Í dag var haldin sameiginleg Jólaæfin barna frá fimm ára aldri til og með ellefu ára og var það jafnframt síðasta æfing ársins hjá þeim. Jólaæfingin er að venju aðallega í formi leikja en með smá upphitun áður en hafist er handa við leikina. Að leikjum loknum voru afhent viðurkenningarskjöl fyrir önnina og svo farið í setustofuna þar sem í boði voru drykkir, kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu. Vel var mætt og heppnaðist æfingin með ágætum. Það vantaði þó um fimmtán börn og bíða þeirra viðurkenningar sem þau fá afhentar næst þegar þau mæta. Hér er stutt videoklippa frá deginum. Æfingar hefjast aftur á 6. janúar á nýju ári.
Jóla/Afmælismót JR 2024 á morgun 18. des.
Jólamót/Afmælismót JR 2024 verður haldið miðvikudaginn 18. desember og hefst keppnin um kl. 18:15. Keppt verður í senioraflokkum en ekki öllum þyngdarflokkum. Einnig verður nú í annað sinn keppt í gólfglímu 30 ára og eldri. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í átjánda skipti en það féll niður 2020 vegna covid. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram því allir sem mæta á æfingu geta keppt og verður keppendum raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg en hugsanlega verða flokkar sameinaðir en það fer eftir þátttöku. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara. Hér eru úrslitin 2023, 2022, 2021 og 2019. Á mótinu verður einnig tilkynnt um val á Judomanni JR 2024, judomanni U21, þeim efnilegasta og sjálfboðaliða ársins.
Síðustu æfingar fyrir Jól
Síðasta æfing hjá börnum 5-6 ára og 7-11 ára verður þriðjudaginn 17. des. en þá verður sameiginleg æfing með þessum aldursflokkum og hefst hún kl. 17 og verður hún að mestu í leikjaformi. Að lokinni æfingu fá börnin afhent viðurkenningaskjöl fyrir haustönnina og síðan verður farið í setustofuna þar sem í boðið verða drykkir , kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu.
Síðasta æfing fyrir áramót hjá byrjendum 15 ára og eldri verður þriðjudaginn 17. des. og hjá framhaldi, kvennatíma og meistaraflokki miðvikudaginn 18. des. en hjá Gólfglímu 30+ fimmtudaginn 19.des. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir meistaraflokk milli Jóla og nýárs og verður það þá auglýst hér síðar.
Æfingar hefjast svo aftur á nýju ári sem hér segir. Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára og 15 ára og eldri og kvennatími 15+ hefjast mánudaginn 6. janúar. Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri og æfingar barna 7-10 ára hefjast þriðjudaginn 7. janúar og æfingar barna 5-6 ára hefjast laugardaginn 11. janúar.
Lokahóf JSÍ 2024
Á lokahófi Judosambands Íslands í gær var tilkynnt um val á judomönnum ársins, hver voru þau efnilegustu og veittar viðurkenningar sem Gísli Egilson nýkjörinn formaður afhenti. Judomenn ársins 2024 voru kjörin þau Helena Bjarnadóttir og Skarphéðinn Hjaltason bæði úr JR og er það í annað skiptið sem Helena hlýtur þessa nafnbót en hún var einnig kjörin 2023. Einnig var tilkynnt um val á efnilegastu judomönnum ársins og voru hlutskörpust þau Eyja Viborg (Ármanni) og Orri Snær Helgason (JR). Þá voru afhentar viðurkenningar fyrir dan gráðanir á árinu sem voru allnokkrar en það voru sjö sem gráðuðust í 1. dan, tveir í 4. dan, einn í 5. dan, tveir í 6. dan og einn í 7. dan. Þeir sem gráðuðust í 1. dan voru, Eyjólfur Orri Sverrisson, Garðar Hallur Sigurðsson, Magnús Jóhannsson, Mikael Ísaksson og Raul Vlad Matei Matei allir úr JR, Jakob H. P. Burgel Ingvarsson úr UMFS og Piotr Slawomir Latkowski úr UMFG. Gísli Egilson (JG) og Jóhann Másson (JR) fóru í 4. dan, Garðar Skaptason (JS) í 5. dan, Björn Halldórsson (JG) og Höskuldur Einarsson (JR) í 6. dan og í byrjun árs veitti forseti EJU Dr. László Tóth, Halldóri Guðbjörnssyni (JR) gráðuna 7. dan. Dómari ársins var kjörinn Sævar Sigursteinsson úr Ármanni. Gísla Inga Þorsteinssyni var veitt gullmerki JSÍ fyrir hans framlag til íþróttarinnar en hann var fyrsti Norðurlandameistari okkar í judo árið 1976. Hann keppti á einnig á Ólympíuleikunum í Montreal 1976 en það var í fyrsta skipti sem Íslenskir judomenn voru á meðal þátttakenda og á Ólympíuleikunum í Los Angeles fyrir 40 árum var hann þjálfari Íslensku keppendanna .
