Masterclass með Gary Edwards
Kæru judomenn/konur
JRB

Kæru judomenn/konur
Í síðustu viku tóku tuttugu og sex börn í aldursflokkunum 5- 6 ára og 7-10 ára beltapróf í JR og stóðst þessi frábæri hópur prófið með glæsibrag og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Nokkur barnanna voru að fá sína fyrstu strípu en önnur sína aðra eða þriðju og tvö þeirra sína tíundu strípu sem þýðir að viðkomandi er búinn að æfa judo í fimm ár en það eru gefnar tvær strípur á ári eða ein á önn. Verkefni þeirra í beltaprófinu var að að sýna kastbrögð og fastatök og hvernig á að losna úr þeim og auk þess var farið yfir merki dómara, grunn judo reglur og hneigingar rifjaðar upp. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Ekki gátu allir iðkendur mætt í beltaprófið í vikunni svo að þau sem ekki voru mætt taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta og passað verður uppá það að enginn missi af því.
Íslandsmót karla og kvenna 2024 var haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur voru þrjátíu og níu frá fimm klúbbum og keppt var í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna og auk þess í opnum flokkum. Þetta var hörkumót, margar jafnar og spennandi viðureignir og kanski óvænt úrslit líka. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði örugglega -66 kg flokkinn og var það jafnframt fjórða árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari. Romans Psenicnijs sem keppti til úrslita við Ingólf í fyrra í -66 kg flokki keppti núna í -73 kg flokki og mætti þar félaga sínum Daron Hancock í keppni um gullverðlaunin en þeir hafa alloft mæst áður í úrslitum. Þetta var hörkuviðureign og jöfn eins og venjulega sem endaði að lokum með sigri Romans en hann vann á wazaari. Aðalsteinn Björnsson varð Íslandsmeistari í annað sinn er hann sigraði félaga sinn Mikael Ísaksson í úrslitum í -81 kg flokki en í fyrra sigraði hann -73 kg flokkinn. Í opnum flokki átti Aðalsteinn alveg frábæra viðureign gegn Agli Blöndal en frekar var búist við að Egill sem er áttfaldur Íslandsmeistari og afar reyndur keppandi og þyngri myndi sigra flokkinn en Aðalsteinn var á öðru máli. Eftir fullan glímutíma þar sem báðir aðilar höfðu sótt stíft og verið ógnandi hafði hvorugur náð að skora og fór glíman því í gullskor. Egill er líkamlega sterkari en Aðalsteinn sem var hinsvegar hreyfanlegri og sneggri og nýtti sér það vel því á áttundu mínútu í gullskori í einni sókn Aðalsteins reynir Egill mótbragð sem misheppnaðist en Aðalsteinn var snöggur til og komst í armlás og Egill varð að gefast upp og þar með var möguleiki hans á gullverðlaunum búinn. Skarphéðinn Hjaltason sigraði bæði -90 kg flokkinn og opinn flokk en þar mætti hann Aðalsteini í úrslitum og vann hann með glæsilegu kasti. Til gamans má geta þess að Skarphéðinn sem er tvítugur er næst yngstur til að vinna opinn flokk karla en Viðar Guðjohnsen var 19 ára þegar hann vann þann flokk árið 1977. Skarphéðinn sem er kominn í hörku keppnisform vann allar sínar viðureignir á fullnaðarsigri. Þetta voru fyrstu Íslandmeistaratitlar Skarphéðins en hann keppti til úrslita í fyrra og varð þá að lúta í lægra haldi gegn Árna Lund í opna flokknum. Árni Lund keppti í -100 kg flokki og vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil er hann sigraði Egil Blöndal í keppninni um gullið en Árni vann tvöfalt í fyrra, þá -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Weronika Komendera vann einnig tvöfalt eins og Skarphéðinn er hún sigraði bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki. Þetta var frábær dagur hjá JR, átta gullverðlaun, fjögur silfur og sex bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar og einnig í fyrsta skipti voru þau, Sigurður Hjaltason (UMFS) í +100 kg flokki og Íris Ragnarsdóttir (JS) í +78 kg flokki og var hún jafnframt með silfur í opnum flokki og fyrsti Íslandsmeistari Judofélags Suðurlands. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn. Streymt var frá mótinu og hér er stutt videoklippa og úrslitin.
