Sunnudaginn 19. nóv. sl. hélt Judodeild Ármanns upp á sextugsafmæli sitt en það var stofnað 2. febrúar 1957 og er elsta judofélag landsins. Í tilefni áfangans var haldin opin sameiginleg æfing þar sem fjölmargir tóku þátt í henni bæði fyrrverandi og núverandi iðkendur deildarinnar sem og iðkendur annara klúbba. Að lokinni æfingu var haldið kaffisamsæti þar sem félagsmenn voru heiðraðir fyrir vel unnin störf til margra ára.
Það er ekki sjálfsagt mál að íþróttafélag nái sextíu ára aldri. Til þess að það gerist þá þarf félagið að hafa öflugt bakland, öfluga og fórnfúsa félaga sem leggja á sig mikla og óeigingjarna vinnu í áraraðir. Judodeild Ármanns hefur verið lánsamt hvað það varðar. Frá upphafi hafa þeir haft á að skipa frábærum mannskap sem lifði og hrærðist fyrir íþróttina. Judodeild Ármanns hefur verið öflugasta judo félag landsins í áraraðir og hefur unnið til flestra Íslandsmeistaratitla bæði í karla og kvenna flokkum fullorðinna.
Judofélag Reykjavíkur óskar Judodeild Ármanns og félagsmönnum þess til hamingju með áfangann og óskar ykkur alls hins besta í framtíðinni.