægt að nota hana en videoklippa af glímunum hans Jóhanns sem tekin var upp á staðnum er væntanleg.

Búið að draga og bein útsending á ICG 2025

Judokeppnin á International Children´s games hefst á morgun. Búið er að draga og mætir Jóhann Jónsson sem keppir í -81 kg flokki Nace Hovnik frá Slóveníu og Bjarnsteinn Hilmarsson sem keppir í -73 kg flokki mætir Jaka De Costa einnig frá Slóveníu. Keppt verður á þremur völlum og hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu sem hefst kl 6:00 í fyrramálið á okkar tíma en þeir eru þremur tímum á undan okkur. Forkeppnin er frá kl. 6:00 – 9:00 og úrslitin frá 11:00 – 13:00 á okkar tíma.

Bjarnsteinn og Jóhann keppa í Tallinn

ICG (International Children´s games) eða alþjóðaleikar ungmenna verða haldnir í 57 skiptið dagana 3-8 ágúst í Tallinn í Eistlandi. Leikarnir sem eru viðurkenndir af Alþjóða Ólympíunefndinni hafa verið haldnir um víða veröld síðan 1968 og er þar keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum fyrir ungmenni á aldrinum 12-15 ára. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) hefur með stuðningi frá ÍTR sent þátttakendur á leikana frá árinu 2001 og hafa Reykvískir judomenn og konur amk. þrisvar sinnum tekið þátt í þeim. Í fyrsta skipti þegar leikarnir fóru fram í Reykjavík árið 2007, næst 2011 í Skotlandi þar sem Logi Haraldsson -73 kg og Roman Rumba -81 kg unnu báðir til silfurverðlauna og svo næst 2017 í Kaunas í Litháen. Því miður vantar frekari og öruggar upplýsingar um þátttöku og árangur frá fyrri tíð en verður bætt úr því við fyrsta tækifæri ef hægt er. Nú fara leikarnir fram í Tallinn í Eistlandi eins og áður sagði og verða þeir Bjarnsteinn Hilmarsson og Jóhann Jónsson á meðal þátttakenda að þessu sinni ásamt Zaza Simonishvili þjálfara. Judokeppnin verður haldin þriðjudaginn 5. ágúst og keppir Bjarnsteinn í -73 kg flokki og Jóhann í -81 kg flokki og verða nánari upplýsingar um mótið settar hér inn um leið og þær fást. Myndin hér neðar til vinstri var tekin í JR að lokinni síðustu æfingu þeirra í gær en þeir leggja af stað til Tallinn í nótt. Hin myndin var tekin í Laugardalnum rétt áður en lagt var af stað.