Í vikunni fóru til Austurríkis ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara þeir Aðalsteinn Björnsson, og Skarphéðinn Hjaltason og taka þeir þar þátt í árlegum OTC æfingabúðum í Mittersill. OTC Mittersill eru líkast til sterkustu æfingabúðir sem haldnar eru ár hvert í heiminum en þær sækja alla jafnan bestu judomenn og konur heims. Þetta ætti að vera góður undirbúningur strákanna fyrir verkefni vetrarins en næsta mót er Reykjavík Judo Open (RIG) sem haldið verður í Laugardalshöllinni 25. janúar. Hér má finna myndir frá OTC Mittersill.
Skarphéðinn Hjaltason íþróttakarl Mosfellsbæjar 2024
Skarphéðinn hóf að æfa judo hjá Judoófélagi Reykjavíkur ellefu ára gamall og er nú, níu árum síðar, orðinn einn besti og öflugasti judomaður landsins. Hann náði mjög góðum árangri á árinu, varð Íslandsmeistari bæði í -90 kg flokki karla og opnum flokki karla.
Skarphéðinn fékk silfurverðlaun á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð, bæði í karlaflokki og í U-21 árs flokki karla, og á alþjóðlegu móti í Danmörku, Copenhagen Open, vann hann einnig til silfurverðlauna.
Judosamband Íslands valdi Skarphéðinn judomann ársins 2024 og var hann einnig kjörinn judomaður JR 2024. Skarphéðinn er þekktur fyrir mikla vinnusemi og metnað, sem hefur skilað sér í stöðugum framförum og árangri á bæði innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Keppnis og æfingaferð til Póllands
Hópur keppenda úr JR lagði af stað til Póllands í gær og munu keppa næsta laugardag í aldursflokkum U11/U13/U18 á International Judo Tournament For Children and the Youth í Bielsko-Biala. Þetta mót er fjölmennt og sterkt og keppt á tólf völlum og keppendur tæplega þrettán hundruð frá tíu þjóðum. Eftir mót taka þau þátt í æfingabúðum og munu einnig heimsækja nokkra klúbba og taka æfingu með þeim. Þetta er í þriðja skiptið sem JR tekur þátt í þessu móti og hefur Janusz Komendera haft veg og vanda af því. Þátttakendur í ár eru, Daníel Hákonarson, Jónas Guðmundsson, Orri Helgason, Sigurður Sigurgeirsson, Viktor Kristmundsson, Weronika Komendera, María Guðmundsdóttir og Adam Komendera. Þjálfarar og fararstjórar eru Janusz Komendera, Helgi Einarsson, Gabríela Hobrzyk og Halldóra Halldórsdóttir og einnig er Snjólaug Helgadóttir með í för. Á meðfylgjandi myndum vantar Janusz og Adam þar sem þeir fóru út nokkrum dögum fyrr. Hér er linkar á mótin 2020 / 2020 og 2023 en þar voru nokkrir þátttakendur sem einnig eru með núna og gaman að sjá myndir af þeim þá og nú. Hér er hægt að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu.
Ný námskeið- skráning á judo.is
Æfingar hefjast á ný 6. janúar 2025.
Byrjenda og framhaldsnámskeið 5-6 ára barna á laugardögum kl. 10
Byrjenda og framhaldsnámskeið 7-10 ára barna á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17
Byrjenda og framhaldsnámskeið 11-14 ára barna mánudaga, miðvikudaga, föstudaga kl. 17
Byrjendanámskeið 15 ára og eldri mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20
Gólfglíma, byrjendur/framhald 30 ára og eldri þriðjudaga, fimmtudaga kl. 17 og laugardaga kl. 11.
Meistaraflokkur og framhald 15 ára og eldri alla daga vikunnar kl. 18, sjá nánar stundatöflu.
Kvennatími byrjendur og framhald 15 ára og eldri mánudaga og miðvikudaga kl. 17
Byrjendur fá fría prufutíma, komdu og prófaðu í viku, það er frítt. Ekki þarf að skrá sig í prufutíma, bara mæta á staðinn í réttan tíma og láta vita af sér, en það væri samt gott að fá tilkynningu um það á netfangið jr@judo.is. Nóg er að mæta með síðar íþróttabuxur og bol. Judobúningar fást hjá JR.
Ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er hér gengið frá skráningu og námskeiðsgjaldi. Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is
Gleðilegt nýtt ár 2025
Judofélag Reykjavíkur óskar öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir gömlu árin. Megi það nýja verða ykkur gæfuríkt.
Starfssemin hefst aftur 6. janúar á nýju ári samkvæmt stundaskrá, sjá nánar hér.
Gleðileg Jól
Judofélag Reykjavíkur óskar öllum Gleðilegra Jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.
Æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá 6. janúar, sjáumst.
Judomenn JR 2024
Tilkynnt var um val á Judomanni ársins 2024 miðvikudaginn 18. desember og er sá eða sú sem bestum árangri náði á árinu í senioraflokki kjörinn judomaður ársins. Þá er einnig valinn judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í U18/21 en hann getur aðeins verið kjörinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliði ársins var fyrst valinn 2022 og er hann heiðraður samhliða judomönnum ársins en í ár var enginn tilnefndur. Judomaður JR var fyrst valinn árið 2019.
