Ný námskeið- skráning á judo.is

Byrjenda og framhaldsnámskeið 5-6 ára barna á laugardögum kl. 10
Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára barna á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17
Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára barna mánudaga, miðvikudaga, föstudaga kl. 17
Byrjendanámskeið 15 ára og eldri mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20
Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga
Meistaraflokkur og framhald 15 og eldri alla daga vikunnar sjá stundatöflu.
Kvennatími byrjendur og framhald 15 ára og eldri  mánudaga og miðvikudaga kl. 17

————————————————————————————————————————————————————- Byrjendur fá fría prufutíma, komdu og prófaðu í viku, það er frítt. Ekki þarf að skrá sig í prufutíma, bara mæta á staðinn í réttan tíma og láta vita af sér, en það væri samt gott að fá tilkynningu um það á netfangið jr@judo.is. Nóg er að mæta með síðar íþróttabuxur og bol. Judobúningar fást hjá JR. ————————————————————————————————————————————————————-
Ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er hér gengið frá skráningu og námskeiðsgjaldi. Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Jóhann með silfur í Tallinn

Strákarni kepptu í gær á International Children´s games og stóðu sig vel en Jóhann Jónsson keppti til úrslita í  -81 kg flokknum  eftir að hafa lagt að velli tvo á andstæðinga með glæsilegum ippon köstum, þann fyrri á drop seoi-nage og þann seinni á uranage. Hann mætti síðan Rokas Leikus frá Litháen í úrslitum og reyndi aftur uranage sem hafði gengið svo vel gegn síðasta andstæðini en Rokas áttaði sig í tíma og náði mótbragði og sigraði. Bjarnsteinn Hilmarsson sem keppti í -73 kg flokki tapaði í fyrstu umferð en fékk uppreisnarglímu sem hann vann en tapaði svo þeirri þriðju og endaði í sjöunda sæti. Seinni keppnisdaginn var keppt í liðakeppni en lágmarksfjöldi var fimm manns og vorum við því ekki með lið. Það voru sex lið skráð til keppni og gat hvert lið fengið einn lánsmann ef á þurfti að halda og var Bjarnsteinn beðinn um að keppa með einu þeirra sem hann og gerði en liðið náði því miður ekki að komast á verðlaunapall. Þetta var fínn árangur hjá strákunum og óskum við þeim til hamimgju með árangurinn. Því miður voru gæðin í beinu útsendingunni það slæm að ekki var hægt að nota hana en videoklippa af glímunum hans Jóhanns sem tekin var upp á staðnum er væntanleg.

Búið að draga og bein útsending á ICG 2025

Judokeppnin á International Children´s games hefst á morgun. Búið er að draga og mætir Jóhann Jónsson sem keppir í -81 kg flokki Nace Hovnik frá Slóveníu og Bjarnsteinn Hilmarsson sem keppir í -73 kg flokki mætir Jaka De Costa einnig frá Slóveníu. Keppt verður á þremur völlum og hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu sem hefst kl 6:00 í fyrramálið á okkar tíma en þeir eru þremur tímum á undan okkur. Forkeppnin er frá kl. 6:00 – 9:00 og úrslitin frá 11:00 – 13:00 á okkar tíma.

