Jólamót JR 2025

Jólamót/Afmælismót JR 2025 verður haldið föstudaginn 12. desember og hefst keppnin hjá 11-14 ára kl. 17:15 og um kl. 18:15 hjá 15 ára og eldri og verður þá keppt í senioraflokkum en ekki öllum þyngdarflokkum. Einnig verður nú í þriðja sinn keppt í gólfglímu 30 ára og eldri. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í nítjánda skipti en það féll niður 2020 vegna covid. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram því allir sem mæta á æfingu geta keppt og verður keppendum raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg en hugsanlega verða flokkar sameinaðir en það fer eftir þátttöku. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara. Hér eru úrslitin 2024  20232022,  2021 og 2019Á mótinu verður einnig tilkynnt um val á Judomanni JR 2025, judomanni U21, þeim efnilegasta og sjálfboðaliða ársins.

Síðustu æfingar fyrir áramót

Síðasta æfing fyrir áramót hjá börnum hjá 7-11 ára verður fimmtudaginn 11. desember, hjá 5-6 ára laugardaginn 13. desember og hjá 11-14 ára mánudaginn 15. desember og verða æfingarnar að mestu í leikjaformi. Að lokinni æfingu fá börnin afhent viðurkenningaskjöl fyrir haustönnina og síðan verður farið í setustofuna þar sem í boðið verða drykkir, kökur, ávextir og kaffi fyrir þá fullorðnu.

Síðasta æfing fyrir áramót hjá öllum 15 ára og eldri verður föstudaginn 19. desember, síðasta æfing Kvennatími 15+ verður miðvikudaginn 17. desember og hjá Gólfglímu 30+ laugardaginn 20. desember. Hugsanlega verða haldnar aukaæfingar fyrir meistaraflokk á milli Jóla og nýárs og verður það þá tilkynnt á síðustu æfingu fyrir jól.

Æfingar hefjast svo aftur á nýju ári sem hér segir. Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára og 15 ára og eldri og kvennatími 15+ hefjast mánudaginn 5. janúar. Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri og æfingar barna 7-10 ára hefjast þriðjudaginn 6. janúar og æfingar barna 5-6 ára hefjast laugardaginn 10. janúar.

Mikael með silfur á Baltic Sea Championship

Baltic Sea Championship 2025 fór fram dagana 6-7 desember í Orimatilla í Finnlandi. Mótið er eitt af þeim sterkari sem haldið er á Norðurlöndunum og voru keppendur tæplega sjöhundruð frá ellefu þjóðum. Frá Íslandi voru þátttakendur þrír og kepptu í U20 og senioraflokkum. Mikael Ísaksson komst lengst okkar keppenda að þessu sinni en hann keppti til úrslita í U20 í -90 kg flokki eftir að hafa lagt þrjá andstæðinga af velli. Fyrst mætti hann G. Karaklidis frá Grikklandi/SWE og skoraði yuko eftir umþað bil tvær mínútur og fylgdi vel eftir og náði honum í fastatak og vann á ippon. Næst mætti hann M. Polishchuk, keppanda frá Finnlandi sem hann sigraði á yuko eftir fullan glímutíma og í þriðju umferð mætti hann T. D´Hooge frá Svíþjóð og var það hörku viðureign sem fór í gullskor að loknum venjulegum glímutíma sem er fjórar mínútur og sigraði Mikael hann á yuko eftir eina og hálfa mínútu. Hér var hann kominn í úrslit og mætti öðrum svía Viktor Baathe en varð þar því miður að lúta í lægra en Viktor sótti eldsnöggt í Kata Guruma og skoraði yuko og náði að fylgja vel eftir og komst í fastatak sem Mikael náði ekki að losa sig úr en silfrið var Mikaels og er hann vel að því kominn. Því miður meiddi hann sig lítillega og stífnaði upp í herðum og háls og ákvað að sleppa keppni daginn eftir í senioraflokki. Þeir Elías Þormóðsson (U20 og senioraflokkur -73 kg) og Vasileios Tsagkatakis (senioraflokkur -81 kg) áttu ekki eins góðan dag og Mikael en þeir töpuðu báðir sínum viðureignum í fyrstu umferð og féllu úr keppni. Hér eru linkar á YouTube video frá mótinu, öll úrslit og pdf úrslit okkar keppenda og að lokum stutt video af glímunum hans Mikaels í U20 -90 kg flokki.

