Copenhagen Open 2024

Copenhagen Open 2024 hefst föstudaginn 29. mars og verður fjöldi keppenda frá Íslandi á meðal þátttakenda og keppa þeir í aldursflokkum U15, U18 og +18 ára. Frá JR fara eftirfarandi tíu keppendur en það eru þau Jóhann Jónsson sem keppir í U15 og í U18 keppa þau Emma Thueringer, Orri Helgason, Mikael Ísaksson, Gunnar Tryggvason, Jónas Guðmundsson, Elías Þormóðsson og Viktor Kristmundsson, og keppa flest þeirra einnig í 18+ sem og þeir Daron Hancock og Skarphéðinn Hjaltason og með okkur úr KA kemur Samir Jónsson og mun hann bæði keppa í U18 og 18+.

Keppni í U18 verður á föstudaginn og á laugardaginn verður keppt í aldursflokkum U15 og 18+. Myndin hér neðar var tekin að lokinni æfingu í kvöld en hópurinn leggur af stað í nótt ásamt þremur þjálfurum og nokkrum foreldrum. Hér eru upplýsingar um mótið og keppendalistann er hægt að skoða í Registration.

Mótið verður í beinni útsendingu og fréttir og upplýsingar verða settar á facebook síðu JR .

Páskamót JR 2024

Páskamót JR og Góu verður nú haldið í nítjánda sinn laugardaginn 6. apríl og er mótið opið öllum klúbbum eins og venjulega. Skráning í skráningarkerfi JSÍ og er skráningarfrestur til miðnættis þriðjudagsins 2. apríl og sjá klúbbarnir um að skrá þátttakendur ekki foreldrar. Keppt verður í aldursflokkum 7-10 ára frá kl. 12-14 (vigtun frá 11-11:30) og 11-14 ára frá 14-16 (vigtun frá 13-13:30). Ef breytingar verða á dagskránni þá verða þær birtar hér að loknum skráningarfresti. Sama dag verður Páskamót JR fyrir börn 5-6 ára haldið á æfingatíma þeirra frá 10-11 og er það eingöngu innanfélagsmót.

Páskafrí frá og með 28. mars

Það styttist í páskafrí hjá okkur en það verða æfingar í dag, á morgun og miðvikudag en páskafrí hefst svo á skírdag, fimmtudaginn 28. mars. Æfingar hefjast aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 2. apríl. Það gæti þó verið að það verði æfing annan í páskum hjá meistaraflokki og framhaldi 15 ára og eldri og verður það þá auglýst hér og á facebook.

Gleðilega páska.

Vormót JSÍ seniora 2024 úrslit

Vormót JSÍ í seniora flokkum var haldið í dag, laugardaginn 23. mars í JR. Keppendur voru þrjátíu og einn frá níu klúbbum. Keppnin var virkilega skemmtilegt, fullt af glæsilegum og spennandi viðureignum og flottum köstum. Mótið hófst kl. 13 og lauk um kl. 15:30. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve margar konur voru á meðal keppenda en undanfarið hefur verið töluverð aukning á þátttöku þeirra í íþróttinni bæði í eldri og yngri aldursflokkum. JR- ingar voru hlutskarpastir að þessu sinni með fjögur gull, tvenn silfurverðlaun og þrjú brons. Í öðru særi var Judodeild Ármanns með tvenn gullverðlaun og í þriðja sæti var yngsta judofélag landsins, Judofélag Suðurlands með ein gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og eitt brons. Hér eru myndir frá mótinu, stutt videoklippa og hér eru úrslitin.