Móti lokð og þá hefst frágangurinn
Karl Stefánsson úrJudodeild Ármanns keppti í gær á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Zagreb í Króatíu dagana 25-27 apríl og er það eitt allra sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert og er hver einasti keppandi öflugur judomaður og fáir veikir hlekkir. Þátttakendur voru frá 47 þjóðum, 240 karlar og 187 konur eða alls 427 keppendur. Karl sem keppti í +100 kg flokki þar sem voru 27 keppendur mætti Khamzat Saparbaev (FRA) sem er í 113 . sæti heimslistans. Því miður þá tapaði Karl fyrir honum og var þar með dottin úr keppninni því það er engin uppreisn nema hjá þeim sem komast í átta manna úrslit og tapa þar. Hér er drátturinn og á JudoTv er hægt að sjá flestar glímur mótsins.
EJU Kids Camp var haldið samhliða Evrópumeistaramótinu og voru nokkrir íslenskir þátttakendur þar á meðal. Sjá hér á heimasíðu JSÍ.
Helena Bjarnadóttir keppti um síðastliðna helgi á skólamóti í norðurhéraði Serbíu og sigraði örugglega þar í -70 kg flokki í U18. Þetta er mjög fjölmennt mót þar sem keppendur eru alls um og yfir þúsund manns. Til hamingju Helena
Á morgun sumardaginn fyrsta falla allar æfingar niður nema hjá Gólfglímu 30+ og meistaraflokki vegna undirbúnings þeirra fyrir Íslandsmeistaramót karla og kvenna sem haldið verður næsta laugardag í Laugardalshöllinni og hefst kl. 10. Æfingar á föstudaginn og laugardaginn verða samkvæmt stundaskrá. Gleðilegt sumar.
Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2024 verður haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni og verða allir bestu judomenn og konur landsins á meðal þátttakenda. Keppt verður á einum velli og verður mótinu þrískipt sem hér segir.
Frá kl. 10 til 12 keppni karla í -81, -90, +100 og konur -63 kg.
Frá kl. 12 til 13:30 keppni karla í -66, -73, -100 og konur +78 kg.
Frá kl. 13:30 til 16 Opinn flokkur karla og kvenna
Vigtun fer fram hjá JR föstudaginn 26. apríl frá kl. 17-19.
Hér verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu og hér má svo sjá úrslitin. Hlekkir á beina útsendingu og úrslitin verða settir hér inn á keppnisdegi.
Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2024 verður haldið laugardaginn 27. apríl í Laugardalshöllinni. Allir bestu judomenn og konur landsins verða með. Mótið hefst kl. 10 með forkeppni í öllum þyngdarflokkum sem ætti að ljúka um kl. 12 og úrslitin í þeim flokkum hefjast svo kl. 13:00 og opinn flokkur karla og kvenna strax á eftir og mótslok áætluð um kl. 15:00. Hér verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu og hér má svo sjá úrslitin. Hlekkir á beina útsendingu og úrslit verða settir hér inn á keppnisdegi. Dagskráin verður uppfærð ef á þarf að halda að loknum skráningarfresti sem er mánudagurinn 22. apríl .
Íslandsmeistaramótið í yngri aldursflokkum fór fram Laugardaginn 13. apríl. Keppt er í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs. Keppendur voru sjötíu og fimm frá eftirfarandi níu klúbbum, Ármanni, Grindavík, ÍR, JR,JS, JRB, KA, UMFS og Tindastóli og hefur fjöldi keppenda á mótinu farið vaxandi. Mótið var velheppnað, fullt af spennandi og flottum viðureignum sem flestar enduðu með fullnaðarsigri. Þátttakendur frá JR voru þrjátíu og fimm og unnu þeir alls sautján gullverðlaun, ellefu silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun, til hamingju með frábæran árangur. Keppt var á tveimur völlum og streymdi JSÍ frá mótinu. Hér eru úrslitin og stutt videoklippa frá keppninni og myndir.
Íslandsmót í yngri aldursflokkum (U13 , U15, U18 og U21) verður haldið hjá Judodeild Ármanns í Laugardal, laugardaginn 13. apríl og hefst kl. 11:00 og áætluð mótslok verða um kl. 14:30.
Keppni U13, U15 og U18 hefst kl. 11 og ætti að ljúka um kl. 13. Keppni í aldursflokki U21 hefst svo hefst svo kl. 13:00 og mótslok um kl 14:30.
Vigtun fyrir alla aldursflokka er hjá JR föstudaginn 12. apríl frá kl. 17-18:00 og einnig á keppnistað á keppnisdegi fyrir þá sem það vilja frekar frá kl. 9:00 – 10:00 og er það einnnig fyrir alla aldursflokka.