Lokahóf JSÍ 2025

Lokahóf Judosambands Íslands fór fram laugardaginn 6. desember og var þar eins og venja er tilkynnt um val á judomönnum ársins, þau efnilegustu, dómari ársins og veittar viðurkenningar fyrir dan gráðanir.  

Judomenn ársins 2025 eru þau Aðalsteinn Björnsson og Helena Bjarnadóttir bæði úr JR. Aðalsteinn var að hljóta þesa nafnbót í fyrsta skipti en Helena í það þriðja. Bæði stóðu þau sig vel á árinu og er hér stikklað á því helsta.

Aðalsteinn sigraði á Smáþjóðaleikunum í -90 kg flokki, brons á Matsumae Cup U21 -90 kg, varð Íslandsmeistari í opnum flokki karla, silfur á Reykjavík Judo Open í -90 kg flokki og á Íslandsmeistaramótinu í sama flokki. Gullverðlaun í U21 árs aldursflokki bæði á Íslandsmeistaramóti og Afmælismóti JSÍ.

Helena sem býr í Serbíu og keppti því ekkert hér heima en náði góðum árangri á erlendis. Á Smáþjóðaleikunum var hún með brons og einnig brons á Norðurlandameistaramótinu í U18. Hún stóð sig frábærlega á European Cup Cadet í Riga er hún vann til silfurverðlauna og keppti um bronsverðlaunin í Grikklandi á European Cup Cadet í Þessalóníu.

Efnilegustu judomenn ársins 2025. Þau efnilegustu eru valin úr aldursflokkum U18/U21 árs og er stuðst við punktastöðu þeirra. Efnilegastur í karlaflokki er Viktor Kristmundsson úr JR en í kvennaflokki eru tvær stúlkur sem hljóta þessa nafnbót að þessu sinni þar sem þær voru það jafnar og erfitt að gera upp á milli þeirra og því var ákveðið að þær myndu báðar verða fyrir valinu. Efnilegastar í kvennaflokki eru þær Agla Ólafsdóttir úr JS og Emma Thueringer úr JR.

Veittar voru viðurkenningar fyrir dan gráðanir sem að þessu sinni voru eingöngu 1. dan gráðanir. Þeir Einar Jón Sveinsson, Gunnar Ingi Tryggvason, Jónas Björn Guðmundsson, Orri Snær Helgason tóku 1. dan á þessu ári en þeir Böðvar Arnarsson og Daníel Árnason tóku gráðuna í lok árs 2023 og hefðu átt að fá sína viðurkenningu í fyrra en því miður fórst það fyrir og er hér bætt úr því.

Dómari ársins er Björn Sigurðarson úr Ármanni en hann hefur lagt mikla og óeigingjarna vinnu í dómgæslustörf móta.

Baltic Sea Championship 2025

Það verða þrír keppendur frá JR sem taka þátt í Baltic Sea Championship 2025 en það er alþjóðlegt mót haldið í Orimattilla í Finnlandi dagana 6-7 des. Baltic Sea Championship er afar sterkt mót en skráðir keppendur eru 664 frá tíu þjóðum. Fyrir utan keppendur frá norðurlöndunum eru keppendur frá Eistlandi, Lettlandi, Þýskalandi, Ísrael og Úkraníu. Keppt er í aldursflokkum, U15, U17, U20 og senioraflokkum.

Keppendur okkar að þessu sinni í senioraflokki karla eru þeir Elías Þormóðsson sem keppir í -73 kg flokki, Vasileios Tsagkatakis -81 kg flokki og Mikael Ísaksson -90 kg flokki en auk þess keppa þeir Elías og Mikael einnig í aldursflokki U20. Keppt verður í U20 á laugardaginn og í senioraflokkum á sunnudaginn og báða dagana hefst keppni hjá þeim um kl. 11 á okkar tíma. Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu en hér er keppendalistinn og nánari upplýsingar um mótið. Þjálfari og fararstjóri er Þormóður Jónsson

Reykjavíkurmeistaramótið 2025

Reykjavíkurmeistaramótið 2025 verður haldið í ÍR heimilinu Skógarseli 12 laugardaginn 29. nóvember en það er í umsjón ÍR í ár. Vigtun föstudagskvöldið 28. nóv í ÍR heimilinu frá 18:00 til 18:30. Einnig er hægt að vigta á keppnisdegi frá kl. 11:00 til 11:30 og mótið hefst svo kl. 12:30 og mótslok áætluð um kl. 15:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er þriðjudagurinn 25. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ.

