Sveinbjörn Iura keppti í morgun í 81 kg flokknum á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Cedrick Kalonga (COD) í annari umferð en þeir sátu báðir hjá í fyrstu. Cedrick fékk snemma í glímunni refsistig fyrir stöðuga vörn en skoraði þó skömmu síðar wazaari þegar hann sótti óvænt í vinstra seoinage sem Sveinbirni tókst ekki að verjast. Eftir það tók Sveinbjörn alla stjórn á vellinum og sótti stíft en náði þó ekki að skora. Ekki munaði samt miklu í eitt skiptið þegar Sveinbjörn tók Tai-otoshi á Cedrick sem féll á hliðina en ekkert var gefið fyrir það. Sveinbjörn átti einnig ágætis tækifæri í gólfglímunni og ekki langt frá því að komast í fastatak en Cedrick slapp í öll skiptin með skrekkinn. Cedrick var orðin þreyttur og ekki leið á löngu þar til hann fékk næsta refsistig og nú fyrir ólögleg handtök og skömmu áður en tíminn rann út fékk hann sitt þriðja refsistig fyrir gervisókn “false attack” og var þar með búinn að tapa glímunni. Sveinbjörn féll úr keppni er hann tapaði næstu viðureign í þriðju umferð en þar mætti hann ofjarli sínum er hann lenti á móti efsta manni heimslistans, Saeid Mollaei (IRI) sem síðar um daginn varð heimsmeistari í flokknum.