Bjarnsteinn og Jóhann keppa í Tallinn

ICG (International Children´s games) eða alþjóðaleikar ungmenna verða haldnir í 57 skiptið dagana 3-8 ágúst í Tallinn í Eistlandi. Leikarnir sem eru viðurkenndir af Alþjóða Ólympíunefndinni hafa verið haldnir um víða veröld síðan 1968 og er þar keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum fyrir ungmenni á aldrinum 12-15 ára. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) hefur með stuðningi frá ÍTR sent þátttakendur á leikana frá árinu 2001 og hafa Reykvískir judomenn og konur amk. þrisvar sinnum tekið þátt í þeim. Í fyrsta skipti þegar leikarnir fóru fram í Reykjavík árið 2007, næst 2011 í Skotlandi þar sem Logi Haraldsson -73 kg og Roman Rumba -81 kg unnu báðir til silfurverðlauna og svo næst 2017 í Kaunas í Litháen. Því miður vantar frekari og öruggar upplýsingar um þátttöku og árangur frá fyrri tíð en verður bætt úr því við fyrsta tækifæri ef hægt er. Nú fara leikarnir fram í Tallinn í Eistlandi eins og áður sagði og verða þeir Bjarnsteinn Hilmarsson og Jóhann Jónsson á meðal þátttakenda að þessu sinni ásamt Zaza Simonishvili þjálfara. Judokeppnin verður haldin þriðjudaginn 5. ágúst og keppir Bjarnsteinn í -73 kg flokki og Jóhann í -81 kg flokki og verða nánari upplýsingar um mótið settar hér inn um leið og þær fást. Myndin hér neðar til vinstri var tekin í JR að lokinni síðustu æfingu þeirra í gær en þeir leggja af stað til Tallinn í nótt. Hin myndin var tekin í Laugardalnum rétt áður en lagt var af stað.

Keppni lokið á EYOF 2025

EYOF 2025 var haldið í Skopje í Makedoníu dagana 20-26 júlí. Keppendur í judo voru 338 frá 44 þjóðum 183 karlar og 155 konur. Í judokeppninni voru fjórir þátttakendur frá Íslandi þau Eyja Viborg -52 kg, Helena Bjarnadótir -63 kg, Jónas Guðmundsson -73 kg og Viktor Kristmundsson +90 kg og með þeim var Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Judokeppnin á EYOF er og hefur alltaf verið gríða sterk og ekki auðvelt að komast áfram en á sama tíma mjög gott mót til að bera sig saman við þá bestu í þessum aldursflokki. Eyja Viborg komst lengst okkar keppenda en hún sigraði heimamann í fyrstu viðureign á fallegu ippon kasti. Í annari viðureign varð hún að játa sig sigraða en fékk uppreisnarglímu þar síðasti andstæðingur hennar komst í fjórðungs úrslit en því miður tapaði hún þeirri viðureign og endaði 9-12 sæti. Við höfum ekki átt marga keppendur í kvennaflokki á EYOF fram að þessu og var þetta var í fyrsta skipti sem við vinnum viðureign í þeim flokki. Aðrir keppendur okkar töpuðu í fyrstu viðureign en fengu ekki uppreisnarglímu þar sem andstæðngar þeirra sem þau töpuðu fyrir komust ekki nógu langt áfram í keppninni. Jónas tapaði í fastataki sem og Helena en Viktor átti mjög fína glímu en tapaði á wazaari að loknum fullum glímutíma. Á einu augnabliki í glímunni náði Viktor flottu ippon kasti og hefði þar með unnið viðureignina ef það hefði verið gilt en dómarin hafði á sama augnabliki kallað matte og kastið því ekki gilt því miður. Nánari upplýsingar um mótið má finna á vef IJF á JudoTV og hér er stutt videoklippa frá viðureignum okkar manna.

Keppa á EYOF 2025

EYOF 2025 verður haldið í Skopje í Makedoníu 20-26 júlí og verður judokeppnin dagana 22. til 25 júlí. Skráðir þátttakendur í judo eru 341 frá 44 þjóðum 184 karlar og 157 konur. Keppendur okkar eru þau Eyja Viborg -52 kg, Helena Bjarnadótir -63 kg, Jónas Guðmundsson -73 kg og Viktor Kristmundsson +90 kg og með þeim er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Eyja keppir 23. júlí, Helena og Jónas 24. júlí og að lokum Viktor 25. júlí. Nánari upplýsingar eins og hverjir verða andstæðingar þeirra og tímasetningar má finna hjá EJU og hjá IJF og fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér og líkast til einnig á JudoTV. Á myndinni sem hér fylgir vantar Helenu en hún býr í Serbíu og kemur þaðan til Makedoníu.