Sveitakeppni JSÍ 2025 – úrslit

Sveitakeppni JSÍ 2025, Íslandsmeistaramót í liðakeppni klúbba sem átti að fara fram 15. nóvember var færð til þriðjudagsins 18. nóv. og var keppnin haldin hjá Judofélagi Reykjavíkur.

JR sendi tíu sveitir til leiks, eina kvennasveit og þrjár karlasveitir í senioraflokki, tvær karlasveitir í U21 árs flokki og tvær drengjasveitir og tvær stúlknasveitir í U15 ára aldursflokki. Því miður var engin þátttaka frá öðrum klúbbum í þessari sögulegu keppni sem spannar yfir fimmtíu ár og er það í fjórða skiptið sem það gerist (2021, 2022, 2024, 2025).

Sveitakeppni karla var fyrst haldin 1974 og var þetta í 49 skipti sem keppnin fór fram en mótið féll niður 1993, 2002 og 2020. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa sigrað í þessari keppni.

Þar sem önnur judofélög voru ekki með keppendur þá kepptu sveitir JR innbyrðis nema kvennasveitin en þar var JR bara með eina sveit svo þar var engin keppni. Til að gera keppnina sem skemmtilegasta og kanski mest spennandi og jafna þá var ekki raðað eftir styrkleika keppenda í A og B sveitir heldur var dregið um það í hvaða sveitir keppendur röðuðust.

Keppnin var stórskemmtileg og viðureignir margar hverjar jafnar og spennandi og engin leið að átta sig á því fyrirfram hvaða sveit myndi bera sigur úr býtum. Dómarar voru þeir Gísli Egilson og Ægir Valsson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon, Jóhann Másson og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi sem og þjálfarar og aðstoðarmenn þeirra og þökkum við fyrir þeirra framlag.

Þetta var í tuttugusta og fjórða skipti sem JR sigrar í sveitakeppni karla og tólfta árið í röð. Hér eru úrslitin, U15 stúlkur, U15 drengirU21 karlar og senioraflokkur karla. Hér neðar eru myndir frá mótinu og hér er stutt videoklippa.

Conegliano European Open

Conegliano European Open verður haldið á Ítalíu helgina 8 til 9 nóvember og verða þeir Aðalsteinn Björnsson og Skarphéðinn Hjaltason á meðal þátttakenda og með þeim í för er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Báðir keppa strákarnir í – 90 kg flokki á sunnudaginnn og hefst keppnin kl. 8 að morgni á okkar tíma. Skarphéðinn á sjöundu glímu á tatami 2 og Alli á fimmtándu á sama velli. Þátttakendur eru 310 frá 37 þjóðum, 205 karlar og 105 konur. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Haustmót JSÍ 2025 shl. -úrslit

Haustmót JSÍ 2025 seinni hluti var haldið laugardaginn 1. nóvember í Íþróttahúsi Akurskóla í Reykjanesbæ og nú var keppt í aldursflokkum U18 og senioraflokkum. Mótið sem hófst kl. 11:00 gekk vel fyrir sig, dómgæsla og mótsstjórn hin besta og lauk því um kl. 15. Keppendur voru fjörtíu og þrír frá fimm klúbbum, Grindavík, JG, JRB, JS og JR. Keppendur JR-inga voru tuttugu og sex og stóðu þeir sig afar vel en þeir unnu öll tólf gullverðlaunin auk fimm silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna. Óskum við keppendum öllum til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum.

Haustmót JSÍ 2025 -seinni hluti

Haustmót JSÍ 2025 seinni hluti (fyrri hluti var haldinn 4. okt. á Selfossi) verður haldið laugardaginn 1. nóvember í Íþróttahúsi Akurskóla að Tjarnarbraut 5 í Reykjanesbæ. Keppt verður í aldursflokkum U18 og senioraflokkum. Mótið hefst kl. 11 með keppni í U18 og strax að þeirri keppni lokinni hefst keppni í senioraflokkum og áætlað að mótinu ljúki um kl. 14:00. Vigtun fer fram í Akurskóla föstudaginn 31. okt. frá 18-18:30 og á sama stað fyrir þá sem það vilja á keppnisdegi frá kl. 9:30-10:00.