Afmælismót JR í yngri aldursflokkum var haldið laugardaginn 19. október í æfingasal JR og hófst það kl. 13 og lauk um kl. 15:30. Á þessu móti er keppt í aldursflokkum frá 7 ára aldri til og með 14 ára. Keppendur voru fimmtíu frá eftirfarandi átta klúbbum, Judodeild Grindavíkur, Judofélagi Reykjanesbæjar, Judodeild Selfoss, Judodeild Ármanns, Judodeild ÍR, Judofélagi Garðabæjar, Judofélagi Suðurlands auk JR. Þátttakan var svipuð og í fyrra en fleiri klúbbar að þessu sinni og voru átta núna en fimm 2023. Keppnin var skemmtileg og fullt af flottum viðureignum. Gaman var að fylgjast með þessum ungu keppendum sem margir hverjir sýndu glæsilegt judo. Starfsmenn mótsins voru þeir Ari Sigfússon, Þorgrímur Hallsteinsson og Bjarni Friðriksson sem sáu um vigtun og mótsstjórn og dómarar voru þau Weronika Komendera, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Mikael Ísaksson og Jónas Guðmundsson. Þeir Zaza Simonishvili þjálfari JR, Höskuldur Einarsson og Gunnar Ingi Tryggvason héldu utan um keppendur JR-inga. Auk þeirra var Snjólaug Helgadóttir þeim til aðstoðar og hvatti liðsfélaga sína áfram en hún átti að keppa og var mætt til þess en því miður vantaði mótherja gegn henni svo hún fékk enga keppni. Á morgunæfingu barna 5-6 ára hjá JR var haldið lítið æfingamót og glímdu börnin nokkrar gólfglímu viðureignir og fengu þau öll sín gullverðlaun að lokinni æfingu. Hér eru myndir frá mótinu og verðlaunahöfum og hér eru úrslitin. Video klippa er væntanleg.