Afmælismót JSÍ 2025 – U18/U21 – Úrslit

Afmælismót JSÍ 2025 í aldursflokkum U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 1. mars. Mótið átti upphaflega að haldast 1. febrúar og þá einnig ásamt keppni í U13 og U15 en var frestað vegna veðurs. Keppni U13/U15 fór fram 8. febrúar en U18/21 var hinsvegar frestað lengur vegna Matsumae Cup en fjölmennur hópur frá Íslandi var á leið þangað. Það voru um fjörtíu keppendur skráðir til leiks en vegna veikinda og meiðsla var töluvert um afskráningar og urðu keppendur að lokum tuttugu og átta frá sex klúbbum. Samanlagður keppendafjöldi U13/15 og U18/21 í ár er sjötíu en voru fimmtíu og tveir 2024 sem er mjög jákvæð þróun. Mótið gekk vel fyrir sig að mestu, fullt af flottum viðureignum sem enduðu oft á glæsilegum ippon köstum sem sjá má í meðfylgjandi videoklippu. Mótsstjórn og tímavarsla var í höndum Jóhanns Mássonar, Ara Sigfússonar og Kjartans Magnússonar og um dómgæslu sáu þeir Sævar Sigursteinsson, Logi Haraldsson og Ármann Sveinsson. Hér eru úrslitin  myndir frá mótinu og verðlaunahöfum og videoklippa.