Bjarnsteinn og Jóhann keppa í Tallinn

ICG (International Children´s games) eða alþjóðaleikar ungmenna verða haldnir í 57 skiptið dagana 3-8 ágúst í Tallinn í Eistlandi. Leikarnir sem eru viðurkenndir af Alþjóða Ólympíunefndinni hafa verið haldnir um víða veröld síðan 1968 og er þar keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum fyrir ungmenni á aldrinum 12-15 ára. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) hefur með stuðningi frá ÍTR sent þátttakendur á leikana frá árinu 2001 og hafa Reykvískir judomenn og konur tvisvar sinnum tekið þátt í þeim. Í fyrra skiptið var það þegar leikarnir fóru fram í Reykjavík árið 2007 og næst 2017 í Kaunas í Litháen. Nú fara leikarnir fram í Tallinn í Eistlandi eins og áður sagði og verða þeir Bjarnsteinn Hilmarsson og Jóhann Jónsson á meðal þátttakenda að þessu sinni ásamt Zaza Simonishvili þjálfara. Judokeppnin verður haldin þriðjudaginn 5. ágúst og keppir Bjarnsteinn í -73 kg flokki og Jóhann í -81 kg flokki og verða nánari upplýsingar um mótið settar hér inn um leið og þær fást. Myndin hér neðar var tekin í JR að lokinni síðustu æfingu þeirra í gær en þeir leggja af stað til Tallinn í nótt.