Breyttur æfingatími í júlí

Í júlí munu reglulegar judoæfingar í meistaraflokki og framhaldi 15+ vera á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl 18-19:30, Ef áhugi er á því að æfa einnig á þriðjudögum og föstudögum þá verður það hægt en ákveðið hverju sinni á æfingu daginn áður.

Æfa í Georgíu í sumar

Á þriðjudaginn lögðu af stað til Georgíu þeir Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson, Mikael Ísaksson og Skarphéðinn Hjaltason ásamt Zaza Simonishvili sem er frá Georgíu og munu þeir æfa í judoklúbbum í Tbilisi út júlí. Margir af bestu judomönnum heims koma einmitt frá Georgíu sem á marga evrópu, heims og Ólympíumeistara og eiga strákarnir örugglega eftir að sjá til og jafnvel æfa með einhverjum þeirra eins og Aðalsteinn í fyrra sumar þegar hann æfði meðal annars með Beka Gviniashvili og Luka Maisuradze.

Helena keppti á EM cadett

Evrópumeistaramót Cadett 2025 (aldursflokkur 15-17 ára) fór fram í Skopje í Makedoníu dagana 26-28 júní. Þetta er eitt sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert í þessum aldursflokki og voru keppendur 421, karlar 217 og konur 204. Að þessu sinni var aðeins einn keppandi frá Íslandi en Helena Bjarnadóttir keppti í -70 kg flokki og þjálfari með henni var María D. Skúlason. Helena átti fyrstu viðureign í flokknum og mætti Alina Chekmareva (IJF) sem er í 33 sæti heimslistans. Þetta var hörkuviðureign sem var mjög jöfn og hvorugar náðu skori í venjulegum glímutíma sem er fjórar mínútur og var það ekki fyrr en á annari mínútu í gullskori sem Alinu tókst að skora og innbyrða sigur þar með. Alina datt út í næstu umferð gegn franskri stúlku sem er efst á heimslistanaum og þar með var engin uppreisnarglíma í boði fyrir Helenu og hún úr leik. Hér neðar eru myndir fræa glímunni hennar gegn Alinu. Hér eru nánari upplýsingar um mótið og hægt að sjá myndbönd frá því.

Aðalfundur JR 2025

Aðalfundur JR var haldinn 24. júní. Jón Hlíðar Guðjónsson formaður JR setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Gengið til dagskrár og kosnir fastir starfsmenn fundarins. Jóhann Másson var kosinn fundarstjóri og Eyjólfur Orri Sverrisson ritari. Fráfarandi stjórn flutti starfsskýrslu og lagði fram reikninga. Umræður um skýrslu og reikninga og fyrirspurnum svarað. Starfsskýrsla og reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða. Engar tillögur lágu fyrir fundinum en undir liðnum önnur mál báru ýmis áhugaverð mál á góma og samþykkt var að að vísa nokkrum þeirra til stjórnar til frekari útfærslu. Næst var komið að kosningu stjórnar og skoðunarmanns. Jón Hlíðar Guðjónsson var endurkjörinn formaður og aðrir í stjórn voru kosin þau Daníela Rut Daníelsdóttir, Eyjólfur Orri Sverrisson, Magnús Jóhannsson og Alfreð Atlason og í varastjórn Ari Sigfússon og Jóhann Másson og skoðunarmaður Runólfur Gunnlaugsson. Jóhann Másson gaf ekki kost á sér í aðalstjórn og Höskuldur Einarsson gaf ekki kost á sér í stjórn að sinni en hann hefur setið í stjórn JR í yfir tuttugu ár og þakkar JR honum fyrir hans framlag og vinnu fyrir félagið allan þann tíma. Endurkjörinn formaður, Jón Hlíðar þakkaði fundargestum fyrir komuna og góða fundarsetu og sleit fundi.