Sextán gull á Vormóti JSÍ yngri 2024

Vormót JSÍ í yngri aldursflokkum (U15, U18, U21 árs) fór fram laugardaginn 16. mars og var það í umsjón Judodeildar KA og voru það þeir Hans Rúnar Snorrason og Sigmundur Magnússon sem að höfðu veg og vanda af því og var framkvæmd öll til fyrirmyndar. Dómarar voru þeir Ari Sigfússon, Gunnar Jóhannesson og Jakob Burgel Ingvarsson og leystu þeir sitt verkefni vel af hendi. Til Akureyrar var farið í tveimur rútum og voru keppendur frá JR tuttugu og fjórir og fjórtán þeirra kepptu í tveimur aldursflokkum. Með þeim voru þjálfararnir Guðmundur Björn Jónasson, Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson og auk þeirra nokkrir feður keppenda sem sáu um aksturinn og fararstjórn þeir Alfreð Atlason, Helgi Einarsson og Hilmar Arnarson. JR- ingar áttu frábæran dag og unnu samtals til sextán gullverðlauna, ellefu silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Til hamingju með árangurinn. Hér eru úrslitin og hér er hægt að horfa á allt mótið sem var í beinni útsendingu og hér er stutt videoklippa frá því.

Vormót JSÍ 2024 – senioraflokkar

Vormót JSÍ 2024 í seniora flokki karla og kvenna (15 ára og eldri) verður haldið í Judofélagi Reykjavíkur laugardaginn 23. mars næstkomandi. Þeir JR ingar sem ætla að taka þátt láti þjálfara sinn vita við fyrsta tækifæri en skráningarfrestur er til miðnættis þriðjudagsins 19. mars. Hér eru úrslitin frá mótinu 2023 og stutt videoklippa.

Vormót JSÍ 2024 yngri flokkar á Akureyri

Vormót JSÍ 2024 í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18 og U21 árs) verður haldið á Akureyri 16. mars í KA heimilinu. Keppt verður í aldursflokkunum U13, U15, U18 og U21 og hefst mótið kl. 10 eins og lýkur væntanlega um kl. 15. Gert er ráð fyrir að vigtun verði einnig eins og undanfarin ár í KA heimilinu föstudagskvöldið 15.mars frá kl.19-21:00 og einnig verði þá hægt að vigta sig að morgni mótsdags. Farið verður með rútu frá JR föstudaginn 15. mars kl. 14 og komið til baka daginn eftir um kl. 21. Kostnaður, rúta og gisting (hótel/uppábúin rúm með morgunmat) um 15.000 kr. sem JR leggur út fyrir og rukkar svo þátttakendur í vikunni að loknu móti en þátttakendur þurfa þó að hafa með sér pening fyrir mat og drykkjum sem hver og einn ákveður sjálfur. Með hópnum fara þrír þjálfarar frá JR. Myndin hér ofar er frá mótinu í fyrra.

Halldór Guðbjörnsson 7. dan

Halldór Guðbjörnsson var í dag gráðaður í 7. dan og fékk viðurkenningarskjal því til staðfestingar afhent af forseta Evrópu Judosambandsins (EJU) Dr. László Tóth en hann er staddur hér á landi í tilefni Kids Festival sem haldið var hér á landi. Til að hljóta þessa gráðu þarf Judosamband Íslands að fá samþykki bæði EJU og Alþjóða Judosambandsins (IJF) og gráðuhafi að uppfylla ýmis skilyrði og þar á meðal lágmarkstíma frá síðustu gráðun sem er tíu ár. Halldór er vel að þessari gráðu kominn, til hamingju Halldór.

Farið í sund og út að borða

Það mættu tólf börn úr 11-14 ára hópnum auk tíu foreldra og eða aðstandenda í Sundhöllina í dag en það var ákveðið að nota daginn sem frátekinn hafði verið fyrir Kids Festival en hafði verið fært á annan dag og gera eitthvað annað í staðinn. Niðurstaðan var sú að fara í sund og að því loknu að borða saman í Grillhúsinu. Það var mikið fjör og mikil stemming hjá krökkunum og skemmtu þau sér vel og það sama má segja um þau fullorðnu. Þetta var afar vel heppnað og verður örugglega endurtekið og helst reglulega en kanski með einhverjum öðrum hætti og með fleiri aldursflokkum.