Dan gráðanir í desember
Nú nýlega í desember þreyttu átta aðila dan gráðupróf og stóðust það allir sem einn með ágætum. Það voru sex aðilar sem tóku 1. dan en það voru þeir Eyjólfur Orri Sverrisson, Garðar Hallur Sigurðsson, Magnús Jóhannsson og Raul Vlad Matei Matei allir úr JR, Jakob H. P. Burgel Ingvarsson úr UMFS og Piotr Slawomir Latkowski úr UMFG sem tók prófið nokrum dögum síðar. Garðar Hrafn Skaptason úr JS tók gráðuna 5. dan og var Arnar Freyr Ólafsson Uke hjá honum og Björn Halldórsson úr JG tók gráðuna 6. dan og Uke hjá honum var Raphael Louis José Leroux. Til hamingju með áfangann.
Baltic Sea Championship 2024
Um helgina verða sex keppendur frá JR á meðal þátttakenda á alþjóðlegu móti í Finnlandi, Baltic Sea Championships sem haldið verður í Orimattilla dagana 6-8 des. Allir keppendur okkar keppa í tveimur aldursflokkum U20 ára og U17 nema Daron en hann keppir í U20 og seniora flokki. Keppendur okkar eru, Elías Þormóðsson og Orri Helgason sem keppa í -66 kg flokki, Daron Hancock, Gunnar Tryggvason og Jónas Guðmundsson sem keppa í -73 kg flokki og Viktor Kristmundsson sem keppir í +90 kg í U17 og -100 kg í U20. Þjálfarar og fararstjórar eru þeir Zaza Simonishvili, Þormóður Jónsson og Helgi Einarsson. Hér eru nánari upplýsingar um mótið.
Baltic Sea Championship er afar sterkt mót en skráðir keppendur eru 675 frá ellefu þjóðum. Fyrir utan keppendur frá norðurlöndunum eru keppendur frá Brasilíu, Eistlandi, Þýskalandi, Ísrael, Lettlandi og Póllandi. Keppt er í aldursflokkum, U15, U17, U20 og seniora. Laugardaginn 7.des. verður keppt í U15 og U20 ára aldursflokkum og á sunnudaginn í U17 og senioraflokkum. Hér er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu.
Adam með verðlaun í Póllandi
Adam Komendera sem æfir hjá JR í 7-10 ára hópnum okkar keppti á barnamóti í Póllandi síðastliðna helgi og stóð sig afar vel og varð í 3-5 sæti. Hér neðar eru nokkrar myndir frá mótinu, mynd af Adam með verðlaunapeninginn í JR og með Weroniku systir sinni og Janusz pabba þeirra. Vel gert Adam og til hamingju.
Reykjavíkurmeistaramótið 2024
Reykjavíkurmeistaramótið 2024 verður haldið í ÍR heimilinu Skógarseli 12 þann 30. nóvember og hefst það kl 13:00 og áætluð mótslok kl. 16:00. Þátttakendur eru frá Reykjavíkurfélögunum Judodeild Ármanns, Judodeild ÍR og Judofélagi Reykjavíkur (JR). Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og seniora flokkum. Nánari upplýsingar og tímasetning verður tilkynnt að loknum skráningarfresti sem er til miðnættis mánudaginn 25. nóvember í skráningarkerfi JSÍ.
Frétt um formannaskipti JSÍ á hjá EJU
Nokkrar kyu gráðanir í vikunni
Í gær þreyttu nokkrir iðkendur úr byrjendahópi 15 ára og eldri gráðupróf fyrir 5. kyu (gult belti) og gerðu það með glæsibrag. Þeir sem misstu af gráðuninni í gær þurfa ekki að örvænta því fleiri gráðupróf verða haldnin á næstu vikum. Hér neðar er mynd af hópnum ásamt Zaza Simonishvili þjálfara JR. Til hamingju með áfangann.