Ársþing JSÍ 2025

Á 54. ársþingi Judosambands Íslands sem haldið var í dag og hófst kl. 11 fór fram kosning um formann en tveir voru í framboði þeir Björn Sigurðarson og fráfarandi formaður Gísli Egilson og var Gísli endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára. Einnig átti að kjósa um tvo stjórnarmenn og voru aðeins tveir tilnefndir þau Daníela Rut Daníelsdóttir og Eyjólfur Orri Sverrisson og voru því sjálfkjörin sem og þrír varamenn í stjórn þeir Logi Haraldsson, Ásgeir Erlendur Ásgeirsson og Ásbjörn Blöndal. Í aganefnd og skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir sömu menn og á síðasta starfsári. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sat þingið og ávarpaði það. Undir liðnum önnur mál voru fluttar nokkrar ræður sem fyrirspurnir og svör beint úr sætum. Þar sem engar tillögur eða lagabreytingar höfðu borist var þetta stutt og laggott þing sem var undir öruggri stjórn Valdimars Leó Friðrikssonar og sleit nýkjörinn formaður þinginu um kl. 13.