Baltic Sea Championship 2025

Það verða þrír keppendur frá JR sem taka þátt í Baltic Sea Championship 2025 en það er alþjóðlegt mót haldið í Orimattilla í Finnlandi dagana 6-7 des. Baltic Sea Championship er afar sterkt mót en skráðir keppendur eru 664 frá tíu þjóðum. Fyrir utan keppendur frá norðurlöndunum eru keppendur frá Eistlandi, Lettlandi, Þýskalandi, Ísrael og Úkraníu. Keppt er í aldursflokkum, U15, U17, U20 og senioraflokkum.

Keppendur okkar að þessu sinni í senioraflokki karla eru þeir Elías Þormóðsson sem keppir í -73 kg flokki, Vasileios Tsagkatakis -81 kg flokki og Mikael Ísaksson -90 kg flokki en auk þess keppa þeir Elías og Mikael einnig í aldursflokki U20. Keppt verður í U20 á laugardaginn og í senioraflokkum á sunnudaginn og báða dagana hefst keppni hjá þeim um kl. 11 á okkar tíma. Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu en hér er keppendalistinn og nánari upplýsingar um mótið. Þjálfari og fararstjóri er Þormóður Jónsson