Judofélag Reykjavíkur stofnað 16. október 1965
Þegar Judofélag Reykjavíkur var stofnað hafði judo-íþróttin verið æfð hér á landi í nokkur ár á vegum judodeildar Ármanns. Í hópi þeirra ungu manna, sem ákváðu að stofna nýtt judofélag var þjálfari Ármenninga, Sigurður H. Jóhannsson, sem var brautryðjandi íþróttarinnar hér á landi og fyrsti íslenski judoþjálfarinn.
Þessir áhugamenn áttu hinsvegar enga sjóði til að afla sér húsnæðis eða kaupa dýnur svo að hægt væri að hefja æfingar. Einn judomannanna, Hörður G. Albertsson, bauðst þá til að veita fjárhagslega aðstoð svo að hægt væri að hefjast handa. Pantaðar voru japanskar dýnur og tekið á leigu til 5 ára húsnæði í húsi Júpeters og Mars á Kirkjusandi, þar sem Íslandsbanki varð síðar lengi til húsa. Æfingasalur og var innréttaður á rishæðinni ásamt annarri íþróttaaðstöðu, og þar var haldinn stofnfundur Judofélags Reykjavíkur 16. október 1965. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Sigurður H. Jóhannsson og með honum í stjórn þeir Hörður G. Albertsson og Ragnar Jónsson.
Það var framlag Harðar sem gerði félaginu mögulegt að stíga fyrstu skrefin og brátt óx félaginu fiskur um hrygg. Flestir bestu judomenn landsins gengu í félagið og stöðugt bættust við nýir efnilegir þátttakendur.
Hinsvegar gekk ekki átakalaust að koma félaginu inn fyrir vébönd íþróttahreyfingarinnar. Töf varð á inngöngu þess í ÍBR en það stóð þó ekki lengi og félagið varð brátt fullgildur aðili að ÍSÍ.
Stofnendur félagsins höfðu áður hafið samskipti við judosamtök og judomenn erlendis, bæði í Englandi og Danmörku. Þeir John Newmann 4. dan, Japaninn Kisaburo Watanabe 5. dan og Daninn Bernard Paul 1. dan höfðu allir haldið námskeið hér. Þessi tengsl voru styrkt enn betur eftir stofnun JR einkum voru voru mikil samskipti við Budokwai-klúbbinn í London og meðal frábærra judomanna þaðan sem heimsóttu JR í árdaga félagsins og héldu námskeið voru Bretarnir Sid Hoare 4. Dan sem kom þrisvar sinnum, Tony Sweeney 6. dan og Alex Fraser 2. dan.
Eftir að Judofélag Reykjavíkur varð að víkja fyrir stórfyrirtækjum á Kirkjusandi var æfingaaðstaða á nokkrum stöðum í borginni uns félagið fékk ágætt húsnæði í Ármúla 17 árið 2000 þar sem félagið hefur nú aðsetur og góða aðstöðu til æfinga og keppni.