Skarphéðinn Hjaltason er Judomaður JR 2024 og er það í fyrsta sinn sem hann hlýtur þann heiður. Skarphéðinn sem er tvítugur og keppir jafnan í -90 kg flokki stóð sig vel á árinu. Á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð var hann með silfur í -90 kg flokki karla og einnig í U21 árs aldursflokki karla . Á Copenhagen Open tapaði hann naumlega í úrslitum í -90 kg flokki karla. Hér heima stóð hann sig einnig frábærlega á árinu en hann varð Íslandsmeistari bæði í – 90 kg flokki og Opnum flokki karla. Á Reykjavík Judo Open (RIG) varð hann í þriðja sæti og með gullverðlaun á Vormóti JSÍ. Í U21 árs aldursflokki hér heima keppti hann í -100 kg flokki og sigraði á Íslandsmeistaramótinu og Afmælis og Vormóti JSÍ.
Romans Psenicnijs sem er sautján ára var kjörinn Judomaður JR 2024 í U21 árs aldursflokki og er það í annað sinn sem hann verður fyrir valinu en hann var einnig kjörinn 2023. Romans keppti í -73 kg flokki og er hér hans helsti árangur á árinu. Í U21 árs aldursflokki vann hann öll þau mót sem hann tók þátt í og einnig í U18 ára aldursflokki. Hann varð Íslandsmeistari í U21 árs aldursflokki og sigraði á Haustmóti, Vormóti og Afmælismóti JSÍ og endurtók svo leikinn á sömu mótum í U18 árs aldursflokki. Á Íslandsmeistramóti karla sigraði hann í -73 kg flokki og í Opnum flokki á sama móti varð hann í þriðja sæti. Hann sigraði einnnig bæði á Vormóti og Haustmóti JSÍ í karlaflokki. Að lokum þá tók hann bronsverðlaunin á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð í U18 ára aldursflokki.
Orri Snær Helgason sem er 15 ára var kjörinn efnilegasti Judomaður JR 2024 í U18/21 árs aldursflokki. Hann keppti jafnan í -60 kg flokki og stóð sig alveg frábærlega. Í U21 árs aldursflokki sigraði hann á Íslandsmeistaramótinu, Afmælismóti JSÍ og Vormóti JSÍ og sömu mótum í aldursflokki U18 sigraði hann einnig. Hann keppti líka í karlaflokkum og sigraði á Vormóti JSÍ í -60 kg flokki, varð annar á Reykjavík Judo Open (RIG) í -60 kg flokki og á Íslandsmeistaramóti karla í -66 kg flokki tók hann silfurverðlaunin. Í liðakeppninni varð hann Íslandsmeistari með sínu liði bæði í U18 og U21 árs aldursflokkum.
Judomenn JR 2019, 2020, 2021, 2022, 2023, 2024
Jólamót JR 2024 – úrslit
Jólamót JR 2024 fór fram í dag en það er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006. Keppt var í þremur senioraflokkum, -66 kg , sameinuðum flokki -73/81 kg og sameinuðum flokki -90/+90 kg. Samhliða þessari keppni var einnig og nú í annað sinn keppt í gólfglímu í aldursflokki 30 ára og eldri en fyrst var keppt í gólfglímu 2023. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir og eru þeir áletraðir með nöfnum sigurvegara hvers árs. Það er gaman að segja frá því að á meðal þátttakenda voru keppendur frá Ukraníu, Georgíu og Portúgal sem settu svip á mótið en þeir æfa allir hjá JR. Hér eru myndir frá mótinu, videoklippa og úrslitin 2024 og eldri úrslit 2023, 2022, 2021 og 2019.
Jólaæfing barna 2024
Í dag var haldin sameiginleg Jólaæfin barna frá fimm ára aldri til og með ellefu ára og var það jafnframt síðasta æfing ársins hjá þeim. Jólaæfingin er að venju aðallega í formi leikja en með smá upphitun áður en hafist er handa við leikina. Að leikjum loknum voru afhent viðurkenningarskjöl fyrir önnina og svo farið í setustofuna þar sem í boði voru drykkir, kökur, ávextir og ýmslegt fleira og kaffi fyrir þá fullorðnu. Vel var mætt og heppnaðist æfingin með ágætum. Það vantaði þó um fimmtán börn og bíða þeirra viðurkenningar sem þau fá afhentar næst þegar þau mæta. Hér er stutt videoklippa frá deginum. Æfingar hefjast aftur á 6. janúar á nýju ári.
Jóla/Afmælismót JR 2024 á morgun 18. des.
Jólamót/Afmælismót JR 2024 verður haldið miðvikudaginn 18. desember og hefst keppnin um kl. 18:15. Keppt verður í senioraflokkum en ekki öllum þyngdarflokkum. Einnig verður nú í annað sinn keppt í gólfglímu 30 ára og eldri. Þetta er innanfélagsmót sem fyrst var haldið 2006 og er það nú haldið í átjánda skipti en það féll niður 2020 vegna covid. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram því allir sem mæta á æfingu geta keppt og verður keppendum raðað í flokka að lokinni vigtun. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg en hugsanlega verða flokkar sameinaðir en það fer eftir þátttöku. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara. Hér eru úrslitin 2023, 2022, 2021 og 2019. Á mótinu verður einnig tilkynnt um val á Judomanni JR 2024, judomanni U21, þeim efnilegasta og sjálfboðaliða ársins.