Dan gráðupróf JSÍ

JSÍ verður með dan gráðupróf mánudaginn 11. desember kl. 20:15 og verður það haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur að Ármúla 17.
Þeir sem hyggjast þreyta prófið þurfa að sækja um það fyrir 10. desember og senda umsóknina á jsi@jsi.is.
Næsta laugardag þ.e 9. des. verður tækniráð JSÍ með kata námskeið fyrir þá sem ætla sér að fara í dan gráðun og verður það haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur frá kl. 11-13.
Hér má finna gráðureglur JSÍ, umsóknarform og aðrar upplýsingar um dan gráðanir eins og Nage no kata.

Egill komst ekki áfram

Egill Blöndal átti hörkuglímu í Tokyo á sunnudaginn er hann mætti Jose Luis Arroyo Osorno frá Perú. Egill byrjaði mjög vel og átti ágætis sóknir en því miður skiluðu þær ekki árangri en þó munaði ekki miklu snemma í viðureigninni og bjargaði Jose sér á magann. Jose  sótti hinsvegar ekki mikið en þegar hann gerði það þá voru þær sóknir beittar og  skiluðu honum wazaari þegar viðureignin var rúmlega hálfnuð og öðru ekki löngu seinna. Egill bætti í og sótti stíft það sem eftir lifði viðureignar og hefði ekki verið ósanngjarnt að Jose hefði verið búinn að fá að minnsta kosti eitt ef ekki tvö shido þegar yfir lauk þar sem hann eiginlega lagðist í vörn til að halda sínu. Að móti loknu tekur Egill þátt í alþjóðlegum æfingabúðum í Tokyo. Hér má sjá viðureignina hans Egils.

Nýjir svartbeltar

Ari, Alexander, Davíð

Ari Sigfússon og Davíð Víðisson úr JR og Alexander Heiðarsson úr KA fóru í 1. dan próf laugardaginn 2. desember og stóðust allir prófið með sóma. Það er gaman að geta þess að Ari var ekkert að flýta sér í svarta beltið því hann tók brúna beltið 19. desember 1990 eða fyrir 27 árum. Til hamingju allir með áfangann.

Egill keppir í Japan

Egill Blöndal (UMFS) heldur utan á morgun til Japans ásamt Garðari Skaftasyni þjálfarar og mun hann keppa á  Tokyo Grand Slam sem fer fram dagana 2-3 desember. Tokyo Grand Slam er ásamt Paris Grand Slam sterkasta judo mót sem haldið er ár hvert fyrir utan heimsmeistaramótið. Egill keppir næsta sunnudag þ.e  3. desember en hann keppir í -90 kg flokknum þar sem eru 38 þátttakendur og þar á meðal er Aleksandar Kukolj (SRB)  sem er efstur á heimslistanum í þeim flokki. Á eftirfarandi tenglum verður hægt að fylgjast með mótinu hér og hér  og í beinni útsendingu.

Helena með bronsverðlaun á Den Helder

Helena, bronsverðlaun

Helena Bjarnadóttir vann til bronsverðlauna í dag á Den Helder í Hollandi í U10 +42 kg. Til hamingju Helena. Það gekk upp til hópa mjög vel hjá krökkunum í Den Helder þó svo að ekki hefðu fleiri en Emma og Helena unnið til verðlauna. Þetta er fyrsta mótið hjá þeim erlendis og örugglega ekki það síðasta og algjört ævintýri fyrir þau að sjá og reyna sig við jafnaldra sína þar.  Mikael sem er ekki vanur því að tapa viðureignum vann því miður enga í dag en gerir það bara á næsta móti. Elías og Jónas unnu tvær viðureignir og Hugi og Alli unnu eina hvor. Þjálfurunum þeim Guðmundi, Emil og Þormóði óskum við til hamingju með árangurinn en þeir hafa verið ákaflega ötulir við þjálfun barnanna og sinnt því starfi vel. Óskum einnig foreldrum barnanna til hamingju og þökkum fyrir stuðning þeirra við félagið.

Gull og silfur í Svíþjóð

Södra Open hópurinn 2017

Það var aldeilis frábær árangur sem strákarnir okkar náðu í morgun á Södra Open 2017. Emilíen og Hákon sigruðu í sínum flokkum og Kjartan og Skarphéðinn unnu til silfurverðlauna. Því miður gekk ekki eins vel hjá Kára en hann varð í sjöunda sæti sem er flott hjá honum en í -55 kg flokknum sem var fjölmennastur voru 12 keppendur og tapaði hann fyrstu viðureign, vann næsu en tapaði svo þeirri þriðju og varð sjöundi eins og áður sagði. Hákon vann -60 kg flokkinn örugglega og sigraði alla á ippon og það sama gerði Emilíen í -73kg flokknum. Skarphéðinn tapaði einni viðureign í -73kg flokknum og var það gegn Emilíen. Í -66kg flokknum hjá Kjartani voru níu keppendur og komst hann örugglega í úrslitin eftir þrjár umferðir en þar varð hann að játa sig sigraðan. Þetta var frábær árangur hjá strákunum og eiga þeir allir hrós skilið fyrir frammistöðuna sem og þjálfarar þeirra Heimir og Garðar sem fylgdu þeim á mótið og höfðu í nógu að snúast þar sem keppt var á sex völlum og allir á svipuðum tíma.

Keppa í Svíþjóð og Hollandi

Hollandsfararnir 2017 fv. Emma, Hugi, Anna, Helena, Elías, Jónas, Mikael, Aðalsteinn

Í morgun fór stór hópur keppenda úr JR til að taka þátt í móti í Svíþjóð annarsvegar og í Hollandi hinsvegar og verður keppt á morgun laugardaginn 25. nóv. Mótið í Hollandi heitir International Den Helder Open Judo Championships og fer fram í samnefndri borg. Við keppum þar í  aldursflokkum 8-11 ára og erum við með sjö keppendur og þeim fylgja þrír þjálfarar og foreldrar. Keppendur okkar eru Aðalsteinn Björnsson E-38, Elías Þormóðsson C-34, Emma Thuringer D-25, Helena Bjarnadóttir D+42, Hugi Kristjánsson E-34, Jónas Guðmundsson C-34 og Mikael Ísaksson E-38 og fyrir hópnum fara þjálfararnir Guðmundur Jónasson, Emil Emilsson og Þormóður Jónsson. Því miður hef ég ekki fundið neinn tengil þar sem hægt er að fylgjast með mótinu en set hann hér inn ef hann finnst.

Södra Open 2017 fv. Skarphéðinn, Kjartan, Emilíen, Kári, Hákon

Mótið í Svíþjóð heitir Södra Judo Open  og keppum við í aldurshópnum U15 þ.e. 13-14 ára. Keppendur okkar þar eru fimm þeir Kári Egilsson -55kg, Hákon Garðarsson -60kg, Kjartan Hreiðarsson -66kg, Emilían Ingimundarson -73kg og Skarphéðinn Hjaltason -73kg.  Þjálfarar og fararstjórar eru þeir Garðar Sigurðsson og Heimir Kjartansson. Hér er hægt að fylgjast með gangi mála í Svíþjóð og sjá úrslit mótsins. Bolirnir sem JR ingarnir eru í voru gefnir af Inter Medica og þökkum  við kærlega fyrir styrkinn.