Æfingabann framlengt til 12. janúar 2021

Ný reglugerð um íþróttastarf tekur gildi fimmtudaginn 10. desember

Allar æfingar og keppni í íþróttum er enn óheimil. Heimild er veitt til æfinga í efstu deildum kvenna og karla og afreksfólks.

Íþróttaæfingar iðkenda fædd árið 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deildum. Þetta þýðir þó ekki að ekki allir geti stundað íþróttir því þau lið sem ekki eru í efstu deild í sinni íþrótt geta ekki æft þótt liðið sé í meistaraflokki.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað í dag breytingar á sóttvarnaráðstöfunum. Þær taka gildi á fimmtudag, 10. desember og eiga að vara til þriðjudagsins 12. janúar 2021.

Breytingarnar eru að mestu í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Reglurnar sem gilda frá 10. desember 2020 – 12. janúar 2021:

Keppni

  • Öll keppni í íþróttum, bæði barna og fullorðinna, eru óheimil.

Æfingar

  • Íþróttaæfingar einstaklinga fæddra 2004 og fyrr, eru óheimilar, svo og íþróttaæfingar án snertingar innandyra.
  • Þrátt fyrir ákvæði um að ákvæði um einstaklinga fædda 2004 og fyrr þá er veitt heimild fyrir æfingum í efstu deild kvenna og karla í hverju sérsambandi innan ÍSÍ. Jafnframt eru æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum innan ÍSÍ heimilar.
  • Hámarksfjöldi í hverju rými er 25 manns. Sameiginleg búningsaðstaða verði lokuð. Sameiginleg áhöld verði sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag og þess gætt að loftræsting sé í lagi og loftað vel út nokkrum sinnum yfir daginn.
  • Íþróttaæfingar utandyra án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup, reiðmennska, skíðaíþróttir og þess háttar.
  • Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.
  • Öllum er heimilt að stunda skipulagðar æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar.
  • Sund og baðstaðir: Heimilt verður að hafa opið fyrir allt að 50% af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2005 og síðar teljast ekki þar með.
  • Börn: Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.
  • Íþróttaæfingar barna fæddra 2005 og síðar, inni og úti, með og án snertingar eru heimilar með þeim fjöldatakmörkunum sem gilda í skólastarfi.
  • Ráðherra getur veitt undanþágu frá banni við íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi eða vegna æfinga í næst efstu deild sérsambands Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands ef hún er skilgreind á sama afreksstigi og efsta deild, enda sé gætt fylltu sóttvarnaráðstafana að öðru leyti.

Ofangreint þýðir sem dæmi að ef félag er með kvennalið í efstu deild og karlalið í 2. deild þá má kvennaliðið æfa en ekki karlaliðið. Það þýðir enn fremur að séu fleiri en eitt félag í sveitarfélagi þá ræðst af því í hvaða deild liðið spilar hvort það megi hefja æfingar samkvæmt reglugerðinni.

Þetta þýðir líka að ungmenni, 16-18 ára, þurfa áfram að bíða eftir því að hefja æfingar með félögum sínum, séu þau ekki í meistaraflokki, afreksfólk í einstaklingsbundnum greinum eða að æfa utandyra án snertingar.

Nánari upplýsingar er að finna á vef heilbrigðisráðuneytisins og í eftirfarandi reglugerðum heilbrigðisráðherra og minnisblöðum sóttvarnalæknis: