Heimsmeistaramótið í judo verður haldið í Baku í Azerbaijan dagana 20-27 september næstkomandi. Þar munu þeir Egill Blöndal (-90 kg) og Sveinbjörn Iura (-81) verða á meðal þátttakenda og með þeim í för Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari. Til stóð að keppendur okkar yrðu fleiri en Logi Haraldsson átti einnig að keppa á mótinu en hann meiddist í æfingabúðum í Hollandi fyrir tveimur vikum og er ekki orðinn keppnisfær og missir því af mótinu. Það gerir Þormóður Jónsson einnig en hann gat ekki gefið kost á sér þar sem hann er upptekinn í vinnu. Það er gríðarleg þátttaka á mótinu en keppendur eru 810 frá 131 þjóð, karlarnir 497 og konurnar 313. Í 81 kg flokknum hjá Sveinbirni eru 70 keppendur og í -90 kg hjá Agli eru þeir 84. Sveinbjörn keppir sunnudaginn 23. september og Egill daginn eftir. Hér verður hægt að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu og hér er keppendalistinn. Mótið verður einnig sýnt á